100 ára gömul ferðasaga söngfélagsins „17. júní“

Mars 2017

100 ára gömul ferðasaga söngfélagsins „17. júní“

ÞÍ. Karlakórinn Fóstbræður 2010/47. C/1, örk 3. Fundabók söngfélagsins 17. júní 1911-1919.

Í skjalasafni Karlakórsins Fóstbræðra er m.a. varðveitt fundabók söngfélagsins „17. júní“ sem stofnað var í Reykjavík haustið 1911 og sótti nafn sitt til aldarafmælis Jóns Sigurðssonar sem fæddur var 17. júní 1811. Félagið var lagt niður um 1919. Í fundabókinni má m.a. finna skýrslu af ferð kórsins austur fyrir fjall þann 8. júlí 1917. Skýrslan telur samstals 15 handskrifaðar blaðsíður og er hún jafnframt myndskreytt með 15 ljósmyndum úr ferðinni sem límdar eru inn í bókina. Skýrslan er tvískipt, annars vegar ferðasaga eftir Benedikt Þorvaldsson Gröndal (1870-1938) og hins vegar eru vangaveltur um árangur og áhrif ferðarinnar en ekki kemur fram hver skrifar þann hluta skýrslunnar. Ekki er ljóst hvers vegna fundargerðarbók söngfélagsins „17. júní“ er varðveitt í skjalasafni Karlakórsins Fóstbræðra, sem áður hét Karlakór KFUM og var stofnaður 1916. Mögulega hafa skjöl félagsins borist þegar gamlir félagar söngfélagsins byrjuðu að taka þátt í starfi karlakórsins.

Ferðasagan

Samkvæmt upplýsingum sem ritaðar eru aftan við ferðasögu Benedikts Þorvaldssonar Gröndal var hún skráð niður fáum dögum eftir ferðina 8. júlí 1917. Ferðasaga Benedikts er lifandi og skemmtilega skrifuð. Benedikt var vanur skrifari, samdi ljóð og sönglög og enn í dag eru þekktir söngtextar hans, má þar nefna textann við jólalagið „Pabbi segir“.

Alls lögðu 18 félagar í söngfélaginu „17. júní“ af stað í dagsferð austur fyrir fjall kl. 10 sunnudaginn 8. júlí 1917 eða fyrir réttum 100 árum. Tilgangur ferðarinnar austur fyrir fjall var að syngja á þrennum tónleikum, á Sandhóli í Ölfusi, við Þjórsártún og á Eyrarbakka. Stjórn félagsins sá um skipulagningu ferðarinnar og var falið að „að útvega bifreið, sjá um að félagsmenn fengju einhversstaðar góða máltíð austanfjalls og hafa meðferðis væga vindla til afnota á leiðinni“ eins og það er orðað í skýrslunni. Haldið var af stað á fjórum bifreiðum.

Fyrsta söngskemmtunin var í samkomuhúsi Ölfusinga á Sandhóli, skammt frá Kotstrandarkirkju. Þar mættu 80 manns til að hlusta á kórinn. Fyrri hluti tónleikanna var í samkomuhúsinu en „sökum þess að sólskin var glatt og gluggar hússins sneru móti suðri gerðist svo heitt í húsinu að öllum kom saman um að best væri að syngja síðari hluta söngskrárinnar undir berum himni enda mátti heita að logn væri úti. Var því gengið út úr húsinu og röðuðu söngmenn sér undir eystri vegg hússins en áheyrendur stóðu í þyrpingu í hallanum“. Að lokinni söngskemmtuninni bauð séra Ólafur Magnússon, prófastur í Arnarbæli, söngmönnum upp á skyr með rjóma sem var vel þegið og þótti mönnum þetta „nýstárleg máltíð“ en samt „besta kræsing“.

Frá Sandhóli var haldið til Daníels Daníelssonar, ljósmyndara, sem rak greiðasölu og verslun í Sigtúni við Ölfusársbrú. Þar bauð Daníel mönnum upp á lax í miðdegisverð og skyr í eftirrétt. Kaffi var svo drukkið á grasflöt úti við húsið. Síðan var haldið að Þjórsártúni þar sem önnur söngskemmtun dagsins var haldin. Þar voru samankomnir um 80 áheyrendur. Í ferðasögunni nefnir Benedikt sérstaklega að eftir tónleikana í Þjórsártúni hafi komið til þeirra Gísli Einarsson (1851-1942) bóndi í Bitru í Flóa. Þakkaði Gísli söngfélaginu fyrir komuna og sagði að hann „vissi ekki til þess að kærkomnari gestir hefðu verið á ferð þar um slóðir heldur en söngfélagið „17. júní“ og að hann hefði síðastliðin 40 ár ekki betur varið peningum sínum heldur en hann hefði gert þennan dag er hann keypti sér aðgang að söngskemmtun félagsins“. Benedikt nefnir að kveðja Gísla bónda hafi borið „ljósan vott að maðurinn hefði orðið innilega snortinn af söngnum og að orð hans voru fölskvalaus og í allri einlægni mælt“.

