Konur á sjó. Verðlaun fyrir björgun úr sjávarháska í Dritvík árið 1817
ÞÍ. Skjalasafn Vesturamts. II.88. Bréf 1824, nr. 1921.
Ritaðar heimildir um konur á sjó fyrr á öldum eru ekki miklar. Margt bendir þó til að sjósókn íslenskra kvenna hafi verið mun almennari en oft hefur verið talið. Þekktust sjókvenna fyrri tíma er sennilega Þuríður Einarsdóttir (1777-1863), venjulega kölluð Þuríður formaður, sem reri um 45 vertíðir frá Stokkseyri og Þorlákshöfn á fyrri hluta 19. aldar, þar af a.m.k. 25 vertíðir sem formaður. Skáldkonan Björg Einarsdóttir (1716-1784) frá Látrum, eða Látra-Björg eins og hún er venjulega kölluð, mun einnig hafa róið margar vertíðirnar frá Látrum á Norðurlandi. Lúðvík Kristjánsson, höfundur þess mikla ritverks Íslenskir sjávarhættir, nefnir mörg dæmi þess að konur á Breiðafirði hafi róið í ýmsum verstöðvum þar um slóðir á 19. öld sem fullgildir hásetar. Mörgum kvennanna þótti vinsælast að fara til róðra í Dritvík segir hann ennfremur. Dritvík var stór og mikil verstöð á þeim tíma en talið er að þar hafi oft verið 500-600 manns á vertíð og bátar í víkinni þá 40-50.
En þó að ekki fari mörgum sögum af sjósókn margra kvennanna leynast heimildirnar víða. Árið 1823 sótti Guðmundur Sigurðsson frá Sveinsstöðum á Snæfellsnesi um verðlaun til danska kansellísins í Kaupmannahöfn fyrir að hafa bjargað fimm manns frá drukknun í Dritvík árið 1817 ásamt áhöfn sinni. Það gerir hann samkvæmt auglýsingu kansellísins frá 14. september 1798, þar sem öllum þeim sem tækist að bjarga mannslífum frá drukknun var heitið fimm dúkata verðlaunum.
Kansellíið samþykkti umsókn Guðmundar og sendi verðlaunapeninganna til amtmannsins í Vesturamti sem sá um að koma þeim til réttra aðila. Af kvittununum fyrir móttökum verðlaunanna, sem varðveittar eru í skjalasafni Vesturamts, má svo sjá hverjir það voru sem voru í áhöfn á bát Guðmundar sem stóðu að björguninni. Athygli vekur að einn kvenmaður var í áhöfninni, Helga Jónsdóttir frá Grundarfirði. Guðmundur, formaðurinn á bátnum og aðalhvatamaðurinn að björguninni fékk 40 ríkisbankadali að launum en hásetar hans 6 ríkisbankadali hver. Þeir voru: Ísleifur Ísleifsson, Illugi Torfason, Helga Jónsdóttir, Guðlaugur Ólafsson, Sæmundur Helgason, öll úr Snæfellsnessýslu og úr Húnavatnssýslu, Jón Jónsson frá Efranúpi og Jón Tómasson frá Dalgeirsstöðum. Engum sögum fer hins vegar af fólkinu sem þau björguðu nema að það hafi verið fimm manns. Uppskrift kvittannanna má nálgast hér að neðan.
Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift skjalanna.
Heimildir
- Lovsamling for Island. 6. bindi. Oddgeir Stephensen og Jón Sigurðsson sáu um útgáfu, Khöfn 1856, bls. 341. (Cancellie-Plakat ang. Præmier for Druknedes redning, 14. sept. 1798).
- Lúðvík Kristjánsson, Íslenskir sjávarhættir. 2. bindi. Rvk 1982, bls. 46; 3. bindi. Rvk 1983, bls. 207-210.
- Þórunn Magnúsdóttir, Sjósókn sunnlenskra kvenna frá verstöðvum í Árnessýslu 1697-1980. Vestmannaeyjum 1984, bls. 33-45.
Hér að neðan er uppskrift kvittananna (PDF, 77 KB).