Pólskir byltingarmenn
ÞÍ. Borgarfjarðar- og Mýrasýsla B1/3-2.
Þó Ísland væri lengst af einangrað frá umheiminum og ferðir til landsins stopular, fóru heimsögulegir atburðir ekki með öllu framhjá Íslendingum.
Árið 1832 barst sýslumönnum landsins bréf frá amtmönnum þar sem vakin var athygli þeirra á hópi Pólverja, sem höfðu staðið fyrir uppreisn í Póllandi og voru nú í París. Nafngreindir voru 21 maður í hópnum og var sýslumönnum gert ljóst að þessir menn höfðu skapað óróa og unnið gegn stjórnvöldum. Af þessum sökum voru mennirnir ekki velkomnir til ríkis Danakonungs.
Litlar líkur verða að teljast á að pólskir byltingarmenn hefðu gert sig heimakomna á Íslandi á fyrri hluta 19. aldar. Það var dönskum embættismönnum auðvitað ljóst. Hins vegar var Ísland hluti danska ríkisins og þær reglur sem konungur setti giltu jafnt fyrir Íslendinga sem aðra þegna konungs. Því eru bréf amtmanna til sýslumanna til marks um stjórnsýslu danska ríkisins á þessum tíma, þar sem tilskipanir konungs fóru til stjórnardeilda, í þessu tilfelli til danska kansellísins, og þaðan til amtmanna og loks til sýslumanna.
Pólsku byltingarmennirnir, sem um ræðir í bréfinu, voru margir þekktir á sinni tíð. Efstur á lista var Adam Gurowsky. Adam þessi var greifasonur, fæddur árið 1805. Hann barðist hart gegn rússneskum áhrifum í Póllandi og var einn af forsvarsmönnum svokallaðrar Nóvemberuppreisnar í Varsjá árið 1930. Eftir að Rússar brutu Nóvemberuppreisnina á bak aftur, flýði hann til Parísar þar sem hann bjó í nokkur ár, en árið 1849 flutti hann til Ameríku og hlaut þar frama, þar sem hann varð einkum kunnur fyrir ritstörf sín. Sumir aðrir úr hópnum fluttu einnig vestur um haf, enda voru Bandaríkin hæli byltingarmanna úr Evrópu.
Nóvemberbyltingin átti sér raunar merkilegan aðdraganda. Nikulás Rússakeisari hugðist nota pólskar hersveitir til að berja niður svokallaða Júlíbyltingu í Frakklandi árið 1830. Það leiddi af sér uppreisn í pólska hernum sem hafði það markmið að berjast gegn rússneskum áhrifum í Póllandi. Uppreisnin var eins og áður sagði brotin á bak aftur, en danska stjórnin tók sér stöðu með öðrum einvöldum í Evrópu gegn byltingaróróanum sem ógnaði stöðugleikanum í álfunni.
Hér að neðan er í PDF-skrá uppskrift af bréfi Bjarna Thorsteinssonar amtmanns á Arnarstapa, dagsettu 9. desember 1832, til Eiríks Sverrissonar sýslumanns.
Unnar Ingvarsson ritaði kynningartexta.
Heimildir
- ÞÍ. Borgarfjarðar- og Mýrasýsla B1/3-2.
- https://www.britannica.com/event/Revolutions-of-1830.
- https://www.britannica.com/event/November-Insurrection.
Hér að neðan er hægt að hlaða niður uppskrift af bréfi Bjarna Thorsteinssonar amtmanns.