Seglmastur á þurru landi: hugmyndaflug Sæmundar Magnússonar Hólm

Apríl 2022

Seglmastur á þurru landi: hugmyndaflug Sæmundar Magnússonar Hólm

ÞÍ. Teikninga- og kortasafn Þjóðskjalasafns Íslands 1000 A/50-1-1

Í teikninga- og kortasafni Þjóðskjalasafns Íslands, sem er nú að hluta til aðgengilegt á vef Þjóðskjalasafnins, er að finna teikningu af voldugu seglmastri. Þetta er nokkurs konar sjóveðurmerki sem gaf vísbendingu um ríkjandi vindátt.

Sæmundur Magnússon Hólm (1749–1821) teiknaði myndina en hann nam teikningu við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn en lauk síðar prófi í guðfræði. Taldi Sæmundur að með slíkum útbúnaði nærri fjörum og í fjörum við suðurströnd landsins mætti gera fiskveiðar skilvirkari og áhættuminni þar úti fyrir ströndum. Teikningin fylgir bréfi sem dagsett er 9. júní 1787. Í bréfinu skýrði Sæmundur mannvirkið og hugmyndina að baki því nánar. Líklegt er að teikningin og skýring hennar hafi verið tillaga sem hann sendi til rentukammers í Kaupmannahöfn þar sem hann bjó en yfirvöld höfðu í hyggju að efla fiskveiðar við Ísland eins og lagatilskipun frá 6. júní 1787 sýndi.

Listrænar gáfur og hugmyndaauðgi Sæmundar komu snemma í ljós. Í Æfum lærðra manna fjallaði Hannes Þorsteinsson þjóðskjalavörður (1860–1935) um Sæmund. Þar tók hann saman yfirlit um ævi Sæmundar og vitnaði m.a. í skýrslu Finns Jónssonar biskups í Skálholti til Laurits Andreasar Thodal stiftamtmanns, um stúdenta í Skálholtsskóla árið 1771 er Sæmundur var þar nemandi. Þar sagði að Sæmundur væri mjög áhugasamur um stærðfræði, teikningu og smíðar, þ.e. „mekaniske sager“. Þá var Sæmundur einnig mjög listfengur. Í bréfi til Eyjólfs Johnsoníusar, stjörnumeistara og skrifara Landsnefndarinnar fyrri, sagði Finnur biskup sumarið 1772 að Sæmundur væri einstaklega fær í smíðum og teikningu. Honum tækist ekki aðeins vel upp við að teikna eftir fyrirmyndum heldur væri hann sérlega hugmyndaríkur og gæti teiknað „modell“ byggð á ímyndunaraflinu. Hér átti Sæmundur engan sinn líka í hópi nemenda.

Engum gátu dulist hæfileikar Sæmundar og fljótlega í kjölfar námsins í Skálholti hóf ungi maðurinn nám í teikningu og listum í Danmörku sem áður sagði. Fleiri teikningar, sem að öllum líkindum eru eftir Sæmund og meðfylgjandi hugleiðingar um leiðir til að efla fiskveiðar, hafa varðveist. Myndir fylgja t.d. ritgerð hans sem ber yfirskriftina „Tanker om Fiske og Laxefangsen“.

Sæmundur hafði árinu áður en teikningin og uppfinningin var færð í orð og mynd verið á ferð á Íslandi. Þá fór hann meðal annars á heimaslóðir og kannaði þar eyðilegginguna sem Skaftáreldar, sem hófust sumarið 1783, höfðu haft í för með sér. Áhrifa eldgossins og móðuharðindinna hafði Sæmundur áður fjallað um á prenti, í riti sem kom út á dönsku og þýsku veturinn 1784. Mikilvægt var að finna leiðir til að byggja upp samfélagið við suðurströnd Íslands eftir hörmungar Skaftárelda sem eytt höfðu þar byggðum. Ekki er ólíklegt að uppfinningin hafi verið ein tillaga Sæmundar í þeim efnum en löngum hafði verið áhættusamt að sækja sjó frá verstöðvum við suðurströndina.

