Óskikkanleg klámyrði á 18. öld

Júní 2022

Óskikkanleg klámyrði á 18. öld

ÞÍ. Skjalasafn yfirréttarins. Dómabók 1708-1715.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum AM. 450 og 451, fol.
Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn Lbs. 21, fol.

„Siden begyndte vicelaugmanden at tale usömmelige og haanlige ord om det kvindelige kiön (ordene skammes vi vet at referere). Hvor til biskopen svarede: Vil I icke bere respect for mig og andre höbske ören, da ber dog respect for eders moder, og stod op fra bordet." [1]

Tilvitnunin að ofan er fengin úr vitnisburði Þorleifs Arasonar og Þorgils Sigurðssonar frá 7. september 1713 sem Jón Vídalín Skálholtsbiskup sendi með formlegri kvörtun sinni til konungs yfir Oddi Sigurðsyni, lögmanni og umboðsmanni stiftamtmannsins yfir Íslandi. Í kvörtuninni biður Jón Vídalín um vernd konungs gagnvart lögmanninum, þar sem hann geti ekki verið öruggur um líf sitt og limi, og óskar eftir hlutlausum dómara gegn ofríki hans. Þegar fjallað var um málið fyrir íslenskum rétti töluðu þeir Þorleifur og Þorgils um hin umtöluðu orð sem „ósæmileg klámyrði“ og „óskikkanleg klámyrði.“ [2]

Orðin lét Oddur falla í heimsókn Skálholtsbiskups á heimili Odds, Narfeyri á Snæfellsnesi, þann 6. september 1713. Þann sama dag reyndi Oddur í tvígang að slá biskupinn. Af heimsókninni spratt mikið dómsmál sem prentað er í heild sinni í Yfirréttinum á Íslandi II, sem gefinn er út í samstarfi Þjóðskjalasafns Íslands og Sögufélags. Um það bil 1/6 af þeim málsskjölum sem þar er prentaður snýr að þessari örlagaríku heimsókn biskupsins.

Jón Vídalín og fylgdarmenn hans festu frásögn sína af heimsókninni á blað samdægurs og þeir fóru frá Narfeyri en Oddur virðist ekki hafa haft veður af þessu máli fyrr en í byrjun júlí árið 1714. Þá bárust honum afrit af kvörtunum biskupsins gegn sér, bæði frá 18. ágúst og 7. september 1713. Á Alþingi sumarið 1714 ganga svo dómsstefnurnar milli biskups og lögmanns.

Ef eitthvað er að marka skrif Odds virðist honum hafa orðið mun meira um ásakanir biskups um klámyrðin frekar en kjaftshöggin. Í gagnstefnu hans frá 23. júlí 1714 stendur:

„Veleðla herra biskupinn magister Jón Þorláksson Vídalín sýndi mér ofanskrifað bréf og þar ég ekkert til man hvað passeraði á milli velnefnds herra biskupsins og mín í þeirri samkomu þá kann ég ekkert þar til að svara fyrr en mér í tíma það er auglýst. … Þessu næst læt ég yður vita að á móti báðum yðar áður áminnstum vottum: Þorleifi Arasyni og Þorgils Sigurðssyni mun eitthvað prætenderað verða svo þeir ei að lagavitnum móti mér verði. Sérdeilis í þeim sökum sem í heimahúsum hafa passerað og ég ekkert til man.“

Þann 22. september 1714 stefndi Oddur vitni biskupsins, Þorleifi Arasyni, fyrir Yfirréttinn:

„Fyrst til að forsvara og í allan máta sannan að gjöra þann af yður á móti mér heimuglega og mér óvitandi útgefna vitnisburð af dato Drápuhlíð 7. septembr. 1713 og sérdeilis að þér þá gjörið grein á þeim ósæmilegu honorðum [háðsyrðum] sem þér undirskrifað hafið að þér skömmuðust yður við að referera.“

