Skjalabók Bæjar á Rauðasandi

Maí 2013

Skjalabók Bæjar á Rauðasandi

ÞÍ. Jarðaskjöl. XXII. Skjalabók Bæjar á Rauðasandi 1418-1730

Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveitt mörg merkileg skjöl og skjalabækur. Mætti þar nefna Reykholtsmáldaga, sem og ýmsar máldagabækur, bréfabækur biskupa, jarðabækur og manntöl. Þar fyrir utan liggur mikill fjöldi skjala og skjalabóka í safninu, sem lítið hefur verið hreyft við í tímans rás. Ein slík er Skjalabók Bæjar á Rauðasandi 1418-1730, en hún hefur að geyma afskriftir skjala á árabilinu 1397-1733, þó í skrám segi, að skjalabókin spanni yfir árabilið 1418-1730. Við nánari skoðun kemur nefnilega í ljós, að afskriftir yngri og eldri skjala leynast í skjalabókinni, en heiti hennar gefur til kynna.

Skjalabók Bæjar á Rauðasandi er afritabók og hefur til hennar verið stofnað á seinni hluta 17. aldar og síðar aukið við hana á fyrri hluta 18. aldar. Skrifararnir eru að mestu eða öllu leyti tveir menn; annars vegar séra Jón Ólafsson yngri (1640-1703) kenndur við Lambavatn og þá Ormur Daðason (1684-1744) sýslumaður, síðast og lengst í Dalasýslu, en í Strandasýslu og Barðastrandarsýslu þar á undan. Séra Jón mun hafa skrifað upp þau skjöl sem mynda seinni hluta bókarinnar, en flest þeirra mun hann hafa skrifað upp árið 1678. Ormur sýslumaður mun svo hafa skrifað upp þau skjöl sem mynda fyrri helminginn, frá og með árinu 1726.

Þessi afskriftaiðja er að öllum líkindum runnin undan rifjum Eggerts ríka Björnssonar (1612-1681) sýslumanns á Skarði, og síðar haldið áfram fyrir tilstilli erfingja hans. Séra Jón var skjólstæðingur Eggerts um árabil, en Eggert kom Jóni til menningar og mennta, og studdi hann með ýmsum hætti. Ormur sýslumaður hins vegar, kvæntist inn í Skarðsættina árið 1715, dótturdóttur Eggerts, Ragnheiði Þorsteinsdóttur (1680-1748) en Ragnheiður var dóttir Arnfríðar Eggertsdóttur (1648-1726).

Líklega er þessi skjalabók sú sama og Davíð Scheving (1732-1815) sýslumaður í Barðastrandarsýslu getur um í bréfi árið 1765, og kallar þar máldagabók, geymda í Saurbæjarkirkju. Í bréfi til Ólafs Thorlaciusar (1851-1920) frá Bæ á Rauðasandi, dagsettu þann 21. mars árið 1906, kallar Sigurður Bachman (1842-1924), kaupmaður í Patreksfirði, þessa máldagabók Gömlu Gráskinnu. Þess má geta að Ólafur og Sigurður áttu Bæ á Rauðasandi til helminga á þessum tíma. Jón Þorkelsson (1859-1924) þjóðskjalavörður kallar þessa skjalabók Bæjarskjalabók í athugasemda- og skýringaskjali sem hann tók saman árið 1907, sem nú fylgir skjalabókinni. Hvernig núverandi heiti, Skjalabók Bæjar á Rauðasandi, hefur komið til er ekki alveg ljóst, en það hefur gerst nokkru eftir að hún var keypt inn í Þjóðskjalasafn (Landsskjalasafn) og kannski um það bil er hún var bundin inn, mörgum árum síðar, sem hefur verið í þjóðskjalavarðartíð (1924-1935) Hannesar Þorsteinssonar (1860-1935).

Jón Þorkelsson fékk skjalabókina léða í Landsskjalasafn (Þjóðskjalasafn) þann 21. desember árið 1905 frá Sigurði Bachman kaupmanni. Í janúarbyrjun 1906 falaðist Jón eftir skjalabókinni, Landsskjalasafni til eignar, af Sigurði kaupmanni. Nokkur dráttur varð á svari Sigurðar og ekki var hann beinlínis spenntur fyrir því að láta safninu bókina í té, svo sem sjá má á bréfi hans til Ólafs Thorlaciusar í marsmánuði 1906. Bréfið hljóðar svo:

Vatneyri
21 marz 1906

Kæri vin!

