„Uppsprettupyttir eldsins“. Skýrslur um Mývatnselda 1724–1729

Apríl 2023

„Uppsprettupyttir eldsins“. Skýrslur um Mývatnselda 1724–1729

ÞÍ. Rentukammer. B27/9, örk 1.

„Uppsprettupyttir eldsins“ kallar Jón Sæmundsson prestur í Reykjahlíð við Mývatn gígana sem hann fylgdist með koma upp í Mývatnseldum 1724–1729. Í upphafshrinu eldsumbrotanna varð sprengigos og þá myndaðist Víti við Kröflu. Veruleg hraungos byrjuðu í ágúst 1727 og getið er um fjórar megin goshrinur, þá síðustu í júní til september 1729. Mestum sögum fer af þeirri goshrinu en þá myndaðist gígaklasinn sunnan við Leirhjúk og hraun rann eftir Eldárfarveginum og ofan í byggð við Mývatn. Tók þá af fjóra bæi, meðal annars Reykjahlíð. Í Þjóðskjalasafni eru varðveitt nokkur skjöl sem lýsa þessari lokahrinu Mývatnseldanna og afleiðingum þeirra.

Skjölin eru þessi:
  • Bréf Henriks Ocksens stiftamtmanns til rentukammers þar sem hann áframsendir skýrslur frá Benedikt Þorsteinssyni, lögmanni norðan og vestan og sýslumanni í Þingeyjarsýslu, dags. 11. janúar 1731
  • Afrit af bréfi Benedikts Þorsteinssonar til Peder Keysen, yfirkaupmanns á Húsavík, dags. 13. september 1730. — Stiftamtmaður hefur fengið samhljóða bréf og kaupmaður sem sést af bréfinu sjálfu.
  • Útskrift af héraðsþingi sem haldið var á Haganesi við Mývatn 11. september 1730 ásamt skjölum sem lögð voru fram og lesin upp á þinginu, það eru: 1) Bréf Henriks Schougaard, kaupmanns á Húsavík til Benedikts Þorsteinssonar, 9. ágúst 1730. 2) Skýrsla Jóns Sæmundssonar, sóknarprests í Reykjahlíð, um framgang jarðeldana 1728–1729, ásamt danskri þýðingu.
  • Útdráttur frá manntalsþingi að Keldunesi í Kelduhverfi 9. maí 1729 um hlaup í Jökulsá á Fjöllum veturinn áður og dönsk þýðing á sama.

Það var Henrik Schougaard, kaupmaður á Húsavík, sem var frumkvöðullinn að því að þessi skjöl urðu til. Hann bað sýslumann um að gefa sér áreiðanlegar og vottaðar skýrslur um afleiðingar jarðeldanna — sem voru tilkomnar þannig að verslun hafði verið lítil sem engin á Húsavík sumarið 1729. Hann hafði neyðst til að lána Mývetningum og fleiri Þingeyingum mikið af nauðsynjavörum svo þeir liðu ekki skort. Þetta hafði orðið honum til stórs skaða þar sem hann þurfti að snúa heim aftur með nánast tómt skip, ekkert fengið af innlendum vörum til að hafa með sér til baka. Hann ætlaði að sækja um bætur til konungs vegna þessa sem væntanlega hafa aðallega falist í niðurfellingu á skuldum hans við konung.

Verslun á þessum tíma var hrein og klár vöruskiptaverslun en landsmenn gátu þó fengið lánað hjá kaupmanni til næsta árs. Kaupmenn þjónuðu þannig að einhverju leyti einnig sem nokkurs konar lánastofnanir. Þeir leigðu einstaka hafnir af konungi til ákveðins árafjölda í senn (sex ár á þessum tíma) gegn ákveðnu gjaldi sem þeir urðu að standa skil á. Húsavíkurhöfn þótti ekki sérlega góður kostur meðal kaupmanna, höfnin ótrygg og háskaleg, auk þess sem hún lokaðist stundum af hafís.

Skýrsla Jóns Sæmundssonar í Reykjahlíð sem lögð var fram á héraðsþingi að Haganesi 11. september 1730 er bitastæðust hvað varðar eldsumbrotin sjálf og framgang þeirra. Af henni má sjá að ný goshrina hófst 18. desember 1728: „uppkom hræðilegt eldsbál og jarðeldsbruni við Mývatn austur frá Reykjahlíð með hræðilegum undrum“, þannig byrjar Jón skýrsluna en strax á fyrstu dögum gossins nálgaðist hraunrennslið Reykjahlíð svo mjög að ekki munaði nema um „fjórða parti úr mílu“ að hraunflæðið næði að bænum þegar það allt í einu veik „rennsli sínu á annan veg“. Gosið hélt svo áfram fram á sumar, að því er virðist frekar rólega, en þann 30. júní 1729 færðist það aftur í aukanna og dró til tíðinda niður í byggð. „Þá spjó fjallið Leirhnjúkur (sem nú er allt brunnið og komið í hraun) út af þeim stóra eldpytti þar í fjallinu sem áður er nefndur yfirmáta miklum og ógnarlegum eldi“. Þann 6. júlí flúði Jón Sæmundsson prestur frá Reykjahlíð með fjölskyldu og þjónustufólk en varð að skilja alla búsmuni eftir. Þann 7. ágúst rann hraun yfir öll bæjarhúsin en enginn hafði þorað að koma þar nærri vikurnar á undan. Eftir það stóð hraunrennslið á sér í nokkra daga til þess 27. ágúst að hraun rann umhverfis kirkjuna þannig að hún stóð ósködduð innan í einum „eldhring“. Þann 15. september hafði hraunið kólnað svo hægt var að komast inn í eldhringinn og voru þá allir viðir kirkjunnar teknir niður og fluttir á brott ásamt innanstokksmunum. Næst lýsir Jón því hvernig hraunið rann út í Mývatn og þurrkaði það upp að hluta til að norðaustanverðu. Gosinu lauk svo „á seinustu dögum septembermánaðar.“ Undir skýrsluna skrifaði Jón Sæmundsson prestur í Reykjahlíð ásamt átta öðrum bændum í sókninni sem allir settu sín innsigli henni til frekari staðfestu.