Hálfu ári síðar, á Drangaþingi í febrúar 1715, virðist Oddur hafa komist formlega að því hverskonar klámyrði voru höfð eftir honum: … þar herra biskup Vídalín hefur fengið af þeim Þorleifi Arasyni og Þorgils Sigurðssyni að frambera nokkur hégómleg heimskuorð er þeir segja ég skrafað hafi d. 6ta Septembr. 1713 í heimahúsum á Narfeyri. Hver orð ég aldeilis ekki til man mig talað hafa. Hef og aldrei síðan inn til þess 23. Januarij þessa árs verið á þau minntur. En ef þau hafa skröfuð verið þá er auðráðið af orðunum að það hefur talað einn aldeilis víndrukkinn maður sem hefur verið þankalaus og frá sér svo sem kannske og verið hafi um eftirmiðdag þess 6ta Septembr. 1713.“

Vitni biskupsins höfðu lagt klámyrðin fyrir rétt á prestaþingi á Staðastað á Ölduhrygg þann 3. september 1714, að Oddi fjarverandi.

„Að síðustu framlagði hvor þeirra fyrir sig eitt skriflegt attest í hvörju specificeruð eru þau klámyrði lögmannsins Odds Sigurðssonar sem um getur í þeirra (vitnanna) hér fyrir réttinum útgefnum vitnisburðum og með því herra biskupinn vill ekki í þetta sinn prætendera að þau innfærast skuli í þenna vorn akt þá og einnig sýnist oss að vera contra verecundiam [gagnkvæmt velsæmi] að það sé gjört þá líst oss prófastinum hættulaust þó það í þetta sinn hjá líði en greindu attesti sé þó ekki þar fyrir forskotið ef nokkur viðkomandi vill upp á heimta.“

Þessi ósæmilegu og óskikkanlegu klámyrði er því ekki að finna í skjölum Yfirréttarins. Engu að síður má fá nokkra tilfinningu fyrir því hvernig þau gætu hafa verið með því að rýna í málsskjölin. Biskupinn og lögmaðurinn lögðu báðir fram langar lýsingar á heimsókninni afdrifaríku á Narfeyri og aðdraganda hennar þar sem þeir kepptust um að hafa gagnkvæmar móðganir orðrétt eftir hvor öðrum, auk ýmissa lýsinga á yfirdrifnum drykkjuskap. Lýsingum mannanna tveggja af atburðarásinni ber engan veginn saman en af þeim má þó í það minnsta draga ályktanir af því hvers konar orðbragð hafi þótt vandræðalegt afspurnar fyrir biskup og lögmann árið 1715, en þó ekki svo contra verecundiam að ekki mætti skrifa það niður fyrir rétti.

Oddur kvartaði undan því að sumarið 1713 hefði Jón Vídalín meðal annars móðgað sig á Þingvöllum með því að segja bæði: „Mikill skelmir ert þú,“ og „Þú hefur andskotann á höfðinu.“ Auk þess lagði hann fyrir réttinn skrautlega lýsingu á því hvernig biskupinn hefði gubbað á sig af hestbaki. Einnig lagði hann fram vitni að því að Jón Vídalín hefði sagt eftirfarandi um lögmennina Lauritz Gottrup og Jón Eyjólfsson meðan þeir voru að dómarastörfum í lögréttunni: „Ég vil langtum heldur skrafa við þig en þá skrattans hundsvottana upp í lögréttunni þarna.“

Drykkjarföngin sem Oddur trakteraði biskupinn og fylgdarlið hans með í heimsókninni haustið 1713 voru að hans sögn thee, gott öl og franskbrennivín. Ölið var sótt ofan í kjallara og á biskupinn að hafa sagt við mennina sem þjónuðu: „Descende igitur ad inferos“ [Farðu þá til helvítis] og „Þar skaltu jú snart hálsbrjóta þig niður.“ Oddur ásakaði biskupinn einnig um að hafa fleygt servíettum og mat þann 6. september og uppnefnt sig „„prinsinn á Eyri“ með víðara.“

Mesta kergju vakti þó löngun biskupsins til að gista í skrifstofu Odds: „Eður er það ei djarft gjört við húsbóndann þegar gesturinn bemegtar sig og inntekur það hús sem húsbóndinn hefur afsagt honum að ljá og gesturinn þar er innkominn ei vill burtu víkja í annað eins gott kamers eftir húsbóndans beiðni utan hann sé þaðan borinn eða dreginn nauðugur?“

