Líkræða yfir beinum Reynistaðarbræðra

Janúar 2018

Líkræða yfir beinum Reynistaðarbræðra

ÞÍ. Reynistaðarklaustur í Skagafirði BC/1. Sóknarmannatal 1789-1792.

Margir þekkja frásagnir af Reynistaðarbræðrum sem urðu úti á Kili í vetrarbyrjun 1780 ásamt þremur förunautum sínum. Svipleg örlög þeirra hafa valdið mönnum heilabrotum æ síðan og um þau hafa margar sögur spunnist og þau orðið efniviður í kenningar og kvæði. Hér verða dregin saman í örstuttan texta helstu efnisatriði þessara frásagna.

Árin 1778-1779 var fé skorið niður í Skagafirði vegna fjárkláðans sem geisaði á Norðurlandi. Meðal annars var skorið niður hjá Halldóri Bjarnasyni Vídalín (um 1734-1800) klausturhaldara á Reynistað og konu hans, Ragnheiði Einarsdóttur (1742-1814). Halldór var dóttursonur Páls Vídalín lögmanns, sem tók saman jarðabókina ásamt Árna Magnússyni. Sumarið 1780 sendu hjónin ráðsmanninn Jón Austmann Þorvaldsson (um 1750-1780), mikið hreystimenni, suður á land til að kaupa fé í stað þess sem skorið var niður. Með honum sendu þau son þeirra, Bjarna. Hannes Pétursson, skáld, hefur leitt rök að því að Bjarni hafi þá verið 14 ára gamall. Síðar um sumarið sendu þau landseta sinn, Sigurð Þorsteinsson (um 1734-1780) á Daufá, suður sömu erinda og með honum annan son þeirra, Einar, þá 11-12 ára gamlan. Sagt er að hann hafi farið nauðugur.

Þegar þeir Sigurður og Einar hittu Jón Austmann og Bjarna fyrir sunnan höfðu þeir félagar keypt allmargt fé, aðallega í Skaftafellssýslu. Þeir urðu að bíða eftir fénu fram yfir réttir og urðu því seinir fyrir. Góðgjarnir menn þar syðra lögðu að þeim félögum að bíða með norðurferð og buðu þeim veturvist. Einnig mun hafa komið til tals að Bjarni Halldórsson færi á skóla í Skálholti. Af því varð þó ekki og Jón Austmann vildi alls ekki fresta norðurferðinni. Því lögðu þeir af stað úr Hreppum annan laugardag í vetri, 28. október, 1780. Í för með þeim var Guðmundur Daðason (um 1743-1780), prestssonur úr Reynisþingum, þannig að þeir voru fimm saman, bræðurnir Bjarni og Einar Halldórssynir, Jón Austmann, Sigurður frá Daufá og Guðmundur Daðason. Gísli Konráðsson sagnaritari skrifaði að veður hafi verið ískyggilegt þegar þeir héldu af stað og að brátt hafi gert snjóhríð mikla sem varði dögum saman í byggð, en lengur á fjöllum. Jón Eyþórsson veðurfræðingur greinir frá því, eftir að hafa gluggað í veðurbók Hannesar biskups Finnssonar, að vindur hafi verið suðaustanstæður með kvöldregni, en næstu daga hafi verið norðaustan átt og 2-3 stiga hiti. Jón telur þó ekki ósamræmi í þessum lýsingum þar sem það sé „vitanlega algengt að NA hríðar nái lítt til Suðurlands.“ Sagnir herma að þeir félagar hafi komist í Kjalhraun í þremur áföngum (Jón Eyþórsson) og tjaldað þar tveimur tjöldum. Eftir það eru sagnir óljósar um afdrif þeirra.