Á héraðsþinginu kemur fram að það séu bæirnir Gröf og Fagranes sem hafi farið undir hraun auk Reykjahlíðar og töluverður hluti af Grímsstaðalandi, auk þess sem að veiðin í Mývatni hafi minnkað mikið. Af þessum ástæðum séu bændurnir orðnir svo útarmaðir að þeir geti ekki borgað venjulega skatta og skyldur, ekki heldur „keypt hjá kaupmanninum á Húsavík sína nauðsyn“ eða „svarað sínum húsbændum landskuldum og leigum“.

Undir lok Mývatnselda hafa einnig verið eldsumbrot í Vatnajökli (sennilega Kverkfjöllum eða Dyngjujökli) sem ollu stóru hlaupi í Jökulsá á Fjöllum. Frá því segir sýslumaður Benedikt Þorsteinsson í bréfum til Keysens yfirkaupmanns og Ocksens stiftamtmanns og lætur vitnisburðinn frá manntalsþingi að Keldunesi í Kelduhverfi í maí 1729 fylgja með. Þar kemur fram að Jökulsá hafi breytt farvegi sínum og tekið burt stóran hluta engja í Kelduhverfi sem hafi verið einn besti „styrkur til heyskapar og útbeitar“ í sveitinni. Úthýsi voru affallin eða „komin í leir og fen“. Af þessu orsökum vildu bændur losna undan ábúðarjörðum sínum strax um vorið og leita sér annarra jarða ef hægt væri. Annað hlaup í Jökulsá kom svo í ágúst 1730 og tók af það sem eftir var af engjum og nokkurn hluta túna.

Ekki hafa fundist heimildir sem staðfesta að kaupmaður hafi fengið þær bætur sem hann var að sækja um en það má þó teljast líklegt. Í bréfi Schougaards kaupmanns til Benedikts sýslumanns kemur fram að yfirkaupmaðurinn á Húsavík hafi sótt um bætur til konungs árið áður en hafi verið synjað af því að tilskilin skjöl vantaði. Erindi hans yrði ekki afgreitt fyrr en „fuldkommen efterretning herom indkommer“ eins og segir í bréfinu. Þessi skjöl sem hér hafa verið til umfjöllunar hafa bætt úr því. Þau lýsa raunar fyrirmyndar stjórnsýslu embættismanna á 18. öld.

Öll framkvæmdin var samkvæmt hefðbundnum leiðum innan stjórnsýslunnar: Kaupmaður skrifaði sýslumanni 9. ágúst 1730 og bað um áreiðanleg vottorð um ástandið í sýslunni af völdum jarðeldanna. Sýslumaður hélt héraðsþing að Haganesi við Mývatn 11. september, þar sem skýrsla Jóns Sæmundssonar var lögð fram. Sýslumaður skrifaði yfirkaupmanni og stiftamtmanni um málið tveimur dögum síðar, þann 13. september. Bréfin fóru síðan frá Húsavík til Kaupmannahafnar um haustið (með skipi Schougaards kaupmanns). Ocksen stiftamtmaður áframsenti erindið til rentukammars 11. janúar 1731 þar sem það var tekið til umfjöllunar en óvíst er hvenær. Bréfin eru öll undirrituð og með innsiglum viðkomandi til frekari staðfestingar. Einnig staðfestingum á að danskar þýðingar séu réttar.

Uppskrift skjalanna má nálgast hér að neðan.

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • ÞÍ. Rentukammer. B27/9, örk 1. Óbréfadagbókarfærð bréf, ágrip og uppköst. Hinn 11. janúar 1731. Ocksen stiftamtmaður til rentukammers.
  • Jón J. Aðils, Einokunarverzlun Dana á Íslandi, Reykjavík 1919, bls. 295–296.
  • Kristján Sæmundsson, „Jarðfræði Kröflukerfisins.“ Náttúra Mývatns. Ritstj. Arnþór Garðarsson og Árni Einarsson, Reykjavík 1991, bls. 84–85.
  • „Skýrslur um Mývatnselda 1724–1729.“ Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmenta að fornu og nýju IV. Kaupmannahöfn og Reykjavík 1907–1915, bls. 385–404.
Heimild mánaðarins apríl 2023
Heimild mánaðarins apríl 2023
Heimild mánaðarins apríl 2023
Heimild mánaðarins apríl 2023
Heimild mánaðarins apríl 2023
Heimild mánaðarins apríl 2023
Heimild mánaðarins apríl 2023
Heimild mánaðarins apríl 2023