Var hluta bréfasafns Jóns Sigurðssonar forseta (1811–1879) fargað að honum látnum?
ÞÍ. Stjórnarráð Íslands, I. skrifstofa. B/56, örk 10.
Bréfasafn Jóns Sigurðssonar forseta er gríðarmikið að vöxtum og heljarinnar fróðleiksnáma um sögu 19. aldar, hvort sem um er að ræða pólitík, framfaramál, íslensk fræði eða hversdagslegri hluti. Þegar talað er um bréfasafn Jóns er átt við þau bréf sem hann fékk send frá þeim sem hann var í bréfasambandi við. Bréfa Jóns sem hann sendi bréfavinum sínum er að sjálfsögðu að leita í bréfasöfnum þeirra.
Þeir sem hafa notað bréfasafn Jóns við rannsóknir hafa e.t.v. velt því fyrir sér hvers vegna það er í tveimur hlutum og varðveitt á sitthvorum staðnum, þ.e. á Þjóðskjalasafni og í handritasafni Landsbókasafns. Þegar eitthvað sem augljóslega á heima saman er slitið í sundur er eðlilegt að draga þá ályktun að kveðinn hafi verið upp einhverskonar Salómonsdómur en því fer fjarri að svo hafi verið í þessu tilviki.
Jón var ekki bara stjórnmálamaður heldur einnig fræðimaður og mikilvirkur handritasafnari. Hann byrjaði snemma að safna handritum og lagði mikla rækt við öflun þeirra. Alþjóð vissi af þessu áhugamáli hans og menn voru ekki eins fastheldnir á handrit sín þegar þjóðhetjan sjálf átti í hlut. Jón skilaði góðu dagsverki í þessu efni líkt og öðrum en í allt telur handritasafn hans 1341 handrit sem flest eru frá seinni öldum.
Tryggvi Gunnarsson, alþingismaður og kaupstjóri Gránufélagsins, var Jóni innan handar síðustu árin. Jón hafði fengið talsvert fé frá George Powell, breskum bókasafnara og Íslandsvini, til þess að skrifa Íslandssögu en hafði á móti veðsett honum bóka- og handritasafn sitt. Jón komst aldrei til þess að rita Íslandssöguna og olli þetta honum talsverðu hugarangri, sérstaklega síðustu árin þegar andlegu þreki hans tók að hraka. Indriði Einarsson, skrifstofustjóri og leikritaskáld, minnist þess frá Hafnarárum sínum að Jón hafi setið við skrifborð sitt með autt blað og penna í hönd og tautað fyri munni sér: „Íslandssaga“. Tryggvi hafði frumkvæði að því að fá Powell til þess að gefa upp veðið og gekkst fyrir því að Alþingi festi kaup á bóka- og handritasafni Jóns.
Bóka- og handritasafnið var keypt af Alþingi árið 1877 og átti að koma því fyrir í Landsbókasafni en þá var Þjóðskjalasafn, eða undanfari þess Landsskjalasafn, aðeins geymsla embættisskjalasafna á dómkirkjuloftinu sem landshöfðingjaritari hafði lyklavöldin að. Jón lést tveimur árum eftir að hann hafði selt bóka- og handritasafn sitt en það var ekki afhent Landsbókasafni fyrr en að honum látnum. Handritum Jóns fylgdi hluti bréfasafns hans en stór hluti þess hafði þegar verið fjarlægður þegar handritasafnið var loks sent yfir hafið.
Jón andaðist 7. desember 1879 og þar sem þau hjón áttu engin börn þá var Ingibjörg Einarsdóttir eiginkona Jóns einkaerfingi hans. Ingibjörg var rúmliggjandi eftir dauða Jóns og lést sjálf 16. desember eða níu dögum síðar. Jón hafði alltaf ætlað sér að gefa Íslandi mestan hluta eigna sinna eftir þau Ingibjörgu látin en ekkert hafði orðið úr skjalagerð til þess að staðfesta það vegna langvarandi veikinda hans. Tryggvi brá því á það ráð að nefna þetta við Ingibjörgu, sem var ern allt til æviloka, strax eftir andlát Jóns. Hann hafði svo forgöngu um gerð erfðaskrár þar sem hún gaf Íslandi 2/3 hluta eigna þeirra hjóna í sjóð sem skyldi bera heitið: Gjöf Jóns Sigurðssonar.
Eftir andlát þeirra hjóna skarst hins vegar skiptaréttur Kaupmannahafnar (d. Den kongelige landsover- samt hof- og stadsrets skiftekommission) í leikinn og tók við forræði dánarbúsins. Tryggvi keypti fjölda gripa úr dánarbúinu: húsgögn, fatnað og persónulega muni, og gaf svo landinu en þeir enduðu á Þjóðminjasafni eða Forngripasafni eins og það hét þá. Þar hafa einnig slæðst með reikningar og skjöl úr búi þeirra hjóna sem varðveitt eru á Þjóðminjasafni. Þá hafði Tryggvi verið kosinn eftirmaður Jóns sem formaður Þjóðvinafélagsins og þurfti hann að standa í nokkru stímabraki við að komast yfir skjalasafn félagsins. Honum tókst þó á endanum að herja reikningsbók þess úr greipum skiptaréttarins í Kaupmannahöfn.
Það varð mönnum snemma ljóst að aðeins brot af bréfasafni Jóns hafði skilað sér með handritasafni hans á Landsbókasafnið. Vitaskuld mun eitthvað af bréfunum hafa glatast með einum eða öðrum hætti í gegnum árin en ljóst var að stór hluti þeirra hefði alls ekki komið fram. Landsbókasafn reyndi að hreyfa við málinu 7. júní 1905 en ekkert varð úr þeim þreifingum. Líkast til hefur það verið gert að frumkvæði Jóns Þorkelssonar landsskjalavarðar en hann sat í stjórnarnefnd Landsbókasafns frá 30. apríl 1902. Hann lét málið þó ekki lognast út af heldur hélt áfram uppi spurnum um það. Hann hafði eftir Tryggva Gunnarssyni að skiptaréttur Kaupmannahafnar hefði farið inn í íbúð Jóns forseta, við Østervoldgade 12 á Austurbrú, og sópað úr öllum skúffum þeim plöggum, bréfum og reikningum sem þar var að finna. Umfang þess sem þeir höfðu á brott með sér hefði verið umtalsvert eða alls tveir til þrír pokar.
Það var ekkert óeðlilegt við þessa framkvæmd. Þetta voru viðteknir starfshættir og má t.d. finna bréfasöfn í dánarbúum í sýsluskjalasöfnum. Þar að auki bendir ýmislegt til þess að bréfasöfn hafi mögulega verið fjarlægð þaðan. Þá má jafnframt benda á að bréfasafn Brynjólfs Péturssonar, skrifstofustjóra íslensku stjórnardeildarinnar í Kaupmannahöfn og Fjölnismanns, er varðveitt í skjalasafni skiptaréttarins. Það er umhugsunarvert hvort ekki þurfi að kanna skjalasafn skiptaréttarins í Kaupmannahöfn betur og leita uppi dánarbú Hafnar-Íslendinga til að athuga hvort þar leynist persónuleg gögn, eins og t.d. bréfasöfn, innan um gögn sem varða fjárreiður þeirra.
Jón Þorkelsson setti málið aftur á dagskrá þegar hann var þingmaður Reykvíkinga á árunum 1908–1911. Í ræðu á Alþingi 15. mars 1909 fór hann fram á að landsstjórnin grennslaðist nánar fyrir um málið og var þingsályktunartillaga þess efnis samþykkt samhljóða af neðri deild Alþingis og afgreidd degi síðar til ráðherra.
Stjórnarráð Íslands, sem stofnað var 1. febrúar 1904, var nú komið í málið og fól skrifstofu sinni í Kaupmannahöfn (sem var forveri sendiráðsins þar) að hafa samband við skiptaréttinn. Jón Krabbe, forstjóri íslensku stjórnarskrifstofunnar í Kaupmannahöfn (d. Islands ministerium kontor i København), gekk í málið. Hann skrifaði skiptaréttinum, 25. apríl 1910, og greindi frá því að Alþingi Íslands hafi óskað eftir því að grennslast væri fyrir um hvort þar væri að finna skjöl varðandi Jón Sigurðsson sem ekki hafi þótt koma að gagni við skiptin en gætu haft sögulega þýðingu fyrir Íslendinga. Ef svo væri óskaði hann þess að fá þau að láni.
Krabbe skrifaði Stjórnarráðinu, 18. júní 1910, og greindi því frá hvers hann hafði orðið vísari. Hann hafði fengið leyfi til að rannsaka skjöl varðandi dánarbú Jóns Sigurðssonar í skjalasafni skiptaréttarins. Í framhaldi af bréfaskiptum sínum við skjalasafnið fundaði hann með aðilum þaðan og fékk í kjölfarið skjalaböggul að láni handa Stjórnarráðinu sem innihélt öll gögn varðandi dánarbú Jóns Sigurðssonar sem var að finna í skjalasafni skiptaréttarins. Hann lýsti ennfremur vinnubrögðum skiptaréttarins með eftirfarandi hætti:
Af skjölum þessum, er öll finnast í bögglunum má sjá, að skiftarjetturinn hefur farið með skjöl dánarbúsins á venjulegan hátt. Aðferðin er sú, að þegar skrásetnin[g] hefur farið fram að viðstöddum nánustu vandamönnum hins látna (í þetta skifti Tr. Gunnarsson og Björn Jensson) eru öll skjölin sett undir innsigli. Því næst fer fram svonefnd endurskoðunargerð að þeim viðstöddum, er í henni vilja taka þátt (í þetta sinn Tr. Gunnarsson). Eru þau skjöl þá tekin frá, er verðmæt eru eða eitthvert gildi hafa fyrir búið, en afgangurinn, óverðmæt skjöl, brjef, reikningar o.fl. er innsiglaður að nýju og afhendist síðar erfingjum búsins. En líði mörg ár svo, að skjalanna sje eigi krafist, eru þau eyðilögð eða seld til umbúða.
Skjöl þau, er tekin voru frá við skrásetningar- og endurskoðunargerðina eru sumpart í hjálögðum böggli, en sumpart er gerð grein fyrir þeim í reikningnum.
Þau skjöl, er einskis virði voru talin við endurskoðunargerðina og innsigluð voru að nýju, eru nú löngu seld til umbúða, sbr. framangreint brjef skiftanefndarinnar.
Af ofangreindu má sjá að Tryggvi og Björn Jensson, bróðursonur Jóns forseta, voru viðstaddir skráningargerðina og Tryggvi endurskoðunargerðina. Það féll svo í hlut erfingjanna að krefjast þess að fá skjölin frá skiptaréttinum þegar skiptum var lokið en óvíst er hvort þeir hafi haft vitneskju um það.
Þegar rýnt er í hina mjög svo torlesnu skrift á bréfi starfsmanns skiptaréttarins segir aðeins að þau skjöl, sem reynast óþörf við skipti dánarbúsins séu seld pappírsmyllum, þ.e. þau voru endurunnin. Jón Krabbe hlýtur því að hafa fengið munnlegar upplýsingar frá skiptaréttinum um að óþarfa skjöl dánarbúsins sem ekki skyldi leggja upp í skjalasafnið hafi verið seld kaupmönnum í umbúðapappír. Þessar upplýsingar eiga hins vegar ekki sérstaklega við dánarbú Jóns forseta heldur voru þetta almenn vinnubrögð. Enginn sem vann þar árið 1910 hefur munað eftir því þegar dánarbú Jóns Sigurðssonar var til umfjöllunar hjá skiptaréttinum 30 árum áður enda var hann ekki þjóðhetja í þeirra augum.
