Fyrstu bæjarstjórnarkosningar Akureyrar 1863 verða sögulegar
ÞÍ. Skjalasafn sýslumannsins í Eyjafjarðasýslu. O/7–3 (kjörskrár Akureyrar 1862).
Akureyri fékk kaupstaðaréttindi með lögum þann 28. ágúst 1862 og voru fyrstu bæjarstjórnarkosningarnar haldnar 31. mars 1863. Þeir sem kosningarétt höfðu samkvæmt áðurgreindum lögum voru: „allir fullmyndugir menn, sem ekki eru öðrum háðir sem hjú, og hafa verið búfastir í kaupstaðnum síðasta árið, þegar þeir að minnsta kosti borga 2 ríkisdali í bæjargjöld á ári.“ Undanskildir voru þó þeir sem höfðu gerst sekir um alvarleg brot.[1] Heimild mánaðarins er listi yfir þá sem uppfylltu þessi skilyrði þegar kjósa átti í fyrstu bæjarstjórn Akureyrar. Þar efst á blaði er nