Sóknarmannatöl

Sóknarmannatöl, sem einnig nefnast sálnaregistur eða húsvitjanabækur, eru skrár yfir íbúa í kirkjusókn. Eitt af embættisverkum presta var að ferðast árlega, um þá sókn eða sóknir sem þeir þjónuðu, taka manntal, fylgjast með fræðslu barna og uppeldi, hegðun sóknarmanna og guðsorðabókaeign þeirra. Þessar upplýsingar færðu prestarnir í sérstakar bækur: sóknarmannatöl.

Í Þjóðskjalasafni eru varðveitt ríflega 1500 sóknarmannatöl. Það elsta er frá árinu 1744 (frá Þykkvabæjarklaustri). Í Vatnsfirði í Norður-Ísafjarðarsýslu voru sóknarmannatöl færð allt til ársins 1967 og ekki finnast yngri dæmi í Þjóðskjalasafni. Lang algengast er þó að skráningu sóknarmannatala hafi verið hætt með tilkomu þjóðskrár árið 1953, þó að lög um skráningu sóknarmannatala séu enn í gildi (erindisbréf handa biskupum frá árinu 1746).

Skráning upplýsinga úr sóknarmannatölum hófst síðla árs 2009 og síðan hefur verið haldið áfram eftir því sem fjármagn til skráningarinnar hefur leyft. Þessi skráning hefur aðallega farið fram á ýmsum stöðum úti á landi. Sóknarmannatölin eru birt á sérstökum vef þar sem hægt er að leita í skráðum upplýsingum. Síðan eru tengingar úr niðurstöðu leitarinnar í myndir af viðkomandi bókarsíðum og þar er unnt að skoða allar upplýsingar sem færðar voru til bókar á sínum tíma.

Byrjað var að skrá sóknarmannatöl í Norður-Múlaprófastsdæmi, síðan í Suður-Múlaprófastsdæmi. Næst koma svo Eyjafjarðarprófastsdæmi og Suður- og Norður-Þingeyjarprófastsdæmi. Þetta er gert til að bjóða upp á upplýsingar sem geta að einhverju leyti komið í stað upplýsinga í hinum glötuðu manntalsskýrslum af þessu landssvæði í manntalinu 1870. Á vef sóknarmannatalanna er hægt að lesa meira um sóknarmannatölin og fylgjast með framvindu verkefnisins og vefbirtingarinnar.

Skoða sóknarmannatalavefinn.