Þegar þau Reynistaðarhjón höfðu engar spurnir haft af sínum mönnum á jólaföstu, sendu þau tvo menn suður Kjöl að leita þeirra. Það voru þeir Jón Bjarnason (um 1710-1785) í Stóru-Gröf á Langholti, um sjötugt, kallaður Grafar-Jón, og Björn Illugason (1760-1856) vinnumaður á Reynistað, sem þá var um tvítugt. Komust þeir á 8 dögum suður í Hreppa og fréttu þá af norðurferð Reynistaðarbræðra og förunauta þeirra. Þótti mönnum þá líklegast að þeir hefðu orðið úti. Vorið 1781 fann Tómas Jónsson bóndi á Flugumýri ásamt fylgdarmönnum tjaldhrauk norðan við Kjalfell. Tómas og félagar hans þrír sóru síðar að þeir hefðu séð þrjú lík og hönd að auki. Var þá talið að það væru lík Bjarna, tveggja annarra og hönd Einars lita. Reynistaðarhjón brugðu skjótt við og sendu menn með fjórar líkkistur suður Kjalveg. Er þeir komu að tjaldinu voru þar einungis lík Sigurðar frá Daufá og Guðmundar Daðasonar. Frekari leitir voru gerðar þá um sumarið en eigi fundust fleiri lík. Þó fannst hestur Jóns Austmanns dauður við Þegjanda og síðar mannshönd, í Blöndugili, í bláum vettlingi með fangamarkinu JA.

Vitað var að þrír menn fóru norður Kjöl næst á eftir Tómasi og fylgdarmönnum hans. Það voru þeir Jón Egilsson (1720-1785) á Reykjum á Reykjaströnd, Sigurður (1758-1846) sonur hans, síðar hreppstjóri í Krossanesi, og Björn Illugason, sá er suður fór á jólaföstu með Grafar-Jóni. Grunur féll á þessa menn um að vera valdir að hvarfi líka þeirra bræðra og jafnvel að hafa rænt fjármunum í tjaldi þeirra. Af þeim sökum sóttu þau Reynistaðarhjón mál á hendur þeim. Málið var tekið fyrir í héraði og á Alþingi, en ekki þótti vera fyrir hendi lögfull sönnun á sekt mannanna. Sakborningum var dæmdur synjunareiður, sem aldrei var þó svarinn. Sigurður Ólason hæstaréttarlögmaður segir að synjunareiður hafi á þeim tíma verið „hið venjulega sýknunarform í slíkum málum“. Þau Reynistaðarhjón héldu því á fund feðra sinna án þess að vita gjörla um afdrif sona sinna og ráðsmanns.

Löngu síðar fundu grasakonur að sunnan bein þeirra bræðra, að því talið var. Sú fregn barst norður, en lengi efuðust menn um sannleiksgildi þeirra sagna. Loks fann Brynjólfur Brynjólfsson (1816-1872), frá Bjarnastaðahlíð í Vesturdal í Skagafirði, beinin við grasaleit. Svo virtist sem að þeim hafi verið hlaðið, grjóti og hellum. Beinin voru flutt að Reynistað, en þá bjuggu þar Ragnheiður Benediktsdóttir (1802-1871), bróðurdóttir þeirra Bjarna og Einars, og maður hennar, Einar Stefánsson (1807-1871), umboðsmaður. Þau fengu Jósef Skaftason (1802-1875) lækni á Hnausum í Vatnsdal í Húnavatnssýslu til að skoða beinin. Hann taldi þau vera af tvítugum manni og unglingi. Þótti mönnum þá afar sennilegt að þar myndu komin bein þeirra Reynistaðarbræðra. Ragnheiður og Einar létu smíða að þeim litla kistu og voru þau jarðsungin 11. nóvember 1846, að viðstöddum fáeinum ættingjum og nokkrum öðrum 66 árum eftir að þeir bræður mættu örlögum sínum á Kili. Halldór Jónsson (1810-1881) prestur og prófastur í Glaumbæ jarðsöng og er ræðan sem hann flutti yfir beinum þeirra Reynistaðarbræðra heimild þessa fyrsta mánaðar ársins 2018. Þá eru liðin 171 ár síðan ræðan var flutt og 237 ár frá andláti þeirra bræðra.

