Ráðagerðir um súpu Rumfords greifa í íslenska aska undir lok 18. aldar
Rentukammer 1928 – B14/9, örk 11
Á seinni hluta 18. aldar dundi hvert áfallið af öðru á Íslendingum. Hannes Finnsson Skálholtsbiskup útlistar þau í riti sínu Mannfækkun af hallærum sem kom út á prenti árið 1796. Stjórnvöld í Danmörku virðast hafa haft talsverðar áhyggjur af hungursneyð á Íslandi og tilheyrandi fólksfækkun í kjölfar hennar.
Efnahags- og verslunarmálaráðuneytið (General landøkonomi og kommerce kollegium) sendi rentukammeri erindi 20. nóvember 1798. Þar má finna kynningu á súpu Rumfords greifa sem ráðuneytið taldi vera meðal mikilvægustu uppfinninga samtímans og til mestra almannaheilla enda að sögn bæði bragðgóð og næringarrík fæða sem geri erfiðisfólki kleift að næra sig fyrir u.þ.b. tvo skildinga á dag. Þar segir að umfangsmiklar tilraunir utanlands, í München, Hamborg og Lundúnum, og innanlands, þ.e. á Sjálandi, hafi sannað gildi uppfinningarinnar og staðfest mikilvægi hennar. Ráðuneytið segir einnig að þessi fæða virðist henta vel á norðlægum slóðum þar sem loftslagið geri neyslu heitra og fjölbreyttra fæðutegunda nauðsynlega. Uppistaðan í súpunni sé grænmeti sem ekki sé mikið af hvorki á Íslandi né í Finnmörku enda vaxi það og þrífist þar illa. Það bendir á að flutningur grænmetis yfir hafið sé jafnframt ákveðnum erfiðleikum bundinn þar sem það sé bæði rúmfrekt og hafi skamman geymslutíma og taki því fljótt að rotna. Það telur að yrði súpa Rumfords greifa tekin upp í hinum norðlægu héruðum konungsríkisins mætti skipta grænmetinu út fyrir annað hráefni án þess að það hefði áhrif á næringargildið. Fyrirtækið Lavætz og Röhr hafi verið stofnsett árið 1798 í Ottensen við Hamborg og framleiði mjöl úr grænmeti. (Ottensen var úthverfi hafnarborgarinnar Altona í Holtsetalandi sem Danir misstu eftir að hafa farið halloka í stríði við Prússa árið 1864.) Í framleiðsluferlinu dragist umfang grænmetisins verulega saman en næringargildi þess haldist óbreytt. Þá tapi mjöltegundirnar ekki eiginleikum sínum þótt þær séu fluttar um langan veg.
Ráðuneytið upplýsir rentukammer um að tilraunir, sem hafi verið gerðar í nágrenni Kaupmannahafnar síðastliðið sumar, sýni að umrætt grænmetismjöl sé jafn nothæft við gerð súpu Rumfords greifa og ferskt grænmeti. Þær hafi leitt í ljós að 1 pund af kartöflumjöli innihaldi jafnmikið af næringarefnum og 10 pund af kartöflum, og 1 pund af baunamjöli jafnmikið og 2 pund af baunum. Þá kosti 1 pund af kartöflumjöli aðeins 16 skildinga og 1 pund af baunamjöli 10 skildinga sem sé mun ódýrara en sama magn af fersku grænmeti, samkvæmt því verði sem tíðkist á Sjálandi, en jafnsaðsamt. Þannig kosti hver súpuskammtur úr grænmetismjölinu tæpa 2 skildinga sem sé mjög ódýrt miðað við önnur matvæli.
Ráðuneytið segir að lokum að hin norðlægu héruð sem rentukammeri sé falin umsjón með verði oftar fyrir því en hin suðlægu héruð að líða skort á hollum og heppilegum matvælum. Það hafi því talið sér skylt að upplýsa rentukammer um þessa uppfinningu. Hafi það áhuga á að gera tilraunir í umræddum héruðum þá geti ráðuneytið sent ítarlega greinargerð um meðhöndlun mjöltegundanna ásamt sýnishorni af þeim sem helst sé mælt með.
Maðurinn sem súpan er kennd við hét Benjamin Thompson (1753–1814) og var fæddur í Massachusetts í Bandaríkjunum. Honum var margt til lista lagt og reiknaði t.d., aðeins 14 ára gamall, útkomu sólmyrkva og skeikaði aðeins um fjórar sekúndur. Hann var í læri hjá kaupmanni og kvæntist ríkri ekkju frá Rumford í New Hampshire sem í dag heitir Concord og er höfuðborg fylkisins. Skömmu eftir að frelsisstríðið hófst flúði hann til Englands enda kom í ljós að hann var vendilkráka (d. vendekåbe, e. turncoat), þ.e. trúr Englandskonungi og hafði stundað njósnir fyrir hann. Thompson komst til frama innan enska stjórnkerfisins og var árið 1779 gerður að meðlimi konunglega vísindafélagsins. Hann einbeitti sér einkum að rannsóknum á byssupúðri, smíði skotvopna og merkjasendingum á sjó.
Karl Theódór kjörfursti Bæjaralands bauð honum í þjónustu ríkisins og hersins. Þau 11 ár sem Thompson dvaldi í München var hann hernaðarmálaráðherra, fór með málefni lögreglunnar og var háttsettur við hirð kjörfurstans ásamt því að sinna vísindastörfum. Þar að auki endurskipulagði hann herinn, bætti aðstæður iðnverkamanna og fækkaði betlurum.