Jeg hefi fyrir löngu medtekid brjef frá herra Jóni Þorkellssyni dagsett 2 Januar þ. ár viðvíkjandi g(öm)l(u) Gráskinnu, en med öllu fallid úr minni að svara því, þar Til ad þad er ordid um seinann med þessari ferd, hripa jeg þjer því bara fá ein orð og eru þau þess efnis, ad bidja þig ad taka bókina med þjer til baka, nema því ad eins ad hann borgi fyrir hana þær eitt hundrad krónur sem hann í brjefi sínu byður og staðferst eftir rit af henni allri ad auki, sem þó er mjög lítilfjörleg borgun fyrir þann grip.

Þinn einl(ægi) vin
S. Bachmann

 

Safnið gekk að þessum kröfum og greiddi 100 krónur fyrir skjalabókina. Til samanburðar má geta þess að árskaup vinnumanns í sveit, aldamótaárið 1900, var 120 krónur og vinnukonu helmingi minna. Þá voru dagslaun verkamanns að vori (apríl-júní) í Reykjavík 3,60 krónur árið 1906 og byrjunarlaun presta á sama tíma voru um 1200 krónur á ári. Þetta var því nokkurt fé á þessum tíma, og ótalin eru vinnulaun og tími þess er skrifaði upp afrit af skjalabókinni fyrir eigendur hennar og seljendur.

Eins og gefur að skilja, snýst efni skjalabókarinnar að verulegu leyti um Bæ á Rauðasandi, sem og ýmsa umsýslu eigenda hans á um 400 ára tímabili. Mætti nefna máldaga kirkjunnar að Bæ, vitnisburði og meðkenningar af ýmsum toga, landamerkjalýsingar fyrir Bæ sem og ýmsar nálægar jarðir er voru í eigu Bæverja, kaupbréf, hjónabandsgerninga og ýmislegt í þeim dúr, að ógleymdri ítarlegri erfðaskrá Eggerts ríka Björnssonar.

Til nokkurrar einföldunar mætti því segja að Skjalabók Bæjar á Rauðasandi sé og hafi verið þekkingarhandbók, er eigendur Bæjar vildu hafa handbæra. Það er skoðun þess er hér ritar, að Eggert Björnsson hafi stofnað til þeirrar afskriftariðju sem finnur sér stað í þessari tilteknu skjalabók, nokkrum árum fyrir andlát sitt, til að tryggja hagsmuni konu sinnar og dætra að sér látnum.

Skjalabók Bæjar á Rauðasandi hefur að geyma 128 skjalaafrit. Frá 14. öld eru þau þrjú, frá 15. öld eru þau 14, frá 16. öld eru skjalaafritin 43, frá 17. öld eru þau 54 og loks 14 frá þeirri átjándu. Skjölin frá 14. öld og þeirri fimmtándu hafa öll verið prentuð í hinu íslenzka fornbréfasafni sem og drjúgur hluti skjalanna frá þeirri sextándu eftir því sem best verður séð. Þessu er þó haldið hér fram með fyrirvara um að náin og ítarleg athugun á skjalabókinni hefur ekki farið fram, þó slík athugun sé orðin löngu tímabær.

Fljótlega eftir að skjalabókin komst undir hendur Jóns Þorkelssonar gerði hann einskonar drög að efnisyfirliti, sem þó inniheldur aðeins ártöl og þá blaðsíðutöl. Er því engin leið að átta sig á efni skjalabókarinnar út frá því efnisyfirliti einu saman. Skjölin í bókinni eru í hrærigraut, bæði hvað snertir tíma og efni. Sennilega voru skjölin bundin inn í nýtt band í þeirri röð sem þau bárust safninu í, en með því var tryggð haldið við upprunaregluna:

Með upprunareglu er átt við, að skjalasöfnum hinna ýmsu stofnana og embætta o.s.frv. sé ekki blandað saman og söfnin séu látin halda sér eins og þau voru mynduð af þeim, sem unnu með skjölin og gengu frá þeim á sínum tíma, en þeim ekki raðað að nýju eftir einhverju öðru kerfi, sem alls ekki þarf að vera í nokkrum tengslum við hið upprunalega.

