Íslenskur ógæfumaður í Kaupmannahöfn 1785

Janúar 2014

Íslenskur ógæfumaður í Kaupmannahöfn 1785

Heimildir eru um að í Kaupmannahöfn hafi árið 1785 verið að finna 197 Íslendinga að fráteknum lærðum. Með lærðum er væntanlega átt við þá sem skráðir voru í háskólann eða aðra opinbera skóla eins og t.d. listaháskólann. Inni í tölunni voru hins vegar sjö meistarar, þar er líkast til átt við iðnmeistara, eins og Sigurð Þorsteinsson gullsmið og Jón Sigurðsson úrsmið, og þá að sjálfsögðu einnig iðnnema. Einn af þessum 197 Íslendingum hefur líkast til verið hinn illa til reika Jón Pálsson sem kemur við sögu í eftirfarandi bréfi.

Þann 27. október 1785 barst stjórn Konungsverslunarinnar síðari (Den kongelige Grønlandske, Islandske, Finmarske og Færøske handel) bréf frá P.J. Manøe yfirskipstjóra verslunarinnar á Íslandsmiðum. Þar greindi Manøe frá hörmulegum aðstæðum Jóns Pálssonar frá Gamla-Hrauni við Eyrarbakka sem hann segir vera snauðan, klæðlausan og heilsuveilan. Hann líti hörmulega illa út, sé gulleitur auk þess sem hann hafi frá fæðingu verið bæklaður á fæti og þ.a.l. óvinnufær. Manøe segir að Jón hafi verið í Kaupmannahöfn í nokkur ár og geti ekki séð sér farborða en hann fái matgjafir hjá skipum verslunarfélagsins við upp- og útskipun þeirra. Verst sé þó að hann eigi í engin hús að venda en hann haldi sig um nætur í ónotuðum, botnlausum farkostum eða í bátum á athafnasvæði verslunarinnar á Kristjánshöfn. Þá um morguninn hafi jústitsráð Carl Pontoppidan, framkvæmdarstjóri verslunarinnar, sent Jón til að liggja undir grænlenskri slúffu með mottu til þess að breiða yfir sig. Næturverðirnir óttist einnig að hann muni deyja úr kulda og vesöld þegar hann feli sig á svæðinu að nóttu til, auk þess sem hætta sé á að varðhundar þeirra muni bana honum í myrkrinu. Manøe segir að það sé af djúpri meðaumkun vegna ástands þessa vesæla manns að hann fari fram á það við stjórn verslunarfélagsins að hún komi Jóni til bjargar. Hún gæti jafnframt með fulltingi rentukammers komið honum inn á spítala, sjúkrahús flotans eða á annan stað þar sem hægt væri að bjarga lífi hans því að óbreyttu eigi hann tæpast marga daga eftir ólifaða.

Bréfið barst stjórninni sama dag og það var skrifað og síðasta dag októbermánaðar tilkynnti hún rentukammeri um málið. Þar greinir hún frá brjóstumkennanlegu ástandi Jóns með sama hætti og Manøe gerir en orðar það reyndar þannig að hann betli mat frá skipum félagsins. Stjórnin segir að strax og henni varð kunnugt um ástand Jóns hafi hún gefið honum fimm ríkisdali úr fátækrasjóði félagsins. Verslunarfélaginu hafi hins vegar ekki tekist að koma honum inn á neina opinbera stofnun þar sem hann geti notið varanlegrar aðhlynningar. Því fer stjórn þess fram á það við rentukammerið að það taki að sér þessa yfirgefnu manneskju og sjái henni farborða. Loks getur stjórnin þess að Jón hafi fyrrum dvalið stutta stund í betrunarhúsinu (Børnehuset) en viti ekki af hvaða tilefni. Undir bréfið skrifa stjórnarmennirnir J.L. Frinch, C. Pontoppidan og F. Martini.

Umrætt betrunarhús var á Kristjánshöfn en þangað inn voru settir til líkamlegrar vinnu bæði þeir sem höfðu framið alvarlega glæpi auk þeirra sem höfðu framið léttvægari afbrot, svo sem þjófar, lausgirt kvenfólk og betlarar. En þessir tveir hópar voru aðskildir innan múrveggjanna. Jón hefur vafalaust verið settur þangað inn fyrir smáþjófnað eða betl. Í bréfi Manøes kemur fram að Jón hafi verið í Kaupmannahöfn í nokkur ár en sjá má í bréfabók stiftamtmanns að hann fékk reisupassa til að ferðast þangað 15. ágúst 1780 og hafði því verið í borginni um fimm ára skeið.

