Mánaland
Forsætisráðuneytið 1989. B/142-2
Síðla árs 1970 sendu bandarísk stjórnvöld geimfarana þrjá sem höfðu verið um borð í óhappafarinu Apollo 13 í kynnisferð um nokkur ríki Evrópu og var Ísland eitt þeirra landa sem þeir heimsóttu. Það var viðeigandi að þeir skyldu koma við hér á landi því Ísland hafði komið nokkuð við sögu í Apollo geimferðaáætluninni.
Um miðjan sjöunda áratuginn var Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) að undirbúa fyrstu mönnuðu geimferðina til tunglsins og var þjálfun geimfara lykilþáttur í því ferli. Starfsmenn stofnunarinnar leituðu því að stöðum hér á jörðinni sem ætla mætti að væru líkir tunglinu. Þeir töldu að mikill hluti yfirborðs þess væri úr blágrýti, einkum móbergi, og þar sem á Íslandi eru viðfemir móbergsflákar sem vegna ungs aldurs landsins hafa að mestu haldist í upprunalegu formi þá var landið valið sem æfingastaður. Fyrsti hópurinn frá NASA kom til Íslands fyrir hálfri öld, þ.e. í júlí 1965, og í honum voru geimfarar og jarðvísindamenn. Tengiliðir þeirra hér á landi voru jarðfræðingarnir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldason sem fóru með gestina að eldstöðinni Öskju og á svæði í nágrenni Krísuvíkur. Þar æfðu geimfararnir svokallaðan tunglleik en í honum áttu þeir að láta sem þeir væru staddir á fylgihnetti jarðar og gera ýmsar æfingar sem myndu nýtast þeim þar. Geimfararnir greindu m.a. jarðlög, æfðu sig í að vera einir í óbyggðum og þjálfuðu samskiptatækni sína. Í skýrslu frá NASA kemur fram að Íslandsfararnir hafi talið landið vera það æfingasvæði sem líkast væri tunglinu.
Annar hópur frá stofnuninni kom til Íslands tveimur árum síðar nánar tiltekið í júlí 1967 og var dagskrá þeirra svipuð og hjá fyrri hópnum. Sjö af þeim tólf mönnum sem gengið hafa um Mánann tóku þátt í þessum leiðöngrum. Þar á meðal voru Neil Armstrong sem steig fyrstur manna fæti á tunglið þann 20. júlí 1969 og Harrison Schmitt sem var annar tveggja geimfara sem ferðaðist um Mánann í Apollo 17 leiðangrinum árið 1972 en hann var síðasta tunglferð Bandaríkjamanna. Þess má geta að lokum að Schmitt, ásamt fleiri geimförum, er væntanlegur hingað til lands í þessum mánuði til að rifja upp tengsl Íslands við hina sögulegu geimferðaáætlun.
Kristinn Valdimarsson ritaði kynningartexta.
Heimildir
- „Appendix E. Geology Field Exercises: Early Training“. NASA. Sótt af: https://www.hq.nasa.gov-/alsj/ap-geotrips.pdf.
- Katharina Hauptmann. „Iceland´s Lunar Landscapes“. Wall Street International, 30. júní 2013. Sótt af: http://wsimag.com/science-and-technology/4012-icelands-lunar-landscapes.
- „NASA´S Moonwalking Apollo Astronauts: Where Are They Now?“. Space.com, 13. mars 2015. Sótt af: http://www.space.com/17317-nasa-apollo-moon-astronauts.html.
- Sherman, Barbara. „Houston, we have a problem“. Portland Tribune, 24. febrúar 2010. Sótt af: http://portlandtribune.com/component/content/article?id=25782.
- Sigurður Bogi Sævarsson. „Afkomendur Armstrongs til Íslands“. Morgunblaðið, 23. júní 2015, bls. 9.