Mars 2024

Sparisjóður Vestur-Barðarstrandarsýslu

Fyrsti sparisjóðurinn í heiminum var stofnaður í Þýskalandi árið 1778 og árið 1810 var fyrsti sparisjóðurinn á Norðurlöndum stofnaður í Danmörku. Fyrsti íslenski sparisjóðurinn var svo stofnaður árið 1858, Sparnaðarsjóður búlausra í Skútustaðahreppi. Hann lifði þó ekki lengi og var lagður af 1864. Árið 1868 var stofnaður annar sparisjóður, það var á Seyðisfirði og fékk hann nafnið Sparisjóður Múlasýslna. Líftími hans var enn styttri og var lagður af árið 1870. Á næstu árum voru svo stofnaðir sparisjóðir víða um land.

Þessir elstu íslensku sparisjóðir höfðu það hlutverk að varðveita og ávaxta pening sjóðsfélaga sinna og greiða fyrir viðskiptum þeirra. Ávöxtun fór aðallega fram með kaupum á ríkisskuldabréfum, veðdeildarbréfum og öðrum skuldabréfum. Fé var lánað til fólks gegn veði í ýmist jörðum, handveðum eða húseignum. Víxillán voru einnig veitt ef ábyrgðarmenn þóttu áreiðanlegir. Í samþykktum sparisjóðanna var yfirleitt ákvæði um að íbúar í heimabyggð nytu forgangs að lánum úr sjóðunum. Þeir þóttu fremur varkárir í útlánum og áttu til að gera veðkall ef staða lántakanda þótti vera orðin vafasöm. Ef illa gekk að endurgreiða lán vegna slæmrar stöðu lántakanda reyndu sparisjóðirnir frekar að semja um endurgreiðslu þegar betur áraði frekar en að beita hörku í innheimtu. Sparisjóðirnir gátu lent í lausafjárvanda ef viðskiptamenn vildu í stórum stíl fá greitt út sjóðsfé sitt, til dæmis ef efnahagsástand var lélegt. Þá höfðu sjóðirnir ekki aðra leið til fjármögnunar en að innheimta fé sem þeir áttu útistandandi.

Árið 1892 boðaði séra Lárus Benediktsson prestur í Selárdal við Arnarfjörð ýmsa menn úr Vestur-Barðastrandarsýslu til fundar. Fundurinn fór fram 29. apríl á Vatneyri við Patreksfjörð og var tilgangur hans að ræða stofnun sparisjóðs fyrir sýsluna. Fyrir fundinn hafði séra Lárus samið samþykktir fyrir sparisjóðinn. Samkvæmt þeim skyldu stofnendur sjóðsins vera 18 talsins. Sex úr Rauðasandshreppi, fjórir úr Barðastrandarhreppi, þrír úr (Ketil)Dalahreppi, þrír úr Tálknafjarðarhreppi og tveir úr Suðurfjarðarhreppi. Þeir skuldbundu sig til þess að ábyrgjast að sjóðurinn stæði í skilum. Sjóðurinn skyldi kjósa fimm manna stjórn og lagðar þær kvaðir á stjórnarmenn að allavega þrír þeirra skyldu búa við verslunarstaðina Vatneyri og Geirseyri í Patreksfirði á meðan sjóðurinn hefði starfsstöð þar.

Tillögur séra Lárusar voru samþykktar samhljóða og því næst fór fram stjórnarkjör. Þar voru kosnir þeir Adam Fischer sýslumaður, Sigurður Bachmann kaupmaður á Vatneyri, Kristján Guðmundsson verslunarmaður á Geirseyri, séra Lárus og Einar Magnússon. Þrátt fyrir að séra Lárus hafi verið frumkvöðull af stofnun sjóðsins baðst hann undan stjórnarsetu á þeim forsendum að hann byggi of langt frá Patreksfirði og var orðið við þeirri bón hans. Í hans stað hans var kosinn séra Jónas Bjarnason í Sauðlauksdal.

Daginn eftir hélt stjórnin sinn fyrsta fund þar sem Sigurður Bachmann var kosinn formaður, Fischer sýslumaður gjaldkeri og séra Jónas skrifari. Ákveðið var að kaupa gjörðabók, aðalbók, kvittanabók og fleiri nauðsynlegar bækur fyrir rekstur sparisjóðs. Þá var séra Jónasi falið að skrifa Birni Jónssyni ritstjóra Ísafoldar og panta hjá honum 300 viðskiptabækur sem myndu innihald lög nýja sparisjóðsins og innsigli. Innsiglið má meðal annars sjá í bókum sparisjóðsins.

Stjórnin hittist næst 13. júní 1892 þar sem rætt var að helstu bækur voru komnar í hús og má segja að sparisjóðurinn hafi verið tilbúinn til þess að hefja starfsemi. Stjórnin ákvað að auglýsa stofnun sparisjóðsins í blaðinu Ísafold. Auglýsingin birtist 25. júní og kom þar fram að sparisjóðurinn væri tekinn til starfa og tekið væri við inn- og útborgunum á skrifstofu hans á Geirseyri fyrsta og þriðja mánudag hvers mánaðar eftir hádegi. Sérhver viðskiptavinur fengi löggilta viðskiptabók með lögum sjóðsins sem kostaði 35 aura. Að lokum kom fram að stofnendur sjóðsins ábyrgðust 2.000 krónur fyrir sjóðinn.

