Erfðagóss hvers?
Í Þjóðskjalasafni er að finna fjölda einkaskjalasafna og þ.á m. eru einkaskjöl Páls Jónssonar Vídalín (1667-1727) lögmanns sunnan og austan. Margt er á huldu um uppruna þessara skjala en eins og sjá má af einkaskjalasafnaskránni virðist aðeins vitað um uppruna innihalds þriggja arka með vissu. Þá er þar að finna brot úr dóma- og þingbók Markúsar Bergssonar, sýslumanns í Ísafjarðarsýslu, en óljóst er hvernig það endaði með skjölum Páls. Þetta er þó ekki það eina sem virðist hafa villst þangað því að þar leynast líka minnisgreinar varðandi erfðamál sem ekki er að sjá að tengist Páli á nokkurn hátt. Í skránni segir um þær: „Skrá um ýmislegt erfðagóss, sem Jón lögréttumaður Jónsson hefur ráðstafað fyrir hönd ónefnds eiganda, ca. 1700.“ Það vekur forvitni að komast að því hvers erfðagóss er um að ræða en í minnisgreinum þessum koma fram umtalsverðar upplýsingar og með því að gaumgæfa þær nánar þá er hægt að átta sig á því hver hefur haldið um pennann.
Í þessari leit ber fyrstan að nefna Jón Guðmundsson í Stokkholti (Stakkholti/Stekkholti) en hann er eini maðurinn sem er staðsettur nákvæmlega. Stokkholt var hjáleiga Úthlíðar í Biskupstungum sem tilheyrði Skálholtsdómkirkju. Mann með sama nafni er þar að finna árið 1709 þegar jarðabókin var gerð en hann hefur flust þangað eftir 1703 því hann er ekki þar þegar manntalið var tekið. Sá Jón Jónsson lögréttumaður, sem skrifari minnisgreinanna virðist hafa átt eitthvað vantalað við varðandi meðferð á arfi sínum, er að öllum líkindum Jón Jónsson í Laugardalshólum í Laugardal sem var lögréttumaður úr Árnesþingi á árunum 1691-1718. Hann var sonur Jóns Jónssonar, lögréttumanns á Hömrum í Grímsnesi, og seinni konu hans Alleifar Björnsdóttur.
Flest bendir því til Árnessýslu og þegar minnst er á biskupinn og ártalið 1698 þá er þar væntanlega átt við Jón Þorkelsson Vídalín (1666-1720) sem varð Skálholtsbiskup sama ár. Ef svipast er um í Skálholti árið 1703 má finna þar konu með sama nafni og því sem er hvað oftast nefnt í minnisgreinunum en það er Elín Gísladóttir (f. 1647) sem var undirráðskona á staðnum. Hún virðist hafa haft umboð þess sem skjalið ritaði meðan hann var á ómagaaldri en samkvæmt 4. kafla framfærslubálks Jónsbókar eltist ómegðin af karlmanni þegar hann var orðinn 20 vetra gamall. Þegar ættir Elínar eru skoðaðar kemur í ljós að hún var dóttir Gísla Ólafssonar, prests Böðvarssonar í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, og Ingibjargar, dóttur Magnúsar misers Illugasonar og Ástu Magnúsdóttur í Laugarási í Biskupstungum. Elín átti tvö systkini sem voru annars vegar Anna Gísladóttir, eiginkona Guðmundar Eiríkssonar á Svarfhóli í Stafholtstungum en hann er næstoftast nefndur í minnisgreinunum. Hins vegar var það Magnús Gíslason (nálægt 1650-1696/1697) á Vatnsleysu í Biskupstungum, lögréttumaður úr Árnesþingi 1691-1696 og yfirbryti í Skálholti í tíð Þórðar biskups Þorlákssonar (1637-1697). Hann kvæntist Borghildi, dóttur Jóns Jónssonar lögréttumanns á Hömrum og var hún því systir fyrrnefnds Jóns lögréttumanns í Laugardalshólum.
Magnús og Borghildur áttu einn son en það var Grímur Magnússon (1691-1723). Þegar manntalið var tekið 1703 þá var hann 12 ára gamall í Skálholti, væntanlega í skjóli Elínar föðursystur sinnar. Því miður eru eyður í skólaraðir þessara ára en víst er að Grímur var í neðri bekk Skálholtsskóla skólaárið 1705-1706 og útskrifaðist þaðan vorið 1710. Hann var í fylgdarliði biskups í vísitasíuferð um Vesturland og Vestfirði 22. ágúst-13. október 1710. Þá hefur hann komið að skriftum fyrir biskup en sömu hönd og á minnisgreinunum má finna í bréfabók biskups frá 1707-1720, nánar tiltekið á bl. 21r-23v, 26r-27v, 29r-31r, 32v-33r og 34r-38r, sem spannar tímabilið 28. apríl 1710-27. nóvember 1711. Það fer ekki á milli mála að þetta er hönd Gríms en hana má einnig finna ásamt eiginhandar undirskrift hans í pappírum jarðabókarnefndarinnar í AM 441 fol., bindi 2, bl. 208r-209v. Þar vottar hann í Skálholti 7. september 1712 ásamt Hákoni Hannessyni sýslumanni að stefna Lárusar Gottrup lögmanns til Guðbrands Arngrímssonar frá 30. ágúst 1712 sé rétt skrifuð eftir frumritinu. Grímur vann einnig við skjalauppskriftir í Skálholti fyrir Árna Magnússon handritasafnara.
