Tilraun til málvöndunar á 18. öld
ÞÍ, Rentukammer D3/7-26
Í sjötta og síðasta bindi Landsnefndarinnar fyrri 1770-1771 sem er nýkomið út á vegum Þjóðskjalasafns Íslands, Ríkisskjalasafns Danmerkur og Sögufélags er að finna tvö uppköst að konunglegri tilskipun um fiskveiðar og verslun á Íslandi. Annað uppkastið er á dönsku en hitt á íslensku. Íslenska uppkastið er nokkuð lengra og stendur nær endanlegum texta tilskipunarinnar eins og hún birtist þann 1. apríl 1776, en hana má lesa í Lovsamling for Island IV.
Í upphafi skjalsins er sögð nauðsyn á því að samræma fyrri tilskipanir um efnið og skerpa á þeim þar sem margir hafi farið á svig við reglur einokunarverslunarinnar og
„haft þar í frammi margs konar ójöfnuð, bæði með að sigla á innbyggjaranna fiskibáta og spilla þeirra veiðarfærum og líka á annan hátt.“
Í tilskipuninni er þó ekki að finna nein viðurlög gagnvart slíkum skemmdarverkum heldur eru þar tíundaðar refsingar og sektir handa þeim sem væru gripnir við ólöglega verslun, auk verðlauna fyrir þá sem tilkynntu slíka verslun til yfirvalda.
Í níundu og síðustu grein uppkastsins að tilskipuninni er það tekið sérstaklega fram
„að hún skuli kunngjörast eigi einasta á lögþinginu [Alþingi] heldur og alls staðar á landinu á næsta manntalsþingi eftir að hún er innkomin sem og að almúginn skuli síðan árlega vera minntur á hennar innihald og eftirlifun.“
Efni og boðskapur tilskipunarinnar átti að ná til allra og í því samhengi er athyglisvert að í íslenska uppkastinu er töluvert af útstrikunum. Þær eru í kringum 170 talsins og benda til þess að höfundur þess hafi lagt mikla íhugun í orðaval.
Sú tilskipun sem að lokum var lesin upp á manntalsþingum er á dæmigerðu íslensku embættismáli, með mörgum erlendum tökuorðum og svo er einnig í uppkastinu. Höfundi uppkastsins fannst til dæmis ekkert leiðréttingarvert við setninguna:
„ ... hvörri vexlu viðkomendur í Íslandi skulu vera skyldugir að veita viðtöku og láta sér nægja með hana, svo lengi slíkar vexlur prompte verða honoreraðar og útgoldnar.“
En sé litið á útstrikanirnar í uppkastinu í heild sinni má sjá greinilega viðleitni til þess að nota íslensk orð í staðinn fyrir orð af erlendum stofni.
Yfirstrikanirnar 170 eru af ýmsum toga, sumar eru mjög almenns eðlis og nokkrar snúa að stafsetningu. Afla er leiðrétt í abla, öngir aðrir í engir aðrir og svoddan í soddan, svo eitthvað sé nefnt. Orðinu alleinasta er víða breytt í einasta og ekki í eigi, hvort sem það hefur verið af því að höfundinum hafi þótt það orðalag hljóma „íslenskara“ eða einfaldlega formlegra. Lýsingarorðinu aðskiljanlegir (d. adskellige) er fyrst breytt í marg slags og loks í margskonar.
Orðinu aldeilis er ítrekað breytt í öldungis og latínuslettunni confisqveraður er breytt í forbrotinn en confiscation í forbrot. (Sem á nútímaíslensku útleggst í þessu samhengi að gera vörur upptækar.) Befaling er breytt í boð, skipsprovision í skipsnesti, betaling verður kaup og betalast verður gjaldast. Höfundur uppkastsins gerir tilraun til að þýða ýmis orð, eins og til dæmis arbitraire sem sannsýnilegur, visitation sem eftirsjón og lýsingarorðinu yfirbevísaður er tvisvar breytt í sannfærður. (Nútímaíslenska lumar ekki á fyllilega sambærilegu orði og yfirbevísaður, þess í stað er talað um að sekt einhvers sé fullsönnuð.) Ýmis útstrikuð orð fá þó stundum að fljóta með í uppkastinu athugasemdalaust, þar er þrátt fyrir allt stundum bæði talað um bítaling, að confisqvera og að vera yfirbevísaður.
Útstrikanir í skjalinu eru óvenju margar og þar er meðal annars strikað yfir orð sem voru íslenskum embættismönnum bæði töm og auðskiljanleg. Þær benda til þess að höfundinum hafi við nánari umhugsun þótt líklegt að orðin gætu vafist fyrir þeim almenningi sem átti að hlusta á þau á hverju ári á manntalsþingum. Það gerir skjalið óvenjulegt. Ef litið er á dómsskjöl frá seinni hluta 18. aldar má til að mynda finna fjöldamörg dæmi þess að almúgafólk sé fundið yfirbevísað að ýmis konar glæpum, hvort sem það voru þjófnaðir eða ofbeldisbrot, með rökstuðningi á embættismáli með ótal erlendum tökuorðum. Uppkastið að verslunartilskipuninni og útstrikanir þess geta því verið okkur þörf áminning um tilvist ákveðins málsniðs meðal íslenskrar menntastéttar sem hefur verið almenningi illskiljanlegt og gert alþýðufólk berskjaldaðra en ella í vissum aðstæðum, ekki síst réttarkerfinu.
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir ritaði kynningartexta.