Hann var gerður að greifa hins heilaga rómverska keisaradæmis árið 1791 og valdi sér nafnið Rumford eftir heimabæ eiginkonu sinnar. Árið 1795 fór hann til Englands þar sem hann einbeitti sér að því að finna leiðir til að þétta reykháfa og finna úrbætur við smíði eldstæða. Rannsóknir hans voru mikilvægt framlag á sviði varmafræðinnar. Hann var kallaður heim til Bæjaralands árið 1796 þar sem München var enn á ný ógnað af herjum Austurríkis og Frakklands. Kjörfurstinn flúði og það var Rumford greifa að þakka að verja tókst borgina falli. Skömmu síðar fluttist hann til Englands og stofnaði þar, í félagi við Íslandsvininn sir Joseph Banks, konunglegu vísindaakademíuna (Royal institution). Rumford greifi fluttist til Frakklands árið 1804 og dvaldi þar til æviloka.
Ekki er að sjá að súpa Rumfords greifa hafi ratað til Íslands enda voru þar enn ekki risnir þéttbýliskjarnar sem voru forsenda fyrir súpueldhúsum. Slíkt hefði helst verið reynandi í Hólavallaskóla eða fangelsinu í Reykjavík en það hafa væntanlega verið of smáar einingar til að freista fyrirtækisins Lavætz og Röhr.
Ef einhver skyldi vera í vandræðum með hvað ætti að hafa í kvöldmatinn, fylgir hér uppskrift af súpu Rumfords greifa. Það var boðið upp á hana í vinnuhúsi fátækranefndar Kaupmannahafnar, sem stóð utan við Vesturport, samkvæmt tilskipun frá 1. október 1822.
Rumfords Suppe
1/5 ottingkar | Kartofler | 1/4 sk. |
1/17 ottingkar | Byggryn | 9/153 sk. |
1/17 ottingkar | Erter | 6/102 sk. |
1 lod | Flesk | 13/32 sk. |
Urter | 15/32 sk. | |
Salt | 1/32 sk. | |
Brændsel | ¼ sk. | |
1 18/32 sk. |
Hér hefur súpan jafnframt verið kostnaðargreind eftir verðlagi þess tíma og er einnig reiknað með eldsneytinu sem þurfti til að sjóða hana. Mælieiningin ottingkar (ílát sem tekur áttung skeppu) mun vera 2,1715 lítrar og lóðið var 15 grömm.
Það fylgja engar eldunarleiðbeiningar en fram kemur að kjötið þurfi ekki að vera ferskt, því nota megi nýsaltað svínakjöt eða velreykt nautakjöt. Þá segir einnig að kjötið megi sjóða í vatni eða með súpunni. Kjötið skal svo skera mjög smátt og blanda saman við mjög smátt skornar kartöflurnar. Reyndar er mælt með því að kjötið sé skorið niður áður en það er soðið. Þar sem byggið er svo næringarríkt er ekki þörf á miklu magni af kjöti en það skal skera smátt til þess að það virðist meira. Auk þess gefur það ásamt kartöflunum bragð þar sem byggið er fremur bragðlaust. Þá er mælt með því að bæta við saltaða kjötið pipar, engifer og matjurtum til þess að bragðbæta súpuna. Sömuleiðis er mikilvægt að suðan sé jöfn frá upphafi til enda og æskilegast að hún haldist við suðumark án þess að það bullsjóði. Loks er mælt með því að hafa tvöfaldan botn á pottinum svo að súpan brenni ekki við.
Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp bréf Efnahags- og verslunarmála-ráðuneytisins.
Heimildir
- Gunnlaugur Oddsson, Orðabók sem inniheldur flest fágæt, framandi og vandskilin orð er verða fyrir í dönskum bókum. Ný útgáfa með íslenskri orðaskrá. Jón Hilmar Jónsson sá um útgáfuna ásamt Þórdísi Úlfarsdóttur. Orðfræðirit fyrri alda I. Reykjavík 1991, bls. 90, 204.
- Hannes Finnsson, Mannfækkun af hallærum. Jón Eyþórsson og Jóhannes Nordal sáu um útgáfuna. Reykjavík 1979, bls. 84–157.
- „Ekkert var honum óviðkomandi“, Morgunblaðið 106. árg., 65. tbl. (Sunnudagur 17. mars 2018), bls. 18–19.
- Jón Steffensen, „Hungursóttir á Íslandi“, Menning og meinsemdir. Ritgerðasafn um mótunarsögu íslenzkrar þjóðar og baráttu hennar við hungur og sóttir. Reykjavík 1975, bls. 341–425.
- The encyclopædia Britannica. A dictionary of arts, sciences, literature and general information XXIII. Eleventh edition. Cambridge 1911, bls. 849–850.
- Waaben, Knud, „Den Rumfordske suppe“, Siden Saxo 12:2 (1995), bls. 11–17.
- Wendt, Joh. Chr. W., Om Fødemidler og Bespisnings-Anstalter for Fattige, i offentlige Stiftelser, i Garnisoner og i Fængsler. Kjöbenhavn 1828, bls. 25, 61, 72–73, 75.
Smelltu á tengilinn hér að neðan til að sækja uppskrift bréfsins.