Himnabréf á Húsavíkurþingi 1724
ÞÍ. Skjalasafn amtmanns I, 4. Bréfabók Niels Fuhrmann 1724-1728, bls. 87-89 (bl. 68r-69r).
Á manntalsþingi á Húsavík, 20. júní 1724, kom séra Magnús Einarsson (um 1675-1728) fyrir réttinn og lagði fram lítinn strigapoka. Í honum var skinnbudda sem presturinn hafði tekið af sjúkum manni, Sveini Árnasyni að nafni, síðastliðið vor þegar hann hafði veitt honum heilaga aflausn og kvöldmáltíðarsakramenti. Það þýðir að Sveinn hafi verið svo veikur að hann hafi verið þjónustaður, þ.e. búinn undir andlátið af sóknarpresti sínum. Presturinn gerði þessar eigur Sveins upptækar sökum innihaldsins sem hann taldi skaðlegt sáluhjálp hans og kynni að orsaka vantrú. Skinnbuddan var opnuð þar í réttinum og í ljós komu tvö bréf með "oveniulegumm Characteribus utrissud" en hið þriðja var "utskrifft af Himnabrefe so kolludu aa Halft ark i folio odrumeigen". Menn hafa kannast við rithendurnar á blöðunum en í dóma- og þingbókinni segir:
[...] annad af þeim brefumm sem med okiendumm Characteribus er skrifad synest ad vera med þeckianlegre hende Þorvalldz Magnussonar nu verande til hejmiliss i Skagafiardar Syslu aa Vijdevollumm, annad synest nærre ganga hende Olafs heit. Biarnasonar sem biö aa Sandholumm. Þad þridia / Himnabrefed / so kallad / er ad sia nijlega skrifad og uppastendur vicelogmadurenn ad hans mejning sie ad þad sama skrifad hafe Sigurdur Svejnungason i Skogumm nordur og stande þvj til hans andsvara umm þad efne þar hann sie nu ej sialfur til vidurmæliss og nalægur.
Loks segir að varalögmaður (vicelögmaður), þ.e. Benedikt Þorsteinsson (1688-1733) sem jafnframt gegndi embætti sýslumanns í Þingeyjarsýslu, taki bréfin þrjú og umbúðir þeirra í sína vörslu til frekari rannsóknar og aðgerða í málinu.
Bréfin tvö, sem sögð voru með óvenjulegum og ókenndum characteribus, hafa innihaldið einhvers konar galdur, líkast til varnargaldur. Himnabréfið var hins vegar verndarbréf sem menn báru á sér til að verja sig frá illu. Í Sjávarborgarannál Þorláks Markússonar (1692-1736) eru fyrstu kynni Íslendinga af himnabréfum færð nákvæmlega til ársins 1648:
Á því sumri kom út með dönskum (sumstaðar í höfnum) stílsett bréf nokkurs konar fáheyrt, skrifað frá Mechelborg í Þýzkalandi undir nafni Jesú Christi, guðs sonar, þar eð í því stóð, að hann það sjálfur með sinni guðdómshendi skrifað hefði og boðið að halda og hefði það innsent í staðinn árinu fyrir, 1647, fyrir sinn engil Michael. Það skyldi hanga þar á lofti í borginni, en á hverju vissu menn ekki, með forgylltum bókstöfum skrifað og fyrir þeim það vilja lesa eður eftir því skrifa upplyki það sér, en víki frá hinum, er til þess vildu taka eður burtgrípa, svo sem það bréf sjálft glögglegast hermir etc.
Þessi annálsgrein er líkast til heimild Jóns Espólín (1769-1836) sýslumanns og sagnaritara en hann segir í árbókum sínum við árið 1648: "Bréf eitt var þá borit til Islands, er nockrir höfdu logit upp til at auka hjátrú, þat átti at vera géfit út af Christo sjálfum af himni, med mörgum hégómlegum atvikum, og hefir þat hjá sumum mönnum geymst framm á vora daga."
Því miður hefur umrætt himnabréf ekki varðveist en til er fjöldi slíkra bréfa í afritum í handritasafni Landsbókasafns-Háskólabókasafns og Árnastofnun. Af svipuðum toga eru kveisublöð en eitt slíkt, skrifað um 1600, hefur varðveist en það var gert upptækt og endaði í skjalasafni Hólabiskups. Það er nú í handritasafni Landsbókasafns-Háskólabókasafns vegna einkennilegrar safnapólitíkur í upphafi 20. aldar þegar opinber skjalagögn í Landsbókasafni voru afhent Þjóðskjalasafni en þá má segja að fram hafi farið nokkurs konar fangaskipti.
Þeir menn, sem voru taldir hafa skrifað bréfin, hljóta allir að hafa verið vanir skrifarar fyrst menn þekktu rithendur þeirra. Þorvaldur Magnússon (1670-1740) var sonur séra Magnúsar Illugasonar á Húsavík og Ólafar Þorvaldsdóttur konu hans. Samkvæmt manntalinu 1703 var hann þénari hjá foreldrum sínum og sagður vanheill. Þorvaldur hefur verið þekktastur þremenninganna enda var hann skáld en eftir hann hefur varðveist talsvert af kveðskap og þar af nokkrar rímur. Hinir voru minna þekktir en Ólafur Bjarnason (f. 1647) bjó á Ytri-Sandhólum í Húsavíkurhreppi og Sigurður Sveinungason (f. 1693) var hjá foreldrum sínum á Skógum í Skinnastaðahreppi árið 1703 er manntalið var tekið. Hinn sjúki Sveinn Árnason (1683-1724) var hins vegar sagður þénari Björns Jónssonar hreppstjóra á Ísólfsstöðum í Húsavíkurhreppi í manntalinu.