Teikningunni var fylgt úr hlaði með allnákvæmum skýringum. Allt frá Eyrarbakka til Berufjarðar var að sögn Sæmundar mikil fiskigengd, sérstaklega í mars, maí, júní og í lok júlí og ágúst. En erfitt og hættulegt væri að sækja sjóinn í briminu við suðurströndina og enn frekar þar sem bátar væru gjarnan vanbúnir. Engu að síður sagði Sæmundur að formenn og fiskimenn þeirra létu það ekki hindra útróðra. Það gæti aftur á móti verið lífshættulegt ef slæmt var í sjóinn. Sæmundur benti á að hætt hafi verið að gera út frá Álftaveri fyrir 300 árum, en þrír fiskibátar voru smíðaðir á árunum 1771–1772 til að athuga hvort hægt væri að hefja fiskveiðar þaðan á ný. Það sem helst kom í veg fyrir útgerð á þessum slóðum var hversu erfitt var að meta, jafnvel í bjartasta veðri, hvenær hægt væri að róa og hvenær ekki. En Sæmundur sá ráð við þessu: „Men her kunde de raade Bod paa som de ikke fik i Tanken og dog er let at see og simpelt nok“. Hægt væri að útvega langa og gilda tréstólpa eða mastur, en þá mátti að sögn Sæmundar kaupa á verslunarstöðum. Mastrinu þurfi svo að stinga beint niður í jarðveginn og treysta með fjórum öðrum tréstólpum. Nærri sjóveðurmerkinu sem kalla mætti nokkurs konar „vindamaskínu“ taldi Sæmundur heppilegt að byggt væri lítið hús en tilgreindi ekki í skýringum sínum hlutverk þess. Þar ætti hugsanlega að geyma þau tól og tæki sem tilheyrðu sjóveðurmerkinu. Þá fylgdi nákvæm lýsing á því hvernig hjólið eða vindan, sem sést til hliðar við mastrið, virkaði. Að lokum benti uppfinningamaðurinn á það að tæki sem þetta gæti orðið mikilvægur búnaður á öllum verstöðum við suðurströndina. Með þessum einfalda hætti mætti efla fiskveiðar, sem engin vanþörf var á á þessum landsvæðum. Þá myndi brátt sjást ávinningur því færri mannskæð sjóslys yrðu. En sjóslysin og ótímabærir mannskaðar af þeim sökum væru mesti missir fyrir landið.

Að lokum má geta þess að Sæmundur gaf upp stærðartillögur sjóveðurtækisins. Mastrið gæti verið 8, 10, 20 eða 30 faðma hátt, en 30 faðmar eru yfir 50 metrar. Til samanburðar má nefna að vindmyllur nútímans eru sumar hverjar álíka háar.

 

Heimildir

  • ÞÍ. Þjóðskjalasafn Íslands. Teikninga- og kortasafn Þjóðskjalasafns Íslands 1000 A/50-1-1 https://skjalaskrar.skjalasafn.is/r/MjAxMjY0MQ==
  • ÞÍ. Þjóðskjalasafn Íslands. Æfir lærðra manna 2019 A/58-1-1, Sæmundur Magnússon Hólm, bls. 30–76. https://skjalaskrar.skjalasafn.is/r/NjQxOTA1
  • Sæmundur Magnússon Hólm, Om Jordbranden paa Island i aaret 1783 (Kiøbenhavn: Peder Horrebow, 1784).
  • „Plakat ang. Opmuntringer for Fiskerie under Island“, í Lovsamling for Island 5 1784–1791, útg. Oddgeir Stephensen og Jón Sigurðsson (Kjöbenhavn: Andr. Fred. Höst, 1855), bls. 406–411.
  • Lúðvík Kristjánsson, Íslenzkir sjávarhættir III (Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1983), bls. 81, 132.
  • Már Jónsson, „Inngangur“, Draumadagbók Sæmundar Hólm (Selfossi: Sæmundur, 2019), bls. 11–58.
Bréf frá 9. júní 1787 sem útskýrir gerð seglmasturs
Bréf frá 9. júní 1787 sem útskýrir gerð seglmasturs
Bréf frá 9. júní 1787 sem útskýrir gerð seglmasturs
Bréf frá 9. júní 1787 sem útskýrir gerð seglmasturs
Teikning af seglmastri