Skömmu eftir þetta virðist sem Grímur hafi skipt um lið, þ.e. yfirgefið þá Árna Magnússon, Pál Vídalín og Jón Vídalín biskup, og skipað sér í andskotaflokk þeirra. Þórður Þórðarson, sem var skrifari Árna á Íslandsárum hans og Skálholtsráðsmaður 1712-1713, skrifar Árna þessi tíðindi í bréfi frá 24. ágúst 1713. Þar segir hann: „P.S. Ad Grimur (Magnússon) sie geingenn ur fylges flocknum, mun minn Hr. spurt hafa; hann hefur nu bæde agerad mál á móte mier og svo geinged dóma um mig, þar um ei fleira, sierhver finnst i sinu rume.“
Grímur var oft lögsagnari í Árnessýslu eftir 1715 og fékk sýsluna 1721. Hann bjó í Langholti í Flóa frá 1722 en árið 1723, er hann var að búa sig til alþingisreiðar, hvarf hann frá miðdegisverði sínum og þegar farið var að leita hans fannst hann örendur ofan í brunni við bæinn. Hann var sagður hafa verið veikur á geði og sjálfur ráðið sér bana.
Þegar Grímur varð 20 vetra árið 1711 og fjár síns ráðandi þá er líklegt að hann hafi farið að huga að því hvernig arfi hans hefði verið ráðstafað. Þá hefur hann athugað skiptaskjölin, punktað hjá sér eitt og annað og rætt við vinnufólk og úttektarmenn um laun þeirra. Í þessum minnisgreinum kemur ýmislegt forvitnilegt fram svo sem um kaup Steinunnar Gunnarsdóttur vefkonu og þá hluti sem fylgdu smiðjunni á Vatnsleysu. Sjálfsagt hefur stór hluti arfsins farið í að kosta latínuskólanám Gríms en það er spurning hvort ráðstöfun erfðagóssins hafi haft eitthvað með það að gera að Grímur yfirgaf fylgisflokkinn.
Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp skjalið.
Heimildir
- ÞÍ. Biskupsskjalasafn. A. II, 14. Vísitasíubók Jóns biskups Vídalín um Vestfirðingafjórðung og Sunnlendingafjórðung 1699-1705 og 1710-1719, II. hluti, bl. 1r-18r.
- ÞÍ. Biskupsskjalasafn. A. IV, 6. Bréfabók Jóns biskups Vídalín 1707-1720, bl. 21r-23v, 26r-27v, 29r-31r, 32v-33r og 34r-38r.
- ÞÍ. Einkaskjalasafn E. 9. Páll Vídalín.
- Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. AM 441 fol., bindi 2. Pappírar jarðabókarnefndarinnar.
- Annálar 1400-1800 I. Reykjavík 1922-1927, bls. 523 (Vallaannáll).
- Arne Magnussons private brevveksling. København 1920, bls. 523-524, bein tilvitnun af bls. 524.
- Bogi Benediktsson, Sýslumannaæfir IV. Með skýringum og viðaukum eftir Hannes Þorsteinsson. Reykjavík 1909-1915, bls. 339-341.
- Borgfirzkar æviskrár III. Safnað hafa og skráð Aðalsteinn Halldórsson, Ari Gíslason, Guðmundur Illugason. Akranes 1973, bls. 237.
- Einar Bjarnason, Lögréttumannatal. Sögurit XXVI. Reykjavík 1952-1955, bls. 300, 303, 366.
- Einkaskjalasöfn E. nr. 1-300. Júníus Kristinsson tók saman. Skrár Þjóðskjalasafns - Nýr flokkur 2. Reykjavík 1992, bls. 48-49.
- Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 II. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1949, bls. 103.
- Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns II. Kaupmannahöfn 1918-1921, bls. 309-310.
- Jónsbók. Lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Már Jónsson tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 8. Reykjavík 2004, bls. 143.
- Manntal á Íslandi árið 1703. Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Ásamt manntali 1729 í þrem sýslum. Reykjavík 1924-1947, bls. 541-542.
- Már Jónsson, „Raunir handritasafnarans. Vestfjarðaleiðangur Árna Magnússonar sumarið 1710.“ Handritasyrpa. Rit til heiðurs Sigurgeiri Steingrímssyni sjötugum 2. október 2013. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rit 88. Reykjavík 2014, bls. 23-39.
- Skólaraðir frá Skálholtsskóla, Hólaskóla og Hólavallaskóla, skólameistaratal, skólavitnisburðir o.fl. II. Með skýringum og athugasemdum eptir Hannes Þorsteinsson. Sögurit XV. Reykjavík 1918-1925, bls. 271-274, 276-277.
- Til merkis mitt nafn. Dómabækur Markúsar Bergssonar sýslumanns í Ísafjarðarsýslu 1711-1729. Már Jónsson tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 6. Reykjavík 2002, bls. 13, 31.
- Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal I, Texti. Guðrún Ása Grímsdóttir annaðist útgáfu. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rit 70. Reykjavík 2008, bls. 105-106.
Hér að neðan er uppskrift skjalsins.