Af ræðu Halldórs Jónssonar prófasts eru til þrjú handrit. Fyrst er að nefna það handrit sem hér er kynnt, ritað með smárri fljótaskrift nálægt 1850 á að giska og komið til Landsskjalasafnsins (síðar Þjóðskjalasafnsins) í apríl 1913 frá Brynjólfi Jónssyni fræðimanni frá Minna-Núpi, en honum hafði verið send ræðan frá Íslendingi í Vesturheimi. Ræðan er bundin inn framan við sóknarmannatal Reynistaðarklausturs 1789-1792. Í annan stað er handrit Sighvats Grímssonar Borgfirðings, nr. 1332, Lbs. 1014, 4to, V., bls. 286-295 og hefur Sighvatur ritað þar ræðuna árið 1886 eftir handriti Jóns Borgfirðings lögregluþjóns í Reykjavík, sem hann sagðist hafa ritað eftir lélegu handriti 21. febrúar 1885. Þriðja handritið er á Landsbókasafni. nr. 3481, Lbs. 1101, 8vo, ritað um 1860, komið frá Sigurði Brandssyni hreppstjóra í Tröð í Hnappadal 24. maí 1897.

Benedikt Jónsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • Gísli Konráðsson, „Þáttur Grafar-Jóns og Staðarmanna“. Glóðafeykir. Skagfirzk fræði VI. Sögufélag Skagfirðinga 1945, bls. 45-86.
  • Guðmundur Jósafatsson, „Afdrif Jóns Austmanns. Fyrri hluti“. Tíminn. Sunnudagsblað. V. ár, 35. tbl. 25. september 1966, bls. 828-831.
  • Guðmundur Jósafatsson, „Afdrif Jóns Austmanns. Síðari hluti“. Tíminn. Sunnudagsblað. V. ár, 36. tbl. 2. október 1966, bls. 844-848.
  • Hannes Pétursson, „Staðarbræður. Athugasemdir við þátt Sigurðar Ólasonar um afgang þeirra 1780“. Lesbók Morgunblaðsins 45. árg., 44. tbl. 23. nóvember 1969, bls. 1-2 og 11-13.
  • Hannes Pétursson, „Aldur Reynistaðarbræðra“. Frá Ketubjörgum til Klaustra. Sögufélag Skagfirðinga, Sauðárkróki, 1990, bls. 176-181.
  • Jón Eyþórsson, „Reynistaðarbræður“. Fálkinn 10. árg., 50. tbl. 1937, bls. 4-5 og 7-8.
  • Ragnar Jóhannsson, „Hver fjarlægði lík Staðarbræðra? Tilgáta um glæp“. Skírnir 186. ár, vor 2012, bls. 167-192.
  • Sigurður Ólason, „Hvað gerðist á Kili 1780“. Lesbók Morgunblaðsins 45. árg., 39. tbl. 19. október 1969, bls. 1-3 og 12.
  • Sigurður Ólason, „Í klettaskoru krepptir liggjum við báðir“. Lesbók Morgunblaðsins 45. árg., 40. tbl. 26. október 1969, bls. 6-7 og 12-13.

Uppskrift ræðunnar má sækja með því að smella á tengilinn hér að neðan. Ræðan er tekin úr Skagfirzkum fræðum VI, bls. 119-127, sjá heimildaskrá. Þar er hún prentuð eftir handriti Brynjólfs Jónssonar, sem getið er um hér að ofan.

Ræða Halldórs Jónssonar prófasts 11. nóvember 1846.
Ræða Halldórs Jónssonar prófasts 11. nóvember 1846.
Ræða Halldórs Jónssonar prófasts 11. nóvember 1846.
Ræða Halldórs Jónssonar prófasts 11. nóvember 1846.
Ræða Halldórs Jónssonar prófasts 11. nóvember 1846.
Ræða Halldórs Jónssonar prófasts 11. nóvember 1846.
Ræða Halldórs Jónssonar prófasts 11. nóvember 1846.
Ræða Halldórs Jónssonar prófasts 11. nóvember 1846.
Ræða Halldórs Jónssonar prófasts 11. nóvember 1846.
Ræða Halldórs Jónssonar prófasts 11. nóvember 1846.
Ræða Halldórs Jónssonar prófasts 11. nóvember 1846.