Um skipulag brottflutnings íbúa Vestmannaeyja Viðbragðsáætlun sem var aldrei notuð

Janúar 2024

Um skipulag brottflutnings íbúa Vestmannaeyja Viðbragðsáætlun sem var aldrei notuð

Heimild: ÞÍ. Þjóðskjalasafn Íslands. Almannavarnir ríkisins. Áætlun um skipulagðan brottflutning fólks úr Vestmannaeyjum 2011 B/40-1

Á síðustu misserum hafa fréttamiðlar logað vegna jarðhræringanna á Reykjanesi. Síendurtekin gos hafa orðið á síðustu árum, sem sanna gildi þess að íbúar og viðbragðsaðilar séu eins vel undirbúnir fyrir slíka viðburði og hægt er. Þessar fréttir minna óneitanlega á atburði sem urðu fyrir hálfri öld í Vestmannaeyjum, þegar íbúar Heimaeyjar þurftu að yfirgefa heimili sín á einni nóttu vegna eldgoss. Sennilega geta Almannavarnir í dag, nýtt sér að einhverju leyti reynsluna frá eldsumbrotum í Heimaey og er það mjög táknrænt að margir Vestmannaeyingar hafa boðist til að veita Grindvíkingum húsaskjól. Það er nákvæmlega það sem Grindvíkingar gerðu fyrir Eyjamenn fyrir 50 árum síðan.

Í febrúar 1964 var samin viðbragðsáætlun um skipulag brottflutnings íbúa Vestmannaeyja.  Ekki er ólíklegt að ástæða fyrir gerð hennar hafi verið Surtseyjargosið. Almannavarnir ríkisins höfðu greinilega útbúið þessa viðbragðsáætlun ef á þyrfti að halda, en töldu þó litlar líkur á að eldgos myndi hefjast í Heimaey. Áætlunin virðist hafa fallið í gleymskunnar dá, því þegar eldgos hófst um klukkan 2 aðfaranótt 23. janúar 1973 í Vestmannaeyjum virtust viðbragðsaðilar ekki hafa vitað af tilvist hennar.  

Í heimild mánaðarins verður farið yfir viðbragðsáætlunina frá 1964 og hún borin saman við þá atburði sem fóru í hönd árið 1973. Hér eftir er vitnað í hana sem viðbragðsáætlunina (1964). Viðbragðsáætlunin 1964 er keimlík þeirri sem var gerð 1973, þótt þær séu alls ekki eins. Hér má lesa áætlunina frá 1964 í fullri lengd.

Þegar gos hófst í Vestmannaeyjum voru almannavarnir fljótar að bregðast við.  Að sögn var búið að opna stjórnstöð Almannavarna vegna náttúruhamfaranna klukkan 02:20 en fyrstu boð um eldgosið höfðu borist um 02:07! Strax var haft samband við útvarpsstjóra og óskað eftir að Ríkisútvarpið hefði útsendingar vegna gossins. Ríkisútvarpið var tilbúið um kl. 03:40 til að hefja útsendingu en það tók tíma að ná saman tæknifólki. Útvarpað var tilkynningum til Vestmannaeyinga um að fara niður að höfn í báta. Þeir sem kæmust ekki með skipum færu með flugi. 

Þó ekki hafi verið stuðst við viðbragðsáætlunina frá 1964 þá virðist þó hafa verið farið eftir annarri viðbragðsáætlun, eins og segir í minnisblöðum Almannavarna:

Þegar hér var komið sögu, var björgunarstarfið komið í fastar skorður og hafði verið stuðst við áætlanir sem gerðar höfðu verið fyrir brottflutning úr Vestmannaeyjum og höfð hliðsjón af almennri skipulagningu Almannavarna í öðrum bæjarfélögum á landinu.

Almannavarnir ríkisins höfðu útbúið viðbragðsáætlun fyrir Vestmannaeyjar ásamt Will H. Perry tækniráðgjafa hjá Sameinuðu þjóðunum rétt fyrir gosið og eftir þeirri viðbragðsáætlun virðist hafa verið farið. Hvort hún byggði að einhverju leyti þeirri eldri skal ósagt látið. Viðbragðsáætlun Perry byggði á því að nýta bátaflota Eyjamanna til hins ítrasta við björgunina. Viðbragðsáætlunin (1973) hafði þó aðeins verið kynnt örfáum aðilum áður en gosið hófst.

