Thor Thors fundar með Roosevelt og Churchill síðla árs 1941

Júlí 2022

Thor Thors fundar með Roosevelt og Churchill síðla árs 1941

ÞÍ. Utanríkisráðuneytið 1967. B/199-1

Laugardaginn 27. desember 1941 hringdi síminn á sendiskrifstofu Íslands í Washington. Erindið var að bjóða Thor Thors, sendifulltrúa Íslands í Bandaríkjunum, til Hvíta hússins samdægurs. Thor gat sér til um að erindið væri að gefa honum og öðrum sendiherrum tækifæri til að hitta Winston Churchill, sem dvaldi þá í Washington. Það reyndist rétt til getið. Við komuna í Hvíta húsið var honum, ásamt öðrum sendiherrum vísað á skrifstofu Roosevelts forseta og þar var Churchill einnig. Heimild júlímánaðar er frásögn Thors Thors af þessum fundi með valdamestu mönnum heimsins, sem stóðu í ströngu í baráttu þeirra gegn öxulveldunum.

Undir lok árs 1941 hafði staða bandamanna í styrjöldinni gjörbreyst. Bandaríkin urðu beinn þátttakandi í stríðinu 9. desember, þegar Japanir réðust á flotastöð Bandaríkjana í Perluhöfn á Hawaii. Aðeins nokkrum dögum síðar hittust leiðtogar Bretlands og Bandaríkjanna í Washington og þar eyddi Churchill jólunum árið 1941. En hvert var erindið sem flutt var sendiherrunum af þeim Churchill og Roosevelt? Þess getur Thor í skýrslu sinni til stjórnvalda á Íslandi.

Megintilgangur fundarins var að hvetja þjóðir heimsins til að undirrita yfirlýsingu sem fól í sér að koma svokallaðri Atlantshafsyfirlýsingu á víðtækari grundvöll. Hún fól í sér hvernig Bandaríkjamenn og Bretar sáu fyrir sér hlutverk sitt að stríði loknu. Þar á meðal var fjallað um sjálfstjórn allra ríkja sem höfðu verið hernumin af Þjóðverjum í stríðinu. Jafnframt skyldi stefna að frjálsum viðskiptum milli þjóða. Markmiðið var að sem flestar þjóðir undirrituðu yfirlýsingu sem vísaði í sömu átt og lagði Roosevelt áherslu á það á fundinum, að sögn Thor Thors, að Ísland undirritaði samninginn þrátt fyrir að vera herlaust land og auðvitað enn í sambandi við Danmörku sem þá hafði verið hernumin af Þjóðverjum.

Að öðru leyti var fundurinn að mestu leyti hvatning leiðtoganna til sendiherranna. Roosevelt og Churchill voru sannfærðir um sigur, sérstaklega eftir að Þjóðverjar réðust inn í Rússland og síðast en ekki síst eftir að Bandaríkin með sinn mikla mátt urðu beinir þátttakendur í styrjöldinni.

Hver var afstaða Íslands til þessa máls? Það ræddi Thor við Kauffmann sendiherra Dana. Gat Ísland tekið einhliða afstöðu til þessa? Svo virðist sem sendiherrunum hafi ekki verið fyllilega ljóst hvort yfirlýsingin væri beinlínis hernaðarleg. Yfirlýsing um þátttöku Íslands í hernaði væri óhugsandi, þar sem slíkt bryti í bága við ævarandi hlutleysi landsins. Ef yfirlýsingin væri hins vegar einungis um frelsi þjóða til handa og lýðræði horfði málið öðru vísi við. Þeir kusu því að bíða uns yfirlýsingin væri endanlega tilbúin en þá væri hægt að taka afstöðu til málsins.

Frásögn Thors af fundinum, sem hann ritaði samdægurs og sendi til Íslands, er merkileg fyrir margra hluta sakir og tengist beint baráttu Íslendinga fyrir sjálfstæði. Á fundinum virðist koma skýrt fram að Bandaríkin og Bretland myndu styðja sjálfsákvörðunarrétt þjóða til sjálfstjórnar og vilji Íslendinga í því máli var algjörlega skýr. Sú staðreynd að Thor var boðið á þennan fund var einnig vísbending um vilja Bandaríkjanna.

En hver varð svo niðurstaðan? Ísland undirritaði ekki þá yfirlýsingu sem hér er um rætt. Þann 1. janúar 1942 undirrituðu 26 ríki sem voru í stríði við öxulveldin yfirlýsingu sem byggð var á svipuðum lögmálum og lýst var í Atlantshafsyfirlýsingunni. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar 1945 og varð Ísland aðili að þeim ári síðar.

Unnar Rafn Ingvarsson ritaði kynningartexta

Heimildir

Frásögn Thor thors af fundi með Winston Chruchill og Roosevelt
Frásögn Thor thors af fundi með Winston Chruchill og Roosevelt
Frásögn Thor thors af fundi með Winston Chruchill og Roosevelt
Frásögn Thor thors af fundi með Winston Chruchill og Roosevelt
Frásögn Thor thors af fundi með Winston Chruchill og Roosevelt