Að lokinni vel heppnaðri söngskemmtun í Þjórsártúni lá leiðin til Eyrarbakka. Þurrt var í veðri og mikið ryk sem þyrlaðist upp eftir bílana á malarvegunum og lýsti Benedikt ferðinni svona: „Ösluðu bifreiðarnar rykið af jötunmóði, voru lítt huldar þykkum moldarmekki og litu út eins og ef menn hugsuðu sér kolmórauða skýstólpa fljóta með gandreiðarhraða eftir veginum. Vesturgola stóð á móti vögnunum og sló hún allmiklu ryki í augu og andlit þeirra er í þeim sátu enda voru þeir æði rykugir (vel að merkja: aðeins utan) þegar á Eyrarbakka kom.“ Á Eyrarbakka hélt söngfélagið tónleika fyrir 176 manns í barnaskólanum. Að loknum tónleikunum stakk söngstjóri félagsins, Sigfús tónskáld Einarsson, upp á því að sungin yrðu tvö til þrjú lög við bústað Peter Nielsens fyrrum verslunarstjóra Lefolii verslunar, hins „alkunna rausnarmanns“ eins og honum er lýst í skýrslunni. Nielsen gat ekki sótt tónleikana í skólanum þar sem hann var orðinn ellihrumur en þá var hann á 73. aldursári. Söngflokkurinn söng nokkur lög fyrir utan heimili hans og fylgdist gamli maðurinn með út um glugga á herberginu sínu og virtist hafa mikla ánægju af söngvunum. Seint að kvöldi var haldið frá Eyrarbakka og komið við í miðnætursnarl í Sigtúni við Ölfusárbrú. Síðan var haldið heim á leið og komið til Reykjavíkur klukkan hálf fjögur um morguninn.

Vangaveltur um árangur og áhrif ferðarinnar

Aftan við ferðasögu Benedikts í fundabókinni eru vangaveltur um árangur og áhrif þessarar ferðar söngfélagsins „17. júní“. Ekki er ljóst hvort að Benedikt hafi skrifað þann kafla einnig. Í kaflanum er farið orðum yfir þann árangur og áhrif sem höfundur telur að þessi ferð hafi haft fyrir félagið og áheyrendur. Félagsmenn voru ánægðir með ferðina og náðist að veita þeim „fágæta, heildræna og hressandi skemmtun jafnframt því að gleðja aðra og skemmta þeim“. Áhugavert er að höfundur hefur verið vel meðvitaður um að skráning ferðasögunnar væri mikilvæg heimild um starfsemi félagsins sem og menningarsögu landsins. Um skráningu ferðasögunnar segir í skýrslunni:

„En sagan hér er ítarlega sögð vegna þess að för þessa má telja hina fyrstu söngför sem farin hefir verið um sveitir þessa lands af æfðum söngflokk. Förina ber því að skoða sem menningarsögulegan viðburð. Með þessari för er stigið nýtt spor í áttina til þess að útbreiða sönglistina á Íslandi og vekja áhuga manna og næman smekk fyrir þeirri fögru list. Ferðasagan er því skráð og innfærð í fundabók söngfélagsins „17. júní“ í þeim ákveðna tilgangi að hún geymist þar og geti á sínum tíma ásamt fundabókinni í heild sinni og öðrum skjölum og bókum félagsins orðið ein af lindum þeim er seinni alda sagnfræðingar geti ausið úr þegar samin verður fullkomin og fjölskrúðug menningarsaga Íslands.“

Njörður Sigurðsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • ÞÍ. Karlakórinn Fóstbræður 2010/47. C/1, örk 3. Fundabók söngfélagsins „17. júní“ 1911-1919.
Ferðasaga söngfélagsins „17. júní“ austur í Árnessýslu 8. júlí 1917
Ferðasaga söngfélagsins „17. júní“ austur í Árnessýslu 8. júlí 1917
Ferðasaga söngfélagsins „17. júní“ austur í Árnessýslu 8. júlí 1917
Ferðasaga söngfélagsins „17. júní“ austur í Árnessýslu 8. júlí 1917
Ferðasaga söngfélagsins „17. júní“ austur í Árnessýslu 8. júlí 1917
Ferðasaga söngfélagsins „17. júní“ austur í Árnessýslu 8. júlí 1917
Ferðasaga söngfélagsins „17. júní“ austur í Árnessýslu 8. júlí 1917
Ferðasaga söngfélagsins „17. júní“ austur í Árnessýslu 8. júlí 1917
„17. júní“ í Kömbunum
„17. júní“ ofl. á Sandhóli
„Blómarósirnar“ í Sigtúni undirbúa kaffidrykkjuna úti.