Fyrrnefnd dóma- og þingbók Þingeyjarsýslu, sem spannar árin 1719-1724, er ekki varðveitt á Þjóðskjalasafni því hana er að finna í British Library undir safnmarkinu BL Add. 11096. Hér hefur því verið notast við míkrófilmu af Landsbókasafni-Háskólabókasafni. Skjalabókin rataði inn á Þjóðbókasafn Bretlands með handritasafni Finns Magnússonar (1781-1847) leyndarskjalavarðar í Kaupmannahöfn en þangað seldi hann safn sitt árið 1837.
Næsta dóma- og þingbók Þingeyjarsýslu á Þjóðskjalasafni hefst árið 1735 þannig að þar er ekki að finna lyktir þessa máls. Hins vegar er skjal varðveitt í bréfabók amtmanns þar sem minnst er á málið. Það er bréf sem Benedikt sýslumaður skrifaði amtmanni á Þingvöllum 22. júlí 1724 um nokkur mál sem komið höfðu upp í sýslu hans. Þar er m.a. minnst á ofangreint mál og spyr sýslumaður amtmann hvort hann eigi ekki að kalla Þorvald fyrir sig í Þingeyjarsýslu þó að hann haldi sig nú í Skagafjarðarsýslu. Þá fengi hann tækifæri til annað hvort að viðurkenna að hafa skrifað umrætt blað eða fría sig frá því með eiði. Amtmaður hefur látið færa bréf Benedikts inn í bréfabók sína og er svar hans við hverjum lið bréfsins skrifað inn samsíða því en það er dagsett 25. júlí 1724 á Þingvöllum. Því miður hefur bréfabókin einhvern tíma á næstum 300 ára ævi sinni lent í vatnsskaða en gert hefur verið við hana eftir að hún barst Þjóðskjalasafni. Þetta veldur því hins vegar að svar amtmanns, sem er aðeins örfá orð, er illt aflestrar og erfitt að geta í eyðurnar.
Engu að síður virðist mega álykta að Sigurður Sveinungason hafi náð að sannfæra sýslumann um að hönd sín væri ekki á himnabréfinu. Þar sem Ólafur Bjarnason var látinn var aðeins eftir að hafa uppi á Þorvaldi. Hann var sagður til heimilis á Víðivöllum í Blönduhlíð (og var þar enn 1729) en þar bjó Þrúður Þorsteinsdóttir biskupsekkja (1666-1738) á árunum 1712-1730. Í Rímnatali Finns Sigmundssonar landsbókavarðar segir um skáldið: "Þorvaldur var einhleypur alla ævi, lítt hneigður til vinnu, en fékkst löngum við skáldskap, dvaldist hér og þar, helzt hjá heldri mönnum, og orti þá gjarna fyrir þá." Hugsanlega hefur Þorvaldur ort fyrir Þrúði en hún hafði áhuga á kveðskap og sögum og hafði Árni Magnússon handritasafnari t.d. uppi á Mábiljarrímum fyrir hana með talsverðri fyrirhöfn í byrjun 18. aldar. Þetta mál kom ekki fyrir alþingi og því má ætla að Þorvaldur hafi sloppið nokkuð auðveldlega frá því. Benedikt sýslumaður kunni a.m.k. að meta skáldskap hans því að í bréfi til Árna Magnússonar, frá 7. október 1729, segist hann ætla að senda honum rímu af Þórði hreðu eftir Þorvald hafi hann tök á að láta afrita hana.
Gísli Baldur Róbertsson ritaði kynningartexta og skrifaði upp texta skjalanna.
Heimildir
- ÞÍ. Skjalasafn amtmanns I, 4. Bréfabók Niels Fuhrmann 1724-1728, bls. 87-89 (bl. 68r-69r).
- BL Add. 11096. Dóma- og þingbók Benedikts Þorsteinssonar 1719-1724, bl. 269r-272v. (Landsbókasafn-Háskólabókasafn, handritasafn. Mikrófilma af BL Add. 11096.)
- Annálar 1400-1800 IV. Reykjavík 1940-1948, bls. 284-285.
- Arne Magnussons private brevveksling. København 1920, bls. 303, 308, 579, 581, 583, 586-587 og 630.
- Hjalti Pálsson, Byggðasaga Skagafjarðar IV. Akrahreppur. Sauðárkrókur 2007, bls. 324.
- Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940 III. Tínt hefir saman Páll Eggert Ólason. Reykjavík 1950, bls. 415.
- Jón Espólín, Íslands Árbækur í sögu-formi VI. Kaupmannahöfn 1827, bls. 127.
- Jón Helgason, „Íslenzk handrit í British Museum“, Ritgerðakorn og ræðustúfar. Reykjavík 1959, bls. 112-114.
- Jón Aðalsteinn Jónsson, „Himnabréf ömmu minnar Guðrúnar Ólafsdóttur frá Eystri-Lyngum í Meðallandi“, Ritmennt 10 (2005), bls. 18-48.
- Magnús Már Lárusson, „Eitt gamalt kveisublað“, Árbók hins íslenzka fornleifafélags 51 (1952), bls. 81-90.
- Manntal á Íslandi árið 1703 tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Ásamt manntali 1729 í þrem sýslum. Reykjavík 1924-1947, bls. 366-367 og 371.
- Rímnatal II. Finnur Sigmundsson tók saman. Reykjavík 1966, bls. 150.
Hér að neðan er uppskrift úr bréfabók Fuhrmanns amtmanns 1724-1728 og þingbók Benedikts Þorsteinssonar 1719–1724 (PDF, 173 KB).