Bjarni Jónsson Holmer gaf Halli Þorkelssyni, síðar kaupmanni í Grundarfirði, vitnisburð sem er dagsettur 2. janúar 1788 í Kristjánshöfn. Þar kemur fram að Hallur hafi leigt hjá honum undanfarna fjóra vetur en það sem meira varðar þá getur Bjarni þess að hann starfi sem næturvörður hjá Konungsversluninni. Hann hefur því væntanlega þurft að hafa afskipti af Jóni og óttast að varðhundarnir kynnu að vinna honum mein.

Ekki er ljóst hvað rentukammerið tók til bragðs né hver örlög Jóns urðu en líkast til hefur hann verið sendur heim á fæðingarhrepp sinn með vorskipum hafi hann ekki geispað golunni eins og Manøe virðist telja að muni liggja fyrir honum fái hann ekki umbeðna aðstoð. Það liggur ekki annað með þessum skjölum sem varpað gæti ljósi á afgreiðslu rentukammers en stakt blað sem á stendur: „Bendix Gudmandsen i KruseMyntegade N° 19 3 Devision 2 Comp.“ Þetta er sjálfsagt Íslendingur sem gegnt hefur herþjónustu í Kaupmannahöfn og tengst Jóni með einhverjum ókunnum hætti.

Jón hefur líkast til verið sonur Páls Björnssonar (f. 1731) sem var ábúandi á Gamla-Hrauni 1767–1807 og konu hans Sigríðar Jónsdóttur. Í ábúendatali kemur fram að þau hafi átt þrjú börn; Jón smið sem fékk vegabréf til Kaupmannahafnar árið 1792, Elís og Björn. Það verður að teljast ólíklegt að þetta sé sami Jón Pálsson og var úti í Kaupmannahöfn árin 1780–1785 því sá var sagður óvinnufær vegna meðfæddrar bæklunar á fótlegg. Þetta er því væntanlega bróðir hans og alnafni en það að Jóns Pálssonar eldra sé ekki getið á meðal barna foreldra sinna kann að benda til þess að hann hafi borið beinin úti í Kaupmannahöfn. Hafi svo verið raunin þá hefur Jón tæpast fengið þá hjálp sem óskað hafði verið eftir og með örlögum hans sannast orð annars Íslendings sem hann lét falla um eigin aðstæður rúmlega 20 árum áður. Þetta var Árni Magnússon, hermaður frá Geitastekk (nú Bjarmalandi) í Dalasýslu, en hann sagði: „[...] í Kaupinhöfn kann enginn öðrum hjálpa, hver hefur nokkuð (nóg) með sig sjálfan.“

Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • ÞÍ. Skjalasafn rentukammers B11/14, örk 1: Vitnisburður Bjarna J. Holmer um Hall Þorkelsson, dagsettur í Kristjánshöfn 2. janúar 1788. (Islands journal 7, nr. 1130.) [Eldra skjalamark: 42. 14.].
  • ÞÍ. Skjalasafn stiftamtmanns I, 17. Stiftamts- og suðuramtsbréfabók L.A. Thodals 1780–1781, bls. 173: Reisupassi Bjarna Jónssonar Holmer úr Rangárvallasýslu, auk konu og tveggja barna frá 9. ágúst 1780; bls 184. Reisupassi Jóns Pálssonar úr Árnessýslu frá 15. ágúst 1780.
  • Ferðasaga Árna Magnússonar frá Geitastekk 1753–1797. Samin af honum sjálfum. Björn K. Þórólfsson bjó til prentunar. Reykjavík 1945, bls. 115.
  • Gísli Baldur Róbertsson, „En optælling af islændinge i København 1785 – et tabt dokument?“, Nordisk arkivnyt 55:3 (2010), bls. 154–155.
  • Guðni Jónsson, Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka. Reykjavík 1958, bls. 55–56.
  • Jonges, Nicolai, Københavns beskrivelse. Den hidtil utrykte part, indeholdende Rosenborg, Købmager og Øster kvarter samt de nyere dele af staden. København 1945, bls. 446–449, 460–464.
  • Jón Helgason, Íslendingar í Danmörku fyr og síðar. Með 148 mannamyndum. Reykjavík 1931, bls. 156–159.
  • Sigfús Haukur Andrésson, Verzlunarsaga Íslands 1774–1807. Upphaf fríhöndlunar og almenna bænarskráin I. Reykjavík 1988, bls. 61–62, 68.

 

Uppskriftir af bréfunum um Jón Pálsson eru hér að neðan (PDF, 16 KB).

Bréf P.J. Manøe yfirskipstjóra
Bréf stjórnar Konungsverslunarinnar síðari
Að mestu autt blað sem liggur með málinu
Utanáskrift