Krækiberjavín og innlent tóbak

Apríl 2013

Krækiberjavín og innlent tóbak

ÞÍ. Rentukammer 1928-11 D-D3 3-21. (Skjalasafn Landsnefndarinnar fyrri)

Landsnefndin fyrri var nefnd þriggja manna skipuð af konungi þann 20. mars 1770. Í henni áttu sæti þeir Andreas Holt, vararáðsmaður í Osló, Þorkell Fjeldsted, lögmaður í Færeyjum og Thomas Windekilde kansellíráð og fyrrum kaupmaður á Íslandi en ritari var skipaður Eyjólfur Jónsson (Johnsoníus), síðar konunglegur stjörnuskoðari. Nefndinni var ætlað að kanna almenna landshagi á Íslandi og leggja fram úrbótatillögur. Hún átti m.a. að rannsaka orsök fólksfækkunar, ástand sjávarútvegs, verslun, jarðrækt, kvikfjárrækt, heilbrigðismál, samgöngur og margt fleira.

Nefndarmenn komu til landsins sumarið 1770 og voru hér á landi fram á haust 1771. Strax eftir komuna til landsins rituðu þeir öllum helstu embættismönnum landsins bréf, amtmanni, biskupum, lögmönnum og sýslumönnum og óskuðu eftir áliti þeirra á ýmsum atriðum sem sneru að stjórnun landsins og velferð íbúanna. Jafnframt var allur almenningur í landinu hvattur til þess að skrifa nefndinni. Hér gafst landsmönnum því gott tækifæri til að skrifa konungi eða embættismönnum hans í Danmörku milliliðalaust, þ.e. án aðkomu innlendra embættismanna, s.s. sýslumanna, og segja álit sitt á stjórnun landsins, viðreisn atvinnuveganna eða bara hverju sem var sem þeim lá á hjarta. Heimildir um viðhorf manna fyrr á öldum eru ekki mjög miklar, síst af öllu um viðhorf almúgans. Skýrslur og bréf send nefndinni eru því ómetanlegar heimildir um viðhorf landans til landsmála á fyrri tímum.

Alls bárust nefndinni hátt í 200 bréf. Þar af 70-80 frá embættismönnum en margir þeirra skrifuðu gjarnan þrjár til fjórar greinargerðir hver um hin ýmsu málefni. Frá almenningi, að meðtöldum hreppstjórum og prestum, bárust um 110 bréf. Algengt var að hópur manna tæki sig saman, gjarnan 5 til 15 manns og skrifaði eitt sameiginlegt bréf. Heildarfjöldi þeirra sem rituðu nafn sitt undir bréf til nefndarinnar var þannig 576 eða ríflega 1% þjóðarinnar.

Bjarni Högnason frá Tjörnum við Eyjafjöll var einn þeirra sem ritaði nefndinni. Að hans mati var niðurskurður alls fjárs í landinu, vegna fjárpestarinnar sem þá geisaði um allt Suður- og Norðurland, eitt það nauðsynlegasta málefni sem þyrfti að taka á strax svo búandi væri í landinu. Hann vildi einnig láta flytja hreindýr til landsins og jafnvel elgi ef hægt væri. Auk þess lagði hann til skógrækt, kornrækt, tóbaksrækt og að Íslendingum yrði kennt að gera sér krækiberjavín svo minnka mætti innflutning brennivíns til landsins. Uppskrift að bréfi Bjarna má lesa hér fyrir neðan.

Jóhanna Þ Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift skjalsins.

Heimildir

  • Harald Gustafsson, Mellan kung och allmoge - ämbetsmän, beslutsprocess och inflytande på 1700-talets Island. Stockholm 1985, bls. 102- 169.
  • Landsnefndin 1770-1771. I. Bréf frá nefndinni og álitsgerðir embættismanna. Bergsteinn Jónsson sá um útgáfuna, Rvk 1958, bls. 7-21.
  • Lýður Björnsson, „18. öldin.“ Saga Íslands VIII. Ritstj. Sigurður Líndal, Rvk 2006, bls. 178-183.

 

Smelltu á smámyndina hér til hægri til að skoða stærri útgáfu hennar.

 

Hér að neðan er hægt að sækja uppskrift af bréfi Bjarna Högnasonar, Tjörnum við Eyjafjöll, til Landsnefndarinnar fyrri (1770-1771).

Bréf Bjarna Högnasonar Tjörnum við Eyjafjöll til Landsnefndarinnar fyrri (1770-1771)