Karlmaður lauk ljósmóðurprófi á Íslandi fyrir 238 árum
Heimild: ÞÍ. Skjalasafn landlæknis. A.2. Bréfabók landlæknis 1780-1793, bls. 172
Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittar bréfabækur landlækna frá upphafi stofnunar landlæknisembættisins árið 1760. Þar er að finna mjög merkilegar heimildir um heilbrigðismál. Í bréfabók landlæknis 1780-1793 sem rituð var af Jóni Sveinssyni (1752-1803) landlækni er að finna vitnisburð um íslenskan karlmann sem lauk ljósmóðurprófi á Íslandi.
Aldrei fyrr eða síðar hefur karlmaður tekið ljósmóðurpróf á Íslandi svo vitað sé, nema einn íslenskur bóndi, Jón Halldórsson (1738-1793) að nafni, frá Arndísarstöðum í Suður-Þingeyjarsýslu. Í þessum mánuði (mars 2014) eru liðin 238 ár frá því að Jón bóndi tók ljósmóðurprófið. Prófið tók hann hjá fjórðungslækni Norðlendingafjórðungs, Jóni Péturssyni (1733-1801) á holdsveikraspítalanum að Möðrufelli í Eyjafirði þann 26. mars árið 1776. Í bréfabók landlæknis 1780-1793 er vitnisburður Jóns Péturssonar fjórðungslæknis skrásettur þegar hann prófaði bóndann í ljósmóðurfræði eða yfirsetukvennafræði eins og þessi fræði voru kölluð þá. Hljóðar vitnisburður Jóns Péturssonar fjórðungslæknis svo:
Hér með giefur undirskrifaður vitanlegt, að Jón Haldorsson frá Arndísarstöðum innan Þingeyjarsýslu og Eyjadalsársóknar hefur af mier í yfirsetukvennakonst examineraður verið þann 26 Martii þessa árs, og er ej óverðigur fundinn þá sömu að æfa og iðka framvegis öllum þurfandi sem hann tilnær til mögulegrar hjálpar, hvar til og ég óska honum guðlegs fulltingis.
Möðrufelli d. 27da Martii 1776.
Jón Pétursson medic. practecus Isl. borealis.
Samhliða búskap aðstoðaði Jón Halldórsson yfirsetumaður/ljósfaðir fæðandi konur í Eyjadalsársókn í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem hann bjó ásamt eiginkonu sinni og fjórum börnum.
Erla Dóris Halldórsdóttir ritaði kynningartexta.
Heimildir
Óprentaðar heimildir
- Þjóðskjalasafn Íslands. Skjalasafn landlæknis. A.2. Bréfabók landlæknis 1780-1793.
- ÞÍ. Mývatnsþing (Skútustaðir og Reykjahlíð). BA/1. Prestþjónustubók 1785-1816.
Prentaðar heimildir
- Ljósmæður á Íslandi. II. bindi. Ljósmæðrafélag Íslands. Reykjavík 1984.