Landsleikur Íslendinga og Englendinga árið 1961
ÞÍ. Sendiráð Íslands í London 1990 - B/435, örk 3. Heimsókn Ísl. knattspyrnuflokka til Bretlands.
Íslendingar unnu frækinn sigur á Englendingum í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu í Frakklandi mánudaginn 27. júní 2016. Leikurinn fór fram í Nice frammi fyrir um 35 þúsund áhorfendum, þar á meðal þúsundum íslenskra áhorfenda. Íslenskir fjölmiðlar líta á sigurinn sem eitt stærsta afrek íslenskrar íþróttasögu. Gary Lineker, knattspyrnusérfræðingur BBC og fyrrum landsliðsmaður Englendinga, segir tapið það versta í knattspyrnusögu Englands.
Fyrsti leikur Íslendinga og áhugamannalandsliðs Englendinga fór fram á Melavelli í Reykjavík 7. ágúst 1956. Englendingar byrjuðu betur og hægri innherjinn, Bates, skoraði fyrsta mark þeirra á 15. mínútu leiksins. Síðan jafnaðist leikurinn þegar Þórður Jónsson skoraði fyrir Ísland eftir sendingu frá Ríkharði Jónssyni á 37. mínútu leiksins. Á 50. mínútu bætti Ríkharður við öðru marki Íslands, en mínútu síðar jöfnuðu Englendingar í 2:2. Á 80. mínútu skoruðu Englendingar svo sigurmarkið og leiknum lauk 3:2.
Haustið 1961 fór íslenska landsliðið í keppnisferð til Englands. Liðið hélt til London fimmtudaginn 14. september og gisti á Windsor Hotel við Lancaster Gate. Daginn eftir var æfing á velli Queens Park Rangers og á laugardeginum fór fram annar landsleikur Íslendinga gegn áhugamannalandsliði Englands á Loakes Park, High Wycombe í Buckinghamskíri, sem var heimavöllur áhugamannaliðsins Wycombe Wanderers F.C. Þetta var 31. landsleikur íslenska landsliðsins og sá 14. sem fór fram erlendis. Fyrir leikinn höfðu Íslendingar unnið 6 landsleiki en tapað 23.
Í skjalasafni sendiráðsins í London frá þessum tíma, sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni, má m.a. sjá bréfaskipti enska knattspyrnusambandsins og íslenska sendiráðsins í London vegna heimsóknar íslensku landsliðsmannanna. Þar er einnig vönduð leikskrá með ýmsum upplýsingum, þar á meðal liðskipan beggja liðanna og myndir af íslensku leikmönnunum. Sendiherra Íslands, Henrik Sveinsson Björnsson (1914-1985), horfði á landsleikinn 16. september, en hafði ekki tök á að sjá hina tvo leiki liðsins.
Fyrir leikinn taldi Morgunblaðið að möguleikar Íslands fælust helst í því „að liðið nái saman þegar í upphafi“ þar sem í því væru góðir einstaklingar, en „oftar en ekki hefur skort upp á samvinnuna.“ Í leikjagrunni KSÍ má sjá hvaða leikmenn skipuðu íslenska landsliðið.
Á leikdegi var sólskin í Lundúnum og nokkur gola en hiti mjög mikill. Milli fjögur og fimm þúsund áhorfendur mættu á leikinnn og urðu fyrir nokkrum vonbrigðum því leikurinn þótti „fremur leiðinlegur og daufur lengstum“ greinir Morgunblaðið frá. Englendingar náðu undirtökum strax í byrjun og á 8. mínútu leiksins skoraði R. H. Brown, leikmaður Fulham, eina mark leiksins.
Enskum og íslenskum blöðum ber nokkuð saman um að í heild hafi Íslendingar átt meira í leikum. „Íslendingar hefðu átt að sigra.“ segir í fyrirsögn á íþróttasíðu Vísis. Fréttaritari Morgunblaðsins í London sendi blaðinu umsagnir um leikinn úr enskum blöðum. BBC taldi Íslendinga hafa haft yfirtökin en að þeim hafi tekist illa að nýta færin sín. Evening News áleit Ellert Schram vera hættulegasta leikmann íslenska liðsins og hrósaði einnig Þórólfi Beck fyrir „uppbyggingu leiks.“ Frá sjónarhóli Sunday Express var íslenska liðið mun ákveðnara en það enska, en „eyðilagði sjálft sín góðu tækifæri.“ Ýmsir töldu skotmenn skorta í íslenska liðið, en vörnina nokkuð góða. Björgvin Schram, formaður KSÍ, var þó ánægður með sína menn og taldi ósigurinn óheppni. Ensku blöðunum þótti leikur enska liðsins afar slakur og töldu víst að einhverjir leikmenn þess yrðu að taka pokann sinn í framhaldinu.
Eftir leikinn þáðu leikmenn boð enska knattspyrnusambandsins á The Bull Hotel. Morguninn eftir var Íslendingunum boðið í útsýnisferð um London. Á mánudeginum keppti íslenska liðið við úrvalslið Isthmian League á Wimbledon leikvanginum og tapaði þeim leik 4:0. Á fimmtudeginum 21. september lék liðið sinn þriðja og síðasta leik í ferðinni við úrvalslið Athenian League á leikvelli Hendon F.C. og lauk þeim leik með jafntefli 4:4.
Sunnudaginn 24. september 1961 héldu Íslendingarnir heim eftir tíu daga viðburðaríka keppnisferð til heimsborgarinnar London með tvo ósigra og eitt jafntefli á afrekaskránni.
Benedikt Jónsson ritaði kynningartexta.
Heimildir
- ÞÍ. Sendiráð Íslands í London 1990 - B/435, örk 3. Heimsókn Ísl. knattspyrnuflokka til Bretlands.
- Morgunblaðið, 16. september 1961, bls. 22.
- Morgunblaðið, 17. september 1961, bls. 22.
- Vefur KSÍ, leikjagrunnur.
- Vísir, 18. september 1961, bls. 2.
- Vísir, 23. september 1961, bls. 2.
- Þjóðviljinn, 16. september 1961, bls. 9.