Voveiflegur dauðdagi Kristínar Sigurðardóttur vinnukonu á Sámsstöðum í Laxárdal í Dalasýslu
ÞÍ. Dómabók Dalasýslu V.7 1754-1770.
Sumarið 1756 fannst Kristín Sigurðardóttir fyrrverandi vinnukona Steingríms Sigmundssonar og Sigríðar Guðbrandsdóttur búandi hjóna á Sámsstöðum í Laxárdal í Dalasýslu látin í Sámsstaðaá. Það voru áverkar á líkinu og ásigkomulag líkamans mjög undarlegt svo það var talin ástæða var til þess að rannsaka andlát hennar. Magnús Ketilsson sýslumaður Dalasýslu setti auka héraðsþingsrétt að Hjarðarholti í Laxárdal þann 13. ágúst 1756 og stefndi fyrir réttinn hópi karlmanna þar á meðal þeim sem skoðuðu líkið, til að veita upplýsingar, ef einhverjar hefðu um dauða Kristínar. Líkskoðunarmenn voru spurðir um „þá þeir besigtuðu svo ásigkomið að sjálfráðt kynni vera eður þar hefði þurft aðrar orsakir eður tilverknaður til“ Þeir svöruðu og voru töldu allir nema einn að áverkarnir á líki Kristínar væru af mannavöldum.
Fleiri voru kallaðir til yfirheyrslu, bæði konur og karlar og þar á meðal voru tvenn hjón, ábúendur á Þorbergsstöðum í Laxárdal og voru þau fjögur spurð sömu spurninga m.a. hvort þau hefðu merkt það á Kristínu þegar hún dvaldi á Þorbergsstöðum um vorið að hún ætti von á barni. Gunnlaugur bóndi Marteinsson sagðist hafa merkt það og sama sagði Guðrún Jónsdóttir kona Bárðar Eyjólfssonar bónda á sama bæ, þau sögðu að Kristín hefði sagt að þegar þar að kæmi segði hún satt og rétt frá um faðerni barnsins. Guðrún bar svo fyrir réttinum að Kristín hefði sagt sér að Steingrímur Sigmundsson bóndi á Sámsstöðum væri faðir að barninu og hann hefði hótað að drepa hana ef hún kenndi honum barnið. Sigurlaug Bjarnadóttir húsfreyja, kona Gunnlaugs sagði aftur á móti „að ei hafi hún eiginlega merkt það af henni að hún ólétt væri“.
Í réttinum var upplesið vitnisburðarbréf Halldóru Tómasdóttur, en í því sagði að hún að Kristín hefði sagt sér að Steingrímur væri faðir barnsins sem hún gekk með og að hann hefði hótað að drepa sig lýsti hún hann föður þess. Halldóra kom fyrir réttinn og staðfesti vitnisburð sinn en sagðist nú ekki muna orð Kristínar um faðernið og hótunina. Fleiri höfðu heyrt af hótunum Steingríms í garð Kristínar og sumir þeirra frá Kristínu sjálfri.
Málarekstrinum var haldið áfram fram í nóvember þetta ár og á auka héraðsþingi að Hjarðarholti í Laxárdal 13. september 1756 hafði Steingrími Sigmundssyni verið birt stefna og hann mætti fyrir réttinn til að svara fyrir þær ásakanir sem á hann voru bornar. Talsmaður Steingríms var skipaður Jón Jónsson í Belgsdal. Áður en yfirheyrslur hófust yfir Steingrími gerði hann athugasemdir í þrem liðum við vitnisburð þeirra sem höfðu gefið hann og trúverðugleika orða Kristínar sálugu sem hann sagði hafa logið fyrir rétti fjórum árum fyrr. Jón Ólafsson á Dönustöðum var yfirheyrður og spurður hvað hann vissi um „viðurgjörning og aðbúnað Steingríms Sigmundssonar við Kristínu heitinna Sigurðardóttur meðan hún hjá honum var“ Jón svaraði og sagði m.a. „...Steingrímur hafi farið illa með hana og barið hana óskikanlega bæði með „höndum og tólum““. Hann sagði konu Steingríms, Sigríði Guðbrandsdóttur, hafa reynt að biðja henni vægðar og bróðir Steingríms, Guðbrandur Sigmundsson frá Sólheimum, „hjálpaði oft nefndri Christínu úr höndum Steingríms“. Vitnið hafði þetta eftir vinnumanni sem var á Sámsstöðum. Meðal þeirra sem voru kallaðir fyrir var Sigríður kona Steingríms. Vitnisburður þessa fólks var skrifaður niður. Svörin voru flest á sama veg og Steingrími í óhag, en einstaka manneskja gat engu svarað þar sem viðkomandi hafði ekkert frétt. Það kom fram við yfirheyrslu yfir Jóni Jónssyni, en hann bar líkið heim að Sámsstöðum ásamt Steingrími og þriðja manni, að þeir ræddu hvað hefði valdið dauða Kristínar og sagði Jón að Steingrímur hafi haldið að Kristín hefði ætlað að fá sér að drekka úr ánni en orðið bráðkvödd. Seinna meir svaraði Steingrímur því við yfirheyrslu að hann héldi að Kristín hefði verið á leið fram að Hömrum þegar hún féll í ána.
Héraðsþing var sett að Hjarðarholti 23. maí 1757 og voru tilnefnd þingvitni líka skráð meðdómendur. Steingrímur, sem á þessum tíma sat í varðhaldi, var boðaður til yfirheyrslu, hann mætti en ekki svaramaður hans. Steingrímur var spurður um hvað hann héldi að hefði valdið dauða Kristínar. Steingrímur svaraði „ey gjörla veit ég það; eða ey held ég það hafi verið af mannavöldum, heldur af einhverjum illum anda.“ Hann var því næst spurður „áttir þú ey þungann með Christinu?“. Steingrímur neitaði og var þá spurður „Varstu aldeilis saklaus af henni?“. Já svaraði Steingrímur.
Steingrímur neitaði alltaf sök, bæði því að vera faðir barnsins sem Kristín gekk með og hann neitaði líka að hafa orðið henni að bana. Dómurinn yfir Steingrími hljóðaði uppá að hann skyldi sverja eið að sakleysi sínu í þessum tveim málum. Eins og skráð er í dómabókina „að hann mætti sig þar frá með eyði fría og svo sem aungvar frekarari ákúrur eða um bevisingar fást sem gjörir nefndan Steingrím sannan að þessari sök skal hann eftir laganna fyrirmælum sig þar frá með eiði fría eftir því sem honum verður hann af Réttinum stílað“.
Þórunn Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta.
Heimildir
- ÞÍ. Dómabók Dalasýslu V.7 1754-1770.