Var Jón Arason með skegg?

Febrúar 2023

Var Jón Arason með skegg?

ÞÍ. Frímerkjasafn Pósts- og síma. Hönnunargögn A/4-5

Þann 7. nóvember 1950 voru liðin 400 ár frá því að Jón Arason Hólabiskup og synir hans Björn og Ari voru hálshöggvnir í Skálholti og markaði aftakan lok kaþólsks siðar á Íslandi. Í tilefni þess ákvað Póstur og sími að gefa út frímerki með mynd Jóns og fékk Stefán Jónsson (1913– 1989) arkitekt og teiknara til að hanna merkið. Engin mynd var þekkt af Jóni biskupi en Stefán hófst handa við að teikna frímerki af kaþólskum biskupi með mítur og biskupsstaf en einni spurningu var ósvarað. Átti að teikna biskupinn með skegg eða skegglausann?

Stefán tók til bragðs að skrifa Guðbrandi Jónssyni, fræðimanni og syni Jóns Þorkelssonar fyrrum þjóðskjalavarðar, og spyrja álits. Guðbrandur benti honum á ítarlega grein sem hann hafði skrifað í V. bindi ritraðarinnar: Safn til sögu Íslands. Þar fjallaði hann aðallega um sögu dómkirkjunar á Hólum í Hjaltadal en nefndi einnig í greininni aðra þætti svo sem klæðaburð lærðra manna við biskupsstólinn.

Gat Guðbrandur þess, og vísaði í Íslenskt fornbréfasafn II, 532, að árið 1323 hafi Eilífur erkibiskup og Jón Skálholtsbiskup sagt fyrir um að lærðir menn skyldu raka skegg sitt og krúnu svo oft sem þyrfti og hárskurðurinn ætti að vera kringlóttur og svo stuttur að eyrnasneplar sjáist. Hins vegar benti Guðbrandur á að svo virtist sem ekkert hafi verið farið eftir þessu og biskuparnir sjálfir hafi jafnvel verið með alskegg. Þá benti Guðbrandur á að í Stokkhólmi væru varðveitt tvö íslensk handrit frá 15. öld. Þar væru myndir af tveimur biskupum, og einum djákna sem allir væru með alskegg.

Niðurstaða Stefáns Jónssonar hönnuðar frímerkisins, var því sú að ef skeggbanni biskupa hafi verið fylgt áður hafi það a.m.k. verið dautt á þeim tíma er Jón var biskup á Hólum og því væri það rétt að hafa Jón með skegg á mynd hans á frímerkinu. Eða eins og Stefán sagði í minnisblaði sínu:

„Skeggbannið á 14du öld var þá steindautt, en fáir munu hafa hlýtt því, jafnvel á dögum Skálholtsbiskupsins sem skjalfesti þá vitleysu.
Ef fara á eptir handritamyndunum í Stokkhólmi, er því rétt að láta Jón Arason bera skegg.“

Hins vegar gerði Stefán nokkrar hugmyndir að ólíkum frímerkjum þar sem Jón birtist okkur með og án skeggs og birtast þær teikningar hér ásamt minnisblaði Stefáns Jónssonar.

Unnið er að skönnun og miðlun margvíslegs efnis í Þjóðskjalasafni sem tengist myndrænum arfi þjóðarinnar. Það er gert með stuðningi Uppbyggingarsjóðs EES á vegum Noregs, Íslands og Lichtenstein. Verkefnið er unnið í samstarfi Þjóðskjalasafns Íslands, Olomouc Museum of Art og Morovian Library í Tékklandi. Meðal þess sem verður miðlað eru hönnunargögn íslenskra frímerkja en auk þess margvísleg kort og teikningar sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni Íslands.

Unnar Rafn Ingvarsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Íslenskt fornbréfasafn [Diplomatarium Islandicum], 2. bindi 1253-1350, Kaupmannahöfn 1893.
  • Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu og nýju. V. bindi. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 1915– 1929.
Frímerki af Jóni Arasyni Hólabiskup
Tillaga að frímerki af Jóni Arasyni Hólabiskup
Tillaga að frímerki af Jóni Arasyni Hólabiskup
Tillaga að frímerki af Jóni Arasyni Hólabiskup
Tillaga að frímerki af Jóni Arasyni Hólabiskup
Minnisblað vegna gerð frímerkissins af Jóni Arasyni