Deilt um eignarrétt á einni frægustu fréttaljósmynd Íslandssögunnar

Febrúar 2022

Deilt um eignarrétt á einni frægustu fréttaljósmynd Íslandssögunnar

ÞÍ. Stjórnarráð Íslands, I. skrifstofa B/532, örk 18. Rannsókn. Finnbogi Rútur Valdimarsson kærir Valtý Stefánsson fyrir stuld á myndum.

Föstudaginn 16. september 1936 fórst franska rannsóknaskipið Pourquoi-Pas? í aftakaveðri undan Mýrum í Borgarfirði. Með skipinu fórust 40 manns og aðeins einn skipverji komst af, Eugène Gonidec yfirstýrimaður. Með skipinu fórst meðal annars leiðangursstjórinn og læknirinn Jean-Baptiste Charcot (f. 1867) sem var þekktur vísindamaður og hafði m.a. stjórnað leiðöngrum til Suðurheimskaustsins og um norðurslóðir.

Fréttir af þessu hörmulega slysi bárust fljótt til Reykjavíkur og daginn eftir bauð franski konsúllinn þremur mönnum með sér í bifreið á strandstað Pourquoi-Pas? Þessir menn voru Pétur Þ. J. Gunnarsson, kaupmaður, Árni Óla, blaðamaður á Morgunblaðinu og Finnbogi Rútur Valdimarsson, ritstjóri Alþýðublaðsins. Á strandstaðnum, sem var á milli bæjanna Álftanes og Straumsfjarðar á Mýrum, tók Finnbogi Rútur nokkrar ljósmyndir af staðháttum, af líkum skipsverja sem rekið höfðu á land og af skipverjanum Gonidec sem lifði slysið af. Þessar ljósmyndir áttu eftir að vekja mikla athygli og varð ljósmyndin af líkum skipsverja í fjörunni, þar sem lík Charcot er í forgrunni, ein af frægustu fréttaljósmyndum Íslands á 20. öld. Ljósmyndirnar birtust svo á forsíðu Alþýðublaðsins 19. september 1936 með frásögn um slysið. Ljósmyndirnar birtust líka í fjölmörgum erlendum blöðum, m.a. á Norðurlöndunum, Englandi, Frakklandi og Bandaríkjunum enda voru örlög Charcot og skipsverja á Pourquoi-Pas? stórfrétt í alheimspressunni.

Þessar ljósmyndir sem Finnbogi Rútur tók á slystað þann 17. september 1936 urðu svo deiluefni á mill tveggja ritstjóra sem stóðu hvor á sinni hlið í hinu pólitíska litrófi, þ.e. Finnboga Rúts Valdimarssonar (1906-1989), ritstjóra Alþýðublaðsins og Valtýs Stefánssonar (1893-1963), ritstjóra Morgunblaðsins.

Þann 10. október 1936 kærði Finnbogi Rútur stuld á ljósmyndunum til lögreglustjórans í Reykjavík:

Þar sem ég hefi nú fengið vitneskju um, að myndir þessar hafa verið seldar blöðum og birtar á Norðurlöndum og í Englandi og ef til vill víðar og ég hefi fulla ástæðu til að ætla að ákveðinn maður hér í bænum hafi á óheiðarlegan hátt komist yfir myndirnar og sent þær og selt til útlanda án minnar vitneskju og leyfis, leyfi ég mér að snúa mér til yðar, herra lögreglustjóri, og óska þess, að lögreglurannsókn verði látin fara fram um það með hvaða hætti það hefur verið og hver það hefur gert.

Taldi Finnbogi Rútur að „sá maður, sem þetta hefur gert, hafi framið ólöglegan verknað er hann seldi myndir, sem voru mín réttmæta eign“. Lögreglurannsókn fór af stað nokkrum dögum síðar og voru kallaðir til yfirheyrslu fyrrnefndir Pétur Þ. J. Gunnarsson kaupmaður og Valtýr Stefánsson ritstjóri. Í yfirheyrslum yfir þeim kom fram að Valtýr hafði fengið myndirnar hjá Eugène Gonidec, franska skipsbrotsmanninum sem lifði slysið af, en hann hafði fengið þær að gjöf frá Finnboga Rúti. Valtýr hefði látið taka afrit af myndunum og svo sent afritin með skipi til Danmerkur en síðan var þeim komið til bandarísku fréttastofunnar Associated Press, en Valtýr vann sem fréttaritari fyrir fréttastofuna hér á landi. Í yfirheyrslum yfir Valtý kom fram að hann taldi að Finnbogi Rútur gæti ekki selt afnotarétt af þessum myndum og því taldi hann sig vera í rétti að senda afrit af þeim til annarra aðila til birtingar. Hins vegar var ljóst að Valtýr hafði ekki haft heimild, né leitaði hann eftir henni, frá Finnboga Rúti til að taka afrit af ljósmyndunum og senda þær erlendis til birtingar. Það var þó mat lögregluyfirvalda að Finnbogi Rútur hefði ekki fengið einkarétt á umræddum ljósmyndum og því væri ekki um refsivert athæfi að ræða af hendi Valtýs Stefánssonar. Málið var fellt niður í mars 1937.

Ekki er að sjá að um þetta mál hafi verið fjallað í dagblöðum þess tíma og virðist sem að ritstjórarnir tveir ekki fjallað um málið í sínum blöðum.

Í skjalasafni I. skrifstofu Stjórnarráðs Íslands er að finna öll málsgögn um þetta mál, þ.m.t. sjö ljósmyndir sem Finnbogi Rútur tók á strandstað þann 17. september 1936.

Njörður Sigurðsson

Heimildir

  • Alþýðublaðið 19. september 1936, bls. 1.
  • ÞÍ. Stjórnarráð Íslands, I. skrifstofa B/532, örk 18. Rannsókn. Finnbogi Rútur Valdimarsson kærir Valtý Stefánsson fyrir stuld á myndum.
Ljósmynd Finnboga Rúts Valdimarssonar af líkum skipverja Pourquoi-Pas?
Forsíða Alþýðublaðsins 19. september 1936 með myndum Finnboga Rúts Valdimarssonar af strandstað Pourquoi-Pas?
Ljósmynd Finnboga Rúts Valdimarssonar af Eugène Gonidec og björgunarmanni hans, Kristjáni Steinari Þórólfssyni frá Straumfirði, 17. september 1936.
Ljósmynd Finnboga Rúts Valdimarssonar af skrifborði Jean-Baptiste Charcot sem hafði rekið upp í fjörur 17. september 1936.