Júlí 2023

Lóðaafmörkun í Reykjavík 1861

ÞÍ. Landsbanki Íslands 2018. AJ/478-1. Uppdrættir af götum og húsum í Reykjavík 1861

Í skjalasafni Landsbanka Íslands, sem barst til Þjóðskjalasafns árið 2018, kennir margra grasa. Eitt af því sem vakti athygli skjalavarða þegar afhendingin barst til safnsins er kortabók eða mappa. Hún ber með sér að hafi verið gerð árið 1860 eða 1861 og inniheldur uppdrætti af lóðamörkum í Reykjavík með götuheitum auk sérstakrar skráar með nafni lóðarhafa. Kortablöðin í bókinni eru yfir 30 talsins og virðist ná yfir allt það landssvæði sem Reykjavík hafði yfir að ráða.

Bókin ber reyndar með sér að hafa alls ekki haft sinn uppruna í safni Landsbankans enda var bankinn ekki stofnaður fyrr en 1885. Aukinheldur er mappan með merkingu bæjarfógetans í Reykjavík og hefur eflaust verið gerð til að hafa yfirlit yfir afmarkanir lóða og eigendur þeirra. Af getgátum má áætla að bókin hafi ratað til Landsbankans þar sem hún skapaði á vissan hátt grunn að því að hægt væri að lána út á einstakar lóðir eða hús. Hvenær það hefur gerst er ójóst, en í öllu falli hefur bókin dagað uppi í Landsbankanum en er nú dregin fram í dagsljósið.

Eftir því sem Reykjavík óx urðu viðgangsefni bæjaryfirvalda fjölbreyttari. Til dæmis var byggingarnefnd skipuð árið 1839 og hafði það hlutverk að gefa leyfi til bygginga og huga að lagningu og stefnu gatna. Árið 1848 fengu götur Reykjavíkur loks opinber nöfn og húsin númeruð og þá voru staðfest þau götunöfn gömlu Reykjavíkur sem við þekkjum enn í dag. Í bókinni sem hér er til umfjöllunar eru hin nýju nöfn skráð og eins og áður segir voru nöfn eigenda rituð í sérstaka skrá fremst í henni. Með ritun nafn síns staðfestu eigendur rétt lóðamörk og því má segja að bókin sé öðrum þræði einhvers konar landamerkjabók Reykjavíkur sem lýsi stöðu mála laust eftir miðja 19. öld.

En hver gætu tildrög þessa verks hafa verið? Svaranna er að leita í gjörðabókum bæjarstjórnar Reykjavíkur og skjalasafni bæjarfógetans í Reykjavík. Síðla árs 1860 fól bæjarstjórn bæjarfógeta að skipa menn til að framkvæma nákvæma mælingu á lóðum í Reykjavík. Var það gert til að uppfylla tilskipun dómsmálaráðuneytisins í Kaupmannhöfn um að skattleggja bæri auðar lóðir og tómthús í bænum. Vissulega voru til uppmælingar yfir ýmsar byggðar lóðir í Reykjavík en yfirlit skorti yfir aðrar lóðir.

Í bréfabók bæjarfógeta í desember árið 1860 eru skipunarbréf til handa mönnunum sem skipaðir voru til nefndarstarfa að mæla upp óbyggðar lóðir í bænum. Það voru þeir Jakob Sveinsson trésmiður, Einar Þórðarson prentari og Árni Gíslason lögreglumaður. Síðar var Guðmundur Lambertsson kaupmaður skipaður, að því er virðist í stað Einars prentara. Þá var skipuð önnur nefnd með það sérstaka hlutverk að skoða og mæla lóðir tómthúsa. Þar var Guðmundur Þórðarsson í Hólkoti skipaður og fékk hann einnig tvo menn til að sinna því verki með sér, eða þá Alexíus Árnason lögregluþjón og Einar Jónsson trésmið og byggingarnefndarmann.

Í skipunarbréfum kemur fram að bæjarstjórn hafði þegar verið búin að láta teikna upp kort af bænum þegar mennirnir voru skipaðir til nefndarstarfa og gætu þeir fengið að sjá það á skrifstofu bæjarins. Ekki liggur fyrir hvaða kort var þar um að ræða eða hver gerði það, en að minnsta kosti hefur það verið grunnur að vinnu nefndarmanna við áframhaldandi útmælingar. Engar fyirskipanir lágu fyrir nefndarmönnum að láta teikna nýtt kort og má því vera að þeir hafi bætt við fyrirliggjandi kort eða jafnvel gert ný. Á forsíðu kortabókarinnar er undirskrift Jakobs Sveinssonar trésmiðs og má ætla að hann hafi haldið þar á penna, annað hvort við endurbætur eldri korta eða við gerð nýrra.

Hér er einungis tæpt á sögu þessarar kortamöppu sem fannst í skjalasafni Landsbanka Íslands. Uppmælingarnar og kortin eru afar merkileg heimild og ber vott um að kjörnir fulltrúar Reykvíkinga gerðu sér grein fyrir að nauðsynlegt væri að skrásetja og afmarka byggðina enda blés bærinn út á þessum tíma og úthlutanir lóða og greiðsla afgjalds af þeim með viðameiri verkefnum sem voru á herðum bæjarstjórnar. Full ástæða er til að rannsaka þessi gögn frekar enda er hér einungis ætlunin að vekja athygli á þessari heimild og hvers vegna hún er skráð sem hluti skjalasafns Landsbanka Íslands, þó hún eigi þar ekki sinn uppruna. Hér er einungis birtur hluti þeirra korta sem eru í bókinni en hægt er að sjá öll kortin á vefslóðinni: http://skjalaskrar.skjalasafn.is/a/IS-%C3%9E%C3%8D-0957-2018-004-A-AJ-0478-01-001

Höfundur kynningartexta: Unnar Rafn Ingvarsson

Heimildir

Upplýsingar um lóðir - Aðalstræti - Austurvöllur
Upplýsingar um lóðir - Brattagata - Vonarstræti
Upplýsingar um lóðir - Hafnarstræti - Kirkjugarðsstígur
Kort af lóðum - Hafnarstræti
Kort af lóðum - Hafnarstræti frh
Kort af lóðum - Grjótagata