Þakkarskeyti Friðriks VIII konungs til íslensku þjóðarinnar eftir heimsókn hans 1907

Maí 2012

Þakkarskeyti Friðriks VIII konungs til íslensku þjóðarinnar eftir heimsókn hans 1907

Þ.Í. Fjármálaráðuneytið. 1991. B/1701. Örk 5. Þakkarskeyti frá konungi

Þegar Friðrik VIII sótti Ísland heim höfðu Íslendingar aðeins einu sinni áður tekið á móti konungi sínum og var það árið 1874 þegar faðir Friðriks VIII, Kristján IX konungur, kom til landsins í tilefni af þúsund ára byggð Íslands. Tilefni konungsheimsóknarinnar 1907 var pólitískt og átti hún að styrkja bræðrabönd hinna íslensku og dönsku þingmanna vegna fyrirhugaðra milliríkjanefndar, sem átti að endurskoða Stöðulögin frá árinu 1874.

Friðrik VIII og föruneyti hans komu til Reykjavíkur 30. júlí 1907 og eftir tveggja daga viðdvöl með viðeigandi veisluhöldum var lagt af stað til Þingvalla, þar sem haldin var þjóðhátíð. Hélt konungur því næst áfram för sinni að Geysi og Gullfossi. Hinn 5. ágúst var förinni haldið áfram að Þjórsárbrú, þar sem gist var eina nótt. Síðast kom konungur að Arnarbæli í Ölfusi áður en haldið var aftur til Reykjavíkur. Eftir Reykjavíkurdvölina og landferðina sigldi konungur til Vestfjarða þar sem tekið var á móti honum á Ísafirði sex dögum síðar. Þaðan var haldið til Akureyrar, þar sem móttaka var bæði inni á Akureyri og í Hrafnagili. Íslandsferðinni lauk svo með viðkomu konungs á Seyðisfirði 15. ágúst 1907.

Konungur var afar ánægður með ferðina og sendi hann skeyti til íslensku þjóðarinnar þegar hann var kominn aftur til Danmerkur þar sem hann þakkaði enn og aftur fyrir móttökurnar. „Tak til Alle. Tak for Alt.“

Helga Jóna Eiríksdóttir ritaði kynningartexta.

 

Smelltu á smámyndina hér til hægri til að skoða stærri útgáfu hennar.

 

Þakkarskeyti Friðriks VIII