September 2023

Kvikfjártal Árna og Páls

ÞÍ. Rentukammer 1928 D1/20 og D1/21. Kvikfénaðarskýrslur

Eftir margra ára harðindi á Íslandi fengu Árni Magnússon handritasafnari og Páll Vídalín varalögmaður það hlutverk árið 1702 að gera úttekt á högum landsins fyrir stjórnvöld í Danmörku. Ein af afurðum þeirrar vinnu var kvikfjártal. Þeir Árni og Páll sendu bréf til sýslumanna landsins 21. október 1702. Þar var útlistað hvernig kvikfjártalinu ætti að vera háttað. Hreppstjórum var falið að skrifa upp:

allann þann qvikfienad, er a næstkomande vore 1703 a mote fardögum a jordunum lifande er, so vel hia hialeigu og husmonnum sem bændum edur ödrum jardanna abuendum. Skal i þessu qvikfiar registre first setiast bæar eda hialeigu nafned, þar næst abuandans, og so hvad hia sierhverium til er af kuum, qvigum, kalfum, gielldnautum med synum alldre, asaud og gielld fie med synum alldre, geitfie, þar þad vera kann, hestum, hrossum, folum edur unghryssum aungu undann skildu. Hia sierhvoriu skal setiast, hvad af þessu jardar innstæda er og hvad abuandans eign. Item þar sem so vid haga kann, hvad hier af til vetrar gaungu edur fódurs þar verid hefur, og hvadann. Hier til kunna hreppstiorar i vor fyrer fardaga i sveitunum samkomur ad hallda. Enn ydur tilseigest þa, so vel sem sialfa qvikfienadarins eignar menn, alvarliga ad aminna, ad þeir hier i aungvann yferdrepskap eda hirduleise sia late, helldur qvikfied so frammtelie og uppteikne, ad eckert, sem sagt er, undann fellest. [1]

Kvikfjártalið var að mestu tekið saman frá 16. maí til 4. júlí 1703, enn einnig eru dæmi um að kvikfé hafi verið skráð skömmu áður eða eftir þetta tímabil. Yngsta skráningin er frá 8. maí 1704 frá Möðruvallaklaustri í Eyjafjarðarsýslu. Það er eina skráningin sem hefur varðveist úr þeirri sýslu. Í mörgum tilvikum var kvikfjártalið tekið á almennum samkomum eða hreppstjórasamfundum þar sem bændur hafa gefið munnlega vitnisburði um sínar eignir. Einnig var í nokkrum tilvikum skilað inn skriflegum vitnisburðum á sneplum. Ekki er hægt að útiloka að skráningarmenn hafi verið á milli bæja í einhverjum tilvikum. Dæmi eru um að skráningin hafi verið ritstýrt af sýslumönnum áður en þeim var skilað til Árna og Páls. Á það við um Austur-Skaftafellssýslu í heild sinni þar sem Ísleifur Einarsson sýslumaður skrifaði að hann hefði „láted skýrara nidur rada og samanskrifa”. Þetta átti einnig við um kvikfjártal Langadalsstrandar í Ísafjarðarsýslu þar sem kemur fram að um afrit er að ræða og lýsingar á “peninga hrörlegt t(il) stand manna” voru teknar út.

Kvikfjártalið hefur varðveist frá 102 hreppum af 163 sem voru á Íslandi árið 1703. Sex sýslur hafa varðveist í heild sinni, þ.e. Þingeyjar-, V-Skaftafells-, A-Skaftafells-, N-Múla-, S-Múla-, Húnavatns- og Barðastrandarsýslur ásamt Vestmannaeyjum. Ekkert er til frá Hnappadalssýslu. Í öðrum sýslum er misjafnt hvað varðveist hefur.

Skráningin er misjöfn á milli hreppa. Er hún allt frá því að vera upptalning á skepnum í að vera nákvæm lýsing á ásigkomulagi fénaðarins. Athugasemdir eða lýsingar á skepnunum geta t.d. verið: tannlaus, reisa, hölt, sjónlaus og annað þess háttar. Einnig er misjafnt hvort allar upplýsingarnar sem Árni og Páll útlistuðu í beiðni sinni koma fram og hversu skýrar þær eru. Til að mynda er ekki alltaf ljóst hver var eigandi skepnanna, þó þeir Árni og Páll hafi sérstaklega tiltekið að það væri skráð.

Ýmsar aðrar upplýsingar en þær sem Árni og Páll báðu um er einnig finna í kvikfjártalinu, þó mismikið eftir hreppum. Dæmi um slíkt er upplistun á skuldum bænda, hvernig skepnurnar voru fóðraðar og fleira. Kvikfjártalið er því ekki aðeins heimild um búfjáreign og búfjárstöðu einstakra bændaheimila heldur gefur okkur einnig innsýn í búskapinn.

Kvikfjártalið er einstök heimild og borin saman við aðrar samtímaheimildir getur gefið okkur áhugaverða sýn á hagi bænda árið 1703.

Höfundur kynningartexta: Ragnhildur Anna Kjartansdóttir

Heimildir

  • Arne Magnusson, Embedsskrivelser og andre offenlige aktstykker, Kr. Kålund gaf út (København: Gyldendal 1916), bls. 12-13.
  • Gunnar Örn Hannesson, Kvikfjártalið 1703 í Grímsnesi. BA ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands 2006.
  • ÞÍ. Rentukammer 1928 D1/20 og D1/21
  • Ragnhildur Anna Kjartansdóttir, Fóðrun og hagaganga aðkomufjár í kvikfjártalinu 1703. BA ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands 2020.
 

[1]Arne Magnusson, Embedsskrivelser og andre offenlige aktstykker, bls. 12-13.

Kvikfjártal úr Strandasýslu 1703.
Kvikfjártal úr Strandasýslu 1703.
Kvikfjártal úr Strandasýslu 1703.
Kvikfjártal úr Strandasýslu 1703.