Ástand skjalabókarinnar er mjög gott á heildina litið, þó á stöku stað megi finna skemmdir á og í blöðum hennar.

Upphafsbókstafir í upphafi skjala eru víða myndskreyttir, flúraðir og skreyttir á skemmtilegan hátt, og minna á handrit miðalda. Kannski taka þeir mið af mótífum fyrirmyndanna sjálfra en um það er ekkert hægt að fullyrða fyrr en samanburður hefur átt sér stað. Þá má sjá teikningar af þremur innsiglum manna í afskriftum tveggja skjala frá fyrri helmingi 15. aldar, annars vegar þeirra Einars Markússonar og Björns Ámundasonar í skjali dagsettu 11. júlí árið 1418 og hins vegar Guðna Oddssonar (dáinn 1431) lögréttumanns og lögsagnara í Dalasýslu, í skjali dagsettu 23. maí árið 1426. Teikningar af innsiglum Einars og Björns er ekki að finna í Sigilla Islandica I-II, en lakari teikningu af innsigli Guðna, en þá sem sjá má í Skjalabók Bæjar á Rauðsandi, er til staðar í þeirri annars merku útgáfu (sbr. Sigilla Islandica II, bls. 228). Óhætt er að kalla Skjalabók Bæjar á Rauðasandi hreina og klára gersemi. Hún er fagur forngripur og heimild um ýmsa hluti. Lykilforsenda fyrir hnitmiðaðri notkun hennar og þá frekari rannsóknum á efni hennar myndi einkum felast í gerð handhægs efnisyfirlits, með inntakslýsingu fyrir hvert og eitt skjal, sem höfundur þessa greinarstúfs hefur reyndar gert að hluta. En betur má ef duga skal.

Gunnar Örn Hannesson ritaði kynningartexta.

Heimildir

Óprentaðar heimildir

  • Þjóðskjalasafn Íslands. Jarðaskjöl. XXII. Skjalabók Bæjar á Rauðasandi 1418-1730. Þessi skjalabók hefur að geyma afrit skjala frá tímabilinu 1397-1733 og er hún með hendi séra Jóns Ólafssonar yngra á Lambavatni annars vegar og Orms Daðasonar sýslumanns í Dalasýslu hins vegar.
  • Þjóðskjalasafn Íslands. Annað. Hannes Þorsteinsson, Æfir lærðra manna. 67 bindi.
  • Gunnar Örn Hannesson, Bréfabók Eggerts Björnssonar sýslumanns á Skarði á Skarðsströnd: um efni hennar, feril og skjalfræði. Meistaraprófsritgerð í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Reykjavík, 2011.

Prentaðar heimildir

  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Ritstjórar Guðmundur Jónsson og Magnús S. Magnússon. Reykjavík, 1997.
  • Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. Páll Eggert Ólason tók saman. Fimm bindi. Reykjavík, 1948-1952.
  • Íslenzkt fornbréfasafn I-XVI. Kaupmannahöfn og Reykjavík, 1857-1972.
  • „Kirkjumálanefndin“. Lögrjetta. 1. árg., 16. tbl. 11.4.1906, bls. 62.
  • Sigilla Islandica I-II. Magnús Már Lárusson og Jónas Kristjánsson sáu um útgáfuna. Reykjavík, 1965-1967.
  • Þjóðskjalasafn Íslands. Grundvöllur og hlutverk. Upplýsingarit Þjóðskjalasafns. Björk Ingimundardóttir tók saman. Reykjavík, 1996.
  • Þórður Jónsson, Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal. Tvö bindi. Guðrún Ása Grímsdóttir sá um útgáfuna. Reykjavík, 2008.

Heimildir af vefnum

 

Smelltu á smámyndirnar hér til hægri til að skoða stærri útgáfu þeirra.

 

Þrjár innsiglisteikningar í Skjalabók Bæjar á Rauðasandi. Sjá nánar Íslenzkt fornbréfasafn IV, (1265-1449). Kaupmannahöfn, 1897
Sjá nánar Skjalabók Bæjar á Rauðasandi, bls. 53-54
Þorleifur Björnsson, selur Gísla Filippussyni jörðina Keflavík á Rauðasandi