Mæðiveiki í Dölum 1955
ÞÍ. Sauðfjársjúkdómanefnd 2001-B/33. Bréf innkomin 1955.
Á kreppuárunum upp úr 1930 var ýmislegt reynt til að styrkja innlenda atvinnuvegi, m.a. með eflingu iðnframleiðslu. Til að auka fjölbreytni í landbúnaði og styrkja hinar dreifðu byggðir var m.a. flutt inn karakúlfé árið 1933, en skinn af lömbunum er í miklum metum sem loðvara. Þessi innflutningur leiddi hins vegar til mikils ófarnaðar því með fénu barst hingað hin illræmda mæðiveiki sem herjaði á sauðfé landsmanna í meira en tvo áratugi.
Mæðiveikin breiddist fljótt um Suðurland, Vesturland og Norðurland en austanvert landið og Vestfirðir sluppu að mestu leyti. Veikin olli miklu afurðatjóni og þótti sýnt að lækning væri engin til. Var brugðist við með því að skipta landinu í hólf með miklum girðingum til að reyna að sporna við útbreiðslu veikinnar. Skipulögð fjárskipti hófust síðan árið 1944 með þeim hætti að öllu fé í tilteknu hólfi var lógað, landið haft fjárlaust í eitt til tvö ár en síðan flutt inn ósýkt lömb, sem komu að stærstum hluta af Vestfjörðum. Tóku fjárskiptin um tíu ár. Lætur nærri að um 300.000 fjár hafi verið lógað en um 200.000 lömb flutt úr ósýktum hólfum inn á fjárskiptasvæðin.
Dugði þessi aðferð að mestu leyti en menn höfðu ekki fulla vissu um hvernig veikin smitaðist eins og Sæmundur Friðriksson framkvæmdastjóri sauðfjárveikivarna lýsti: „Það sanna er, að allt er í óvissu um það, eftir hvaða leiðum veikin getur borist, en fjárskiptin eru raunar byggð á því, að sýking eigi sér ekki stað nema sjúkar kindur komi í náið samband við heilbrigðar. Enn sem komið er, benda fyrstu fjárskiptin, sem fram fóru fyrir 10 árum, til að það sé rétt, þótt aðrar óþekktar leiðir kunni að vera fyrir hendi.“[1]
Haustið 1954 varð vart þurramæði í Hvammssveit í Dalasýslu og í framhaldi af því var fé skoðað í flestum sveitum sýslunnar. Í apríl þá um veturinn fór trúnaðarmaður Sauðfjárveikivarna, Ágúst B. Jónsson á Hofi í Vatnsdal, um nokkra hreppa sýslunnar og skoðaði fé. Hér er skýrsla hans um rannsóknir á fé í Laxárdalshreppi í apríl 1955 og kemur þar m.a. fram að á Sámsstöðum væru nokkrar kindur grunsamlegar. Í fylgibréfi, þar sem hann ræðir um úrræði vegna sýkinnar, virðist hann telja fjárskipti eina örugga kostinn, einkum til að verja önnur fjárskiptahólf, en sumir bændir í vestustu hreppunum voru ekki ginnkeyptir fyrir slíku. Ágúst fer þó varlega í tillögum sínum.
Niðurstaðan varð sú að öllu fé í Dalahólfi var slátrað árin 1955 og 1956, alls um 15.000 fjár. Síðan kom þangað fé úr Ísafjarðarsýslum og var nokkrum erfiðleikum bundið að flytja það sökum illrar veðráttu, en það er önnur saga. Mátti segja að þar með væri lokið baráttunni við mæðiveikina þótt enn þann dag í dag sé fylgst vel með henni, svo og öðrum búfjársjúkdómum í landinu.
Jón Torfason ritaði kynningartexta.
__________________
- Sæmundur Friðriksson: Fjárskiptin. Árbók landbúnaðarins 1955, 98.
Heimildir
- ÞÍ. Sauðfjársjúkdómanefnd 2001-B/33. Bréf innkomin 1955.
- Sæmundur Friðriksson framkvæmdastjóri sauðfjárveikivarna skrifaði nær árlega skýrslur um framkvæmd fjárskiptanna í Árbók landbúnaðarins. Hér hefur einkum verið stuðst við skýrslur frá tveimur árum, þessar:
- Sæmundur Friðriksson: Fjárskiptin. Árbók landbúnaðarins 1955.
- Sæmundur Friðriksson: Sauðfjárveikivarnir og fjárskipti. Árbók landbúnaðarins 1957.