Fyrsta lán sjóðsins var síðan veitt um tveimur mánuðum síðar. Þann 29. ágúst 1892 samþykktu formaður og gjaldkeri að lána Páli Kristjánssyni í Skápadal 100 krónur. Sjóðurinn starfaði áfram næstu árin en árið 1915 var reksturinn orðinn erfiður. Í fundargerðum aðalfunda árin á undan höfðu verið lagðar fram tillögur um að ganga á eftir greiðslum vaxta svo þeir safnist ekki upp og á aðalfundi 15. júní 1915 kom fram að næstum allir sem ættu inneign í sjóðnum væru búnir að senda inn tilkynningar um úrsögn sína úr sjóðnum. Ákveðið var að kjósa nefnd til þess að ákveða næstu skref. Stjórnin kom svo aftur saman 20. júlí sama ár og var þá borin upp tillaga nefndarinnar um að slíta sjóðnum. Var þetta seinasta fundargerðin sem skráð var niður í gjörðabók félagsins en í öðrum skjölum sparisjóðsins má sjá að slitameðferðin stóð yfir í nokkur ár. Síðar störfuðu Sparisjóður Rauðasandshrepps og Eyrasparisjóður í Patreksfirði.

Skjalasafn Sparisjóðs Vestur-Barðastrandarsýslu var nýlega afhent á Þjóðskjalasafn ásamt skjalasöfnum annarra sparisjóða á Vestfjörðum, Sparisjóðir Bolungarvíkur, Súgfirðinga, Önundarfjarðar, Mýrarhrepps, Þingeyrarhrepps, Rauðasandshrepps og Súðavíkur. Sparisjóður Vestur-Barðastrandarsýslu sker sig úr frá hinum í því að bæði er hann elstur og að hinir sparisjóðirnir enduðu allir eftir sameiningar sem annað hvort Sparisjóður Vestfjarða eða í Sparisjóði Bolungarvíkur. Þá hefur skjalasafn Sparisjóðs Hornafjarðar einnig verði afhent sem og nokkur frá Norðurlandi, skjalasöfn Sparisjóðs Svarfdæla, Hríseyjar og Árskógsstrandar.

Skjalasafn Sparisjóðs Vestur-Barðastrandarsýslu er öllu heillegra en sumra skjalasafna hinna sparisjóðanna. Eflaust vegna þess hversu stuttan tíma hann starfaði. Meðal þess sem má finna í skjalasafninu er fundargerðabók, gjaldabækur með skrá yfir tekjur og gjöld sjóðsins allan starfstíma hans, aðalreikningsbækur fyrir bróðurpart af starfstímanum og bréfabók sem nær yfir árin 1897–1918. Annars eiga skjalasöfn allra þessara sparisjóða það sameiginlegt að þau eru mjög lítil, einungis nokkrar öskjur fyrir hvern sparisjóð. Engu að síður leynast þar mikilvægar og áhugaverðar heimildir.

Geymsluskrá skjalasafns Sparisjóðs Vestur-Barðastrandarsýslu og hinna sparisjóðanna má finna á vef í skjalaskrám Þjóðskjalasafns.

Höfundur kynningartexta: Ólafur Valdimar Ómarsson

Heimildir

  • Ísafold 25. júní 1892
  • Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna. 1. bindi, Reykjavík 2014.
  • ÞÍ. Sparisjóður Vestur Barðastrandasýslu 2022 A/1–1
  • ÞÍ. Sparisjóður Vestur Barðastrandasýslu 2022 A/1–2
ÞÍ. Sparisjóður Vestur Barðastrandasýslu 2022 A1–1_Stofnfundargerð_1
ÞÍ. Sparisjóður Vestur Barðastrandasýslu 2022 A1–1_Stofnfundargerð_2
ÞÍ. Sparisjóður Vestur Barðastrandasýslu 2022 A1–1_Stofnfundargerð_3
ÞÍ. Sparisjóður Vestur Barðastrandasýslu 2022 A1–1_Stofnfundargerð_4
ÞÍ. Sparisjóður Vestur Barðastrandasýslu 2022 A1–1_Stofnfundargerð_5
ÞÍ. Sparisjóður Vestur Barðastrandasýslu 2022 A1–1_Stofnfundargerð_6
ÞÍ. Sparisjóður Vestur Barðastrandasýslu 2022 A1–1_Stofnfundargerð_7
ÞÍ. Sparisjóður Vestur Barðastrandasýslu 2022 A1–1_Stofnfundargerð_8
ÞÍ. Sparisjóður Vestur Barðastrandasýslu 2022 A1–2_Fundargerð stjórnar 13. júní 1892_1
ÞÍ. Sparisjóður Vestur Barðastrandasýslu 2022 A1–2_Fundargerð stjórnar 13. júní 1892_2
ÞÍ. Sparisjóður Vestur Barðastrandasýslu 2022 A1–2_Fundargerð stjórnar 13. júní 1892_3