Samkvæmt vitnum Odds áttu þeir meðal annars eftirfarandi samtal um þessa ósk biskupsins: „„Ég vil koma í kansellíið.“ Lögmaðurinn svaraði þá svoleiðis: „Minn herra biskup, gantið mig ei með þeirri stóru kansellíglósu.““

Frásögn Odds hverfist að mestu um kvöldið 5. september en í málssókn Jóns Vídalíns má lesa þessar ásakanir um það sem fram fór daginn eftir:

„Í bland annarra orða, er þeirra biskupsins og lögmannsins þar yfir borðum á milli fóru, talaði lögmann Oddur Sigurðsson svolátandi orðum til biskupsins: „Var það ekki satt að þú bölvaðir Biblíunni í eitt heilt ár þá Árni [Magnússon ] skipaði þér það. … Þar til svaraði biskupinn: „Það er lygi.“ Síðan stóð biskupinn upp og kvaðst ei ætla undir þvílíku tali lengur sitja og gekk undan borðum. Lögmaðurinn stóð og upp en móðir hans madame Sigríður bað hann að tala ekki svo við biskupinn. Hann svaraði: „Ég akta ekki fyrir að gefa hönum upp á flaben“ — og færðist nokkuð nær biskupinum, þótti mér líklegur að vilja ná til hans. Gekk ég þá á milli þeirra, spennti lögmann báðum höndum og færði hann upp að borðinu.“

Sigríður Hákonardóttir, móðir Odds, bar vopn á klæðin og biskup dvaldi áfram á Narfeyri eftir þessi samskipti. Um kvöldið sitja þau svo öll [3] að tali ásamt prestinum séra Jóni Jónssyni, presti á Breiðabólstað á Skagarströnd, þegar Oddur tekur aftur upp þráðinn þar sem frá var horfið. „„Það var illa að ég sló hann ekki upp á flaben og það var illa þið lofuðuð mér ekki að gefa hönum upp á flaben. Ég hefði haft placier af því að ég hefði mátt gefa hönum örfigen.“ Biskupinn kvað það skyldi hönum hafa dýrt orðið. Lögmaður kvað þar mundi hafa orðið að hlegið. Síðan hóf lögmaður að tala ósæmileg klámyrði.“ Að lokum gerði Oddur aðra tilraun til að slá biskupinn en séra Jón skakkaði leikinn og tók lögmanninn hryggspennu.

Erfitt er að fullyrða um hversu nákvæmar tilvitnanir í málsgögnum Jóns Vídalíns og Odds Sigurðssonar eru. Orðin í málssókn biskups eru skrifuð niður eftir minni daginn eftir, en frásögnin í málssókn lögmannsins er rituð meira en ári síðar. Einnig verður að hafa augljósan fjandskap mannanna tveggja í huga þegar stuðst er við þessar heimildir. Allt hefur þetta áhrif á getu okkar til að giska á eðli og umfang þessara ósegjanlegu klámyrða sem féllu á Narfeyri kvöldið 6. september 1713 og drógu annan eins dilk á eftir sér. En af þeim gögnum sem eru fyrir hendi má þó draga þá ályktun að lögmaðurinn hafi, á þessari stundu ofurölvunar og stjórnlausrar árásargirni, klæmst á íslensku með dönsku og frönsku ívafi. Fúkyrðastíl biskupsins má á hinn bóginn lýsa sem kjarnyrtri íslensku í bland við lærða latínu.

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir ritaði kynningartexta.

 

[1] Yfirrétturinn á Íslandi. Dómar og skjöl. II 1711 – 1715, Reykjavík 2021, bls. 255.

[2] Umfjöllun um mál Odds Sigurðssonar og Jóns Vídalín eru fengin úr bókinni: Yfirrétturinn á Íslandi II, bls. 250- 321. Bókin kom út árið 2022.

[3] Fyrir utan Odd, Sigríði Hákonardóttur, séra Jón Jónsson, Jón Vídalín, Þorgils Sigurðsson og Þorleif Arason voru viðstödd þau Steindór Helgason, Halldór Hallsson og Katrine Abrahamsdaatter sem urðu síðar vitni Odds í málinu.

Forsíða dómabókar yfirréttarins
Upphaf málarekstus fyrir yfirrétti
Jón Vídalín biskup