Líkræður og eftirmæli frá 17. og 18. öld
ÞÍ. 1925/2. Líkræður og eftirmæli frá 17. og 18. öld
Í Þjóðskjalasafni hefur um langt árabil verið varðveitt handrit í snjáðu bandi sem hefur að geyma líkræður og eftirmæli frá 17. og 18. öld. Samtals eru líkræðurnar og eftirmælin 10 að tölu og taka til 9 einstaklinga, sem létust á árabilinu 1679-1762. Handritið er í fjórðungsbroti (4to) á ríflega 600 þéttskrifuðum blaðsíðum. Á fremsta blað handritsins er skrifað:
Lýkpredikanir þessar eru bundnar að nýu árid 1845 í þeirri
von að þad mundi öllum gódum mönnum og þegnum kiærkomid
vera, enn einkum þeim sem girnast ad heira nýa kennimenn
tala; koma hér fram á skodunarplátsid nokkrir prestar ennar 18du
aldar, þó mind þeirra og raust vanti, géta menn þó fundid málbragd
og séd skrifhönd þeirra óbrjálada, þá mun gudsbörnum eirnig
þykia yndælt ad heira hvad eldri siskyni sín voru hlídin födur sínum.
Ekki þarf heldur ad óttast fyrri ad þeim þykir oflangrædt um gud sem
elska hann, og þó tvísögd væri af honum sama sagan mundu þeir ekki hafa
gleimt enum gamla ordhætti: Aldrei er góð Vísa of opt qvedin.
Jón Helgason (1866-1942) biskup, færði Þjóðskjalasafni handritið að gjöf árið 1925, og veitti góðvinur Jóns, dr. Hannes Þorsteinsson (1860-1935), þjóðskjalavörður, því móttöku. Því til staðfestingar færði Jón biskup eftirfarandi athugasemd á baksíðu fremsta blaðs handritsins:
Jón Helgason
Bók þessa gef ég hérmeð
Þjóðskjalasafni Íslands
Reykjavík 3/12 1925
Jón Helgason
Allir þeir einstaklingar sem líkræðurnar og eftimælin fjalla um, nema einn, eiga það sameiginlegt, að vera afkomendur Þorláks Skúlasonar (1597-1656) Hólabiskups. Sá eini sem er það ekki, er Björn Gíslason (1650-1679) sýslumaður í Bæ á Rauðasandi, en hann var mágur Þórðar Þorlákssonar (1637-1697) Skálholtsbiskups, en Þórður biskup var sonur Þorláks (sjá meðfylgjandi tengslamynd).
Á meðfylgjandi myndum má sjá yfirlit yfir einstaklingana, í þeirri röð sem þeir birtast í handritinu, og þann blaðsíðufjölda sem líkræðurnar og eftirmælin grípa yfir fyrir hvern og einn.
- Björn Þorleifsson (1663-1710) Hólabiskup, (80 bls).
- Þrúður Þorsteinsdóttir (1666-1738) biskupsfrú á Hólum, (42 bls).
- Þórður Þorláksson (1637-1697) Skálholtsbiskup, (131 bls).
- Brynjólfur Thorlacius Þórðarson (1681-1762) sýslumaður og bóndi á Hlíðarenda í Fljótshlíð, (53 bls).
- Jórunn Skúladóttir Thorlacius (1693-1761) húsfreyja á Hlíðarenda í Fljótshlíð, (37 bls).
- Skúli Brynjólfsson Thorlacius (1716-1736) stúdent, (79 bls).
- Björn Gíslason (1650-1679) sýslumaður í Bæ á Rauðasandi, (56 bls).
- Brynjólfur Sigurðsson (1708-1771) sýslumaður í Hjálmholti í Flóa, (89 bls).
- Guðríður Sigurðardóttir (1744-1763) jómfrú á Hlíðarenda í Fljótshlíð, (37 bls).
- Hjónaminning. Brynjólfur Thorlacius Þórðarson (1681-1762) sýslumaður og Jórunn Skúladóttir Thorlacius (1693-1761) húsfreyja á Hlíðarenda í Fljótshlíð, (15 bls).
Að meginparti, byggja líkræðurnar og eftirmælin á Guðsorðaprédikunum og tilvísunum í hinar ýmsu bækur biblíunnar. En inni á milli eru ævisögulegir þættir sem hafa að geyma persónusöguleg atriði og upplýsingar um hina látnu, sem fengur er af.
Gunnar Örn Hannesson ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta.
Heimildir
- ÞÍ. 1925/2. Líkræður og eftirmæli frá 17. og 18. öld.