Gerð uppdrátta af túnum og matjurtagörðum, túnakort, á rót að rekja til frumkvæðis Ræktunarfélags Norðurlands og Búnaðarfélags Íslands í upphafi tuttugustu aldar. Á búnaðarþingi árið 1913 var samþykkt að beina þessu máli til alþingis sem samþykkti lög um mælingar á túnum og matjurtagörðum númer 58 3. nóvember 1915. Á grundvelli laganna var sett reglugerð 28. janúar 1916.
Atvinnumálaskrifstofa stjórnarráðsins, síðar atvinnumálaráðuneytið, hafði yfirumsjón með framkvæmd mælinganna. Sýslunefndir og búnaðarsambönd sáu um framkvæmdina og réðu búfræðinga eða aðra sem metnir voru hæfir til að annast mælingar og uppdrætti.
Samkvæmt reglugerðinni skyldi mæla öll tún og matjurtagarða á landinu, utan kaupstaða, og átti mælingunum að vera lokið árið 1920. Það gekk að mestu leyti eftir, en þó lauk mælingum í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu ekki fyrr en 1927 og 1929.
Mæla skyldi flatarmál túnanna „og stærð þeirra tilgreind í teigum (hektörum) með einum desimal.“ Einnig átti að gera ummálsuppdrátt af túnunum í mælikvarðanum 1:2000. Þrátt fyrir þetta ákvæði er notaður mælikvarðinn 1:1000 á nokkrum hluta uppdráttanna úr Múlasýslum og Austur-Skaftafellssýslu af því að það þótti auðveldara með þeim tækjum sem menn höfðu. Stærð matjurtagarða átti að mæla „í flatarskikum (fermetrum).“
Stjórnarráðið ákvað hvernig pappír skyldi nota og útvegaði hann. Mest voru notuð teikniblöð af stærðinni 38 x 56 cm, en stundum var blöðunum skipt í tvennt eða jafnvel fleiri hluta.
Uppdrættirnir eru yfirleitt greinargóðir, en mjög misjafnlega hefur verið vandað til þeirra. Sumir eru hreinustu listaverk en aðrir miklu einfaldari að allri gerð. Í Þjóðskjalasafni eru varðveittir ríflega 5.500 uppdrættir úr 205 hreppum. Í sumum tilvikum eru uppdrættir af túnum og matjurtagörðum fleiri en einnar jarðar á sama blaði.
Myndir af túnakortunum eru á vefsetri Archives Portal Europe. Hægt er að skoða túnakortin með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.