Í björgunaráætlun, sem almannavarnaráð hafði látið gera í samvinnu við Mr. Perry og tilbúin var nokkrum dögum fyrir gosið, var og gert ráð fyrir að nýta bæri bátaflota Eyjamanna til hins ítrasta við björgun úr Eyjum ef svipaðar náttúruhamfarir yrðu. Ekki hafði þó unnist tími til að kynna nema nokkrum forystumönnum Eyjamanna þessa áætlun.

Í viðbragðsáætluninni frá árinu 1964 var því verkefni að flytja íbúa eyjanna á brott skipt í þrjá hluta. 

  • Fólksflutningar frá Vestmannaeyjum til lands
  • Skipulag á flutningum fólks í farartæki
  • Móttaka fólks í landi

Veikasti hlekkur viðbragðsáætlunarinnar (1964) var talinn sá tími sem áætlað var að tæki að ná sambandi við megnið af þeim bátum sem áttu að flytja fólk til lands. Þetta reyndist þó ekki vera raunin þegar gjósa fór í Vestmannaeyjum því svo heppilega vildi til að mestallur bátaflotinn var í höfn þegar gos hófst.

Í raun má segja að skv. viðbragðsáætluninni (1964) hafi bestu skilyrði verið til staðar:

Beztu skilyrði væru þau, að allir vertíðarbátar væru í höfn, höfnin kæmi að fullum notum og lenda mætti í Þorlákshöfn. Auk þess að flugvélar væru tiltækar og aðstaða til flugs við Vestmannaeyjar og Skógasand væri ákjósanleg. Fari hver bátur tvær ferðir má flytja um 4000 manns sjóleiðis, og færi hver flugvél átta ferðir yfir daginn þá má flytja um 1500 manns loftleiðis á einum degi. Einnig má áætla að hægt væri að flytja um 400 manns út í millilandaskip. Þannig mætti gera ráð fyrir að hægt væri að flytja alla íbúa Vestmannaeyja burt á u.þ.b. 15 klst. við beztu skilyrði.

Í viðbragðsáætluninni (1964) voru útvarpssendingar Ríkisútvarpsins hugsaðar til að koma upplýsingum til skipa, en í henni þurftu forstöðumaður Almannavarna og forstjóri Landhelgisgæzlu að:

Hafa samband við "radíó" allra verstöðva og hafna á Suður- og Suðvesturlandi sem og við Ríkisútvarpið og biðja þau að koma þeim fyrirmælum til allra báta og skipa að móttökutæki þeirra verði, höfð opin og stillt á ákveðna bylgju t.d. neyðarbylgju, ef aðstaða sé slík um borð að einhver geti heyrt til þeirra að staðaldri. Annars að hlustað verði á hálfum og heilum tíma á tiltekna bylgju eða útvarp.

Í ljósi þess að það tók Ríkisútvarpið 80 mínútur að hefja útsendingu þá má segja að það hafi hugsanlega verið einn af veiku hlekkjunum í viðbragðsáætluninni frá 1964.

Annar veikur hlekkur var álagið á símkerfið, sem viðbragðsáætlunin 1964 hafði ekki gert ráð fyrir. Fólk vildi fá upplýsingar um ættingja og vini; auk upplýsinga um gosið sjálft og hjálparstarf. Margir hringdu til að bjóða fram aðstoð sína og síðan voru nokkrir beturvitringar sem töldu sig vita hvernig best væri að standa að björgunaraðgerðum. Einnig var straumur fólks í stjórnstöð. Ákveðið var að nota útvarpið til að létta á álaginu á símkerfið og stjórnstöð.

Þriðji veiki hlekkurinn var upplýsingaóreiða. Í minnispunktum almannavarna kemur fram að um morguninn 23. janúar hafi verið tilkynnt um vandræði við móttöku íbúa en þær tilkynningar reyndust ekki á rökum reistar. Í raun gekk móttakan vel fyrir sig. 
Önnur röng tilkynning var þegar tilkynnt var um skort á bílum í Þorlákshöfn til að flytja fólk þaðan og áfram til dæmis til Reykjavíkur. Það reynist ekki á rökum reist. 