Jón Krabbe sendi skjalaböggulinn sem hann hafði fengið að láni frá skiptaréttinum til Íslands haustið 1910. Jón Jacobson landsbókavörður fékk hann til rannsóknar með bréfi dagsettu 12. september 1910, hann kvittaði degi síðar fyrir móttöku og sagðist skila honum aftur innan skamms. Þann 19. apríl 1913 skrifaði Stjórnarráðið Jóni Þorkelssyni landsskjalaverði og sendi honum skjalaböggulinn „til geymslu í Landsskjalasafninu fyrst um sinn“. Böggullinn hafði inni að halda „öll plögg viðvíkjandi búi Jóns Sigurðssonar, er finnast í skjalasafni skiptarjettarins í Kaupmannahöfn.“ Jón svaraði með bréfi, 22. apríl 1913, og sagði að böggullinn væri tekinn til geymslu eftir fyrirmælum Stjórnarráðsins. Innihald þessarar skjalasendingar hefur án efa verið það sem er í öskjum nr. 22–23 í einkaskjalasafni Jóns Sigurðssonar (E. 10) á Þjóðskjalasafni og líklega einnig það sem er í öskjum nr. 19–21 sem innihalda reikninga Jóns.
En hvað varð um bréfin? Voru þau seld í umbúðapappír sem notaður var til að pakka inn Brama livs-eliksir handa Kaupmannahafnarbúum eða fengu dönsk börn sælgæti í bréfstiklum (d. kræmmerhus) snúnum úr ástarbréfum Jóns og Ingibjargar? Því verður ekki svarað með vissu þó að orð Krabbes bendi til þess að hann hafi verið fullviss um að þau hafi endað í höndum danskra kaupmanna.
Gísli Baldur Róbertsson ritaði texta
Heimildir
- ÞÍ. Stjórnarráð Íslands, I. skrifstofa. B/56, örk 10.
- Aðalgeir Kristjánsson, „Bréfasafn Brynjólfs Péturssonar“, Árbók Landsbókasafns Íslands 25 (1968), bls. 124–129.
- Alþingistíðindi 1909. B. II. Umræður í neðri deild. Reykjavík 1909, d. 1937–1940.
- Bergsteinn Jónsson, Tryggvi Gunnarsson III. Stjórnmálamaður. Reykjavík 1972, bls. 283–291.
- Einkaskjalasöfn E. nr. 1–300. Júníus Kristinsson tók saman. Skrár Þjóðskjalasafns – Nýr flokkur 2. Reykjavík 1992, bls. 79–80.
- Guðjón Friðriksson, Jón Sigurðsson. Ævisaga II. Reykjavík 2003, bls. 536–543, 552.
- Helga Hlín Bjarnadóttir, „Um Arnfríði Þorkelsdóttur (1830–1885) lausakonu í Reykjavík og bréfasafn hennar“, Saga. Tímarit Sögufélags LIX:1 (2021), bls. 233–244.
- Indriði Einarsson, „Endurminningar um Jón Sigurðsson IV“, Skírnir. Tímarit hins íslenska bókmentafélags LXXXV (1911), bls. 290–301, sjá bls. 301.
- Jón Jacobson, Landsbókasafn Íslands 1818–1918. Minningarrit. Reykjavík 1920, bls. 180 194–195, 252.
- Már Jónsson „Skrifað úr Skáleyjum 1882–1886 – tuttugu bréf frá foreldrum til einkasonar“, Árbók Barðastrandarsýslu 23 (2012), bls. 120–152, sjá bls. 149.
- Páll Bjarnason, „Bréf Jóns Sigurðssonar forseta“, Árbók Landsbókasafns Íslands 30 (1973), bls. 137–162.