Messuskýrslur
ÞÍ. Bps. C VI, 12. Messuskýrslur 1915-1917.
Á 18. öld var prestum og próföstum gert að skyldu að senda biskupi skýrslur um hag fólks í hverju prestakalli og smám saman jókst þessi skýrslugerð. Nefna má skýrslur um fædda, fermda, gifta og dána, manntalsskýrslur og skýrslur um heyrnarlausa og blinda sem eru til frá mestallri 19. öldinni og geta komið að góðu gagni við lýðheilsurannsóknir.
Meðal þessara skýrslna voru messuskýrslur þar sem prestar gerðu grein fyrir messum og, sem er ekki síður forvitnilegt, messuföllum. Messuskýrslur eru varðveittar í gögnum frá biskupsembættinu frá árinu 1881 til 1992, raðað eftir árum, og prestar skila þeim enn til biskups þótt í nokkru öðru formi sé en fyrrum en frá 1. janúar 2010 eru þessar skýrslur færðar rafrænt.
Skýrslurnar virðast yfirleitt gerðar af mikilli samviskusemi og þær dýpka myndina af störfum presta, sem gátu verið talsvert umfangsmikil þótt sóknir væru snöggtum minni en tíðkast nú á dögum. Messuföllin geta fyllt upp í upplýsingar um veðurfar, en oft eru þau skýrð með því að veður hafi verið vont eða ófærð, eða fólk þurft að bjarga heyi. Göngur og réttir setja líka strik í reikninginn og stundum veikindi prests eða félagsmálavafstur hans. Loks má nefna að oft er hægt að finna vígsludag nýrrar kirkju í þessum gögnum.
Hér er skýrsla séra Bjarna Pálssonar í Steinnesi fyrir árið 1915, undirrituð 8. febrúar 1916. Á föstunni stafa messuföll af illviðri en um haustið falla þær niður vegna gangna og „haustannríkis.“ Þó tekst presti að vígja Undirfellskirkju 22. sunnudag eftir trinitatis (þrenningarhátíð) sem var 31. október. Og loks gefur hann skýringar á því að lítið hafi verið um altarisgöngur þetta ár því messuvín hafi skort í kaupstað.
Séra Þórarinn Þórarinsson á Valþjófsstað sendir skýrslu fyrir árið 1917, dagsetta 25. janúar 1918. Hann hafði ætlað að messa í Ási í Fellum á páskadag en messan féll niður vegna „grimmdarhríðar.“ Oftar setti veður strik í reikninginn en 12. ágúst, eða 10. sunnudag eftir trinitatis, varð messufall vegna íþróttamóts Austurlands og síðar um sumarið urðu messuföll þegar sóknarbörnin þurftu að bjarga heyjum sínum.
Jón Torfason ritaði kynningartexta.