Klukkan hálf sjö um morguninn voru enn 500 manns í Heimaey sem fengu ekki far með skipum þar sem allir bátarnir voru farnir og var því reynt að koma þessu fólki um borð í flugvélar.  Sumir neituðu hins vegar að fara um borð í flugvél og vildu frekar bíða eftir að bátarnir kæmu til baka. Ekki hafði verið gert ráð fyrir því í viðbragðsáætluninni (1964) að fólk myndi neita að nota tiltekin farartæki.

Í heild má segja að margt hafi verið vel skipulagt í viðbragðsáætluninni frá 1964. Hins vegar virðist sem hún hafi á ótrúlega stuttum tíma farið í glatkistuna og sú nýgerða frá 1973 hafði ekki verið kynnt íbúum og öðrum þeim sem þurftu að vita hvað gera skyldi ef slíkar hamfarir yrðu.

Hættustig

Viðbragðsáætlunin (1964) mat hættuástand vegna náttúruhamfara við Heimaey:

Hættuástand kann að skapast með ýmsum hætti, svo sem sprengingu og flóðbylgju, gosi á fleiri stöðum eða nær Heimaey. Ætla má, með nokkurri vissu, að jarðskjálftamælir sá, sem staðsettur er á Heimaey, muni gefa einhvern fyrirvara og eru því hin ýmsu stig ráðstafana miðuð við það.

Í áætluninni var gert ráð fyrir að jarðskjálftamælir sem væri staðsettur í Heimaey myndi gefa einhverja viðvörun fyrir það sem koma skyldi. Það kaldhæðnislega var að þegar eldgos hófst í Heimaey var enginn jarðskjálftamælir í eyjunni. 

Árið 1964 hafði verið settur upp bráðabirgðamælir í Heimaey til að fylgjast með Surtseyjargosinu en hann fékk að standa þar óáreittur í 6 mánuði þar til hann var færður annað, því litlar líkur voru á eldgosi á eyjunni. Geta má þess að Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur var einmitt spurður að þessu þegar Vestmannaeyingar fengu að spyrja stjórnendur og viðbragðsaðila í sjónvarpssal skömmu eftir að gosið hófst. Þá sagðist Sigurður ekki vita hvað hefði orðið af mælinum. Þar sem ekki var mælir í Vestmannaeyjum voru aðrir mælar notaðir til að reyna að staðsetja þá jarðskjálfta í aðdraganda gossins. 

Daginn fyrir gosið var reynt að staðsetja skjálftana með tveimur mælistöðvum og virtust þeir vera í 90 km fjarlægð frá Laugarvatni og 60 km frá Skammadalshóli. Komu því tveir staðir til greina, Svartikrókur á Tunguársvæði og Heimaey. Þar sem ekki var vitað til, að neinir skjálftar hefðu fundizt í Eyjum, þótti Svartikrókur líklegri staður, en fleiri stöðvar þurfti til að skera úr.

Hefði verið jarðskjálftamælir í Heimaey, þá hefði án efa verið hægt að segja til um eldgosið með meiri fyrirvara og staðsetja jarðhræringarnar nákvæmar.

Fólksflutningar frá Vestmannaeyjum til lands

Viðbragðsáætlunin (1964) gerði ráð fyrir ýmsum flutningsmöguleikum miðað við aðstæður. Best væri að nota báta og skip til brottflutnings fólks úr Eyjum en einnig mætti notast við flugvélar ef aðstæður leyfðu. Svipað var uppi á teningnum í viðbragðsáætluninni frá 1973, þar er talað um að nota skip, báta, flugvélar og þyrlur eftir aðstæðum. Sett var fram áætlun (1964) hvað skyldi gera hvort sem hafnaraðstaðan væri nothæf eða ónothæf og sama var uppi á teningnum með flugvöllinn. Einnig var gerð grein fyrir mismunandi flutningsskilyrðum.

