Vinnuhjúaverðlaun
ÞÍ. Búnaðarfélag Íslands 1987 M/2, örk 4. Vinnuhjúaverðlaun 1914.
Á búnaðarþingi sumarið 1903 var samþykkt tillaga Sigurðar Sigurðssonar búfræðings um að stofna til vinnuhjúaverðlauna, að skandinavískri fyrirmynd.[1] Skyldu þau veitast vinnuhjúum sem hefðu verið í vist 15 ár eða lengur. Ýmist sótti fólk um verðlaunin sjálft eða húsbændurnir fyrir þess hönd. Verðlaunaveitingarnar voru að einhverju leyti hugsaðar til að sporna við vaxandi vinnufólkseklu í sveitum. En upphæðirnar, sem veittar skyldu til verðlaunanna, voru ekki háar þannig að hæpið er þau hafi haft mikil áhrif. Þó mæltust þau allvel fyrir og fyrsta árið, 1905, sóttu 126 um verðlaun, 42 vinnumenn og 84 vinnukonur. Með umsóknunum fylgdu vottorð „frá húsbændum og prestum, að rétt sé skýrt frá aldri og vistastöðum, og að hjúin hafi ávalt sýnt trúmensku, iðni og sparsemi í stöðu sinni ásamt vönduðu dagfari.“[2]
Sumir forráðamanna Búnaðarfélagsins voru efins um gagnsemi þessara verðlauna en þau urðu þó að veruleika og voru veitt fram yfir miðja öldina. Dæmi um þessa gagnrýni er í Ritsjá Eimreiðarinnar 1906: „Fáeinar krónur (10-15) sem „verðlaun“ fyrir fasta vinnu á sama stað í tugi ára! Nei, það er þó nærri því að draga dár að vinnulýðnum. Og hin árlega upphæð, sem veitt er til þessa, af svo skornum skamti, að margir, er nú þegar hafa unnið til að fá „verðlaunin,“ verða að bíða árum saman, áður en þeir „komi til greina.“ sumir verða víst komnir undir græna torfu um það leyti og á að fara að „útbýta" þeim!“[3]
Yfirleitt voru verðlaunin einhver góður gripur, svipa, skúfhólkur, skeið eða göngustafur og oft tiltóku umsækjendur hvers konar grip þeir óskuðu að fá. Þessi verðlaun voru veitt fram um 1970 en munu þá hafa lognast út af þótt heimild til þess væri enn í reglum Búnaðarfélagsins.
Hér er listi yfir vinnufólk, sem óskaði eftir verðlaunum árið 1914, og dreifast umsækjendur allvel um landið. Eins og sjá má tiltaka sumir umsækjendur gripi sem þá langar í, sjá dálkinn lengst til hægri. Í tveimur dálkum er annars vegar tiltekinn fjöldi ára í vinnumennsku og hinum hve lengi á síðustu tveimur stöðum. Með því að skoða aldur fólksins og ár í vinnumennsku sést að mjög margir hefja vinnumennskuferil sinn um 16 ára aldur og eru í vinnumennsku alla ævi. Í fylgiskjölum eru umsóknir fólksins og vottorð húsbænda og presta um dyggðir þess og má m.a. af þeim ráða að margir voru mestalla ævi í sinni sveit, fáir gerðu víðreist um dagana.
Umsækjandi nr. 40 er Anna R. Jónsdóttir á Hafnarhólma í Kaldrananeshreppi á Ströndum, fædd 1848. Hefur Guðjón alþingismaður Guðlaugsson á Ljúfustöðum ritað umsóknina fyrir hana og hælir henni mjög.[4] Anna er fædd í Saurbæ í Dalasýslu en fluttist ung með foreldrum sínum í Strandasýslu og var ýmist með þeim eða í vinnumennsku. Þegar faðir hennar var þrotinn að kröftum vann hún fyrir honum en eftir að hann lést 1905 var hún titluð vinnukona til æviloka 1921. Hún var ógift og barnlaus.
Konur og vinnumenn fengu kosningarétt 1915 og bættust þá um 12.000 konur og 3000 karlar í kjósendahópinn. Á kjörskrá fyrir Kaldrananeshrepp í Strandasýslu má sjá nafn Önnu R. Jónsdóttur vinnukonu á Kleifum, sem ásamt öðru vinnufólki er orðin jafnsett bændum og húsfreyjum í sveitinni að þessu leyti.[5]
__________________
- Búnaðarrit, 16. árgangur, bls. 250 og 253 og 19. árgangur, bls. 349.
- Búnaðarrit, 19. árgangur, bls. 346.
- Eimreiðin 1906, bls. 145.
- Búnaðarfélag Íslands 1987 M/2, örk 4. Vinnuhjúaverðlaun 1914.
- Sýslumaður Strandasýslu MA/1, örk 2. Kjörskrá 1917-1918.
Jón Torfason ritaði kynningartexta.