Skipulag á flutningum fólks í farartæki

Í viðbragðsáætluninni (1964) átti að gera sérstakar ráðstafanir við brottflutning sjúklinga og aldraðra. Þau átti að setja í forgang. Í viðbragðsáætluninni (1973) voru sjúklingar og slasaðir einnig settir í forgang. Héraðslæknir myndi meta í hvaða röð sjúklingar yrðu fluttir og með hvaða farartækjum. 

Í viðbragðsáætluninni (1964) var hugmyndin að fyrirvinna fjölskyldunnar, fjölskyldufaðir eða aðstoðarmaður frá hjálparsveit ábyrgðist brottflutning fjölskyldna og kæmi þeim í viðeigandi farartæki. Æskilegt var að þeir sem sinntu hjálparstörfum væru einhleypir, þannig að þeir þyrftu ekki að bera ábyrgð á flutningi fjölskyldu sinnar og gætu einbeitt sér að því að hjálpa öðrum. 

Móttaka fólks í landi

Í viðbragðsáætluninni (1964) átti móttaka fólks í landi að vera á eftirfarandi stöðum ef aðstæður leyfðu: Reykjavík, Þorlákshöfn og Skógasandi. Langferðabílar, strætisvagnar og leigubílar yrðu notaðar til að flytja fólk þaðan.

Í viðbragðsáætluninni (1973) voru móttökustaðir ekki alveg þeir sömu, móttaka fólks var á eftirfarandi stöðum: Þorlákshöfn, Reykjavík/Reykjavíkurflugvelli, Helluflugvelli, Keflavíkurflugvelli og í Gunnarshólma í Austur-Landeyjum.

Notast skyldi við skóla og hótel sem gistimöguleika fyrir brottflutta í viðbragðsáætluninni (1964). Ekki var mikið um viðleguútbúnað á þessum stöðum og því væri æskilegt að fólk sem þyrfti að flýja tæki með sér svefnpoka og teppi.

Í áætluninni 1964 var ekki gert ráð fyrir björgun verðmæta úr Vestmannaeyjum. Í annarri heimild má hins vegar finna lýsingar á verðmætabjörgun úr Heimaey. Í þessari viðbragðsáætlun var lögð áhersla á að bjarga mannslífum ekki munum, enda skiptu fyrstu klukkutímarnir sköpum við að koma fólki í öruggt skjól.

Lokaorð viðbragðsáætlunarinnar (1964) voru þessi:

Tilgangur þessarar skýrslu er fyrst og fremst sá, að gera grein fyrir nauðsynlegum ráðstöfunum og aðgerðum, ef flytja þyrfti íbúa Vestmannaeyja brott. Líkur fyrir brottflutningi íbúanna vegna náttúruhamfara eru, sem betur fer, taldar mjög litlar.  Skipulag ráðstafana og aðgerða miðast við þær aðstæður sem helzt mætti búast við.  Ef þær tillögur, sem hér eru settar fram, ættu að halda gildi sínu þyrfti að endurskoða þær með vissu millibili. [feitletrun er höfundar]

Líkur á að flytja þyrfti íbúa Vestmannaeyja voru taldar mjög litlar og um hálfu ári síðar hætti fólk að hafa áhyggjur af hugsanlegum eldsumbrotum í Eyjum. Það sést m.a. á því að jarðskjálftamælar voru fjarlægðir.  Áætlunin virðist síðan hafa gleymst með tíð og tíma.  

Viðbragðsáætlunin frá 1964 hefði alveg örugglega getað komið að góðum notum við brottflutning fólks úr Heimaey. Mikilvægasta atriðið við björgun fólksins var þó sú staðreynd að fyrir hendi voru bestu skilyrði til björgunar.

Höfundur kynningartexta: S. Andrea Ásgeirsdóttir

Heimildir

ÞÍ. Þjóðskjalasafn Íslands. Almannavarnir ríkisins. Áætlun um skipulagðan brottflutning fólks úr Vestmannaeyjum 2011 B40-1
Staðsetning jarðskjálftamæla sem notaðir voru til að staðsetja skjálfta í aðdraganda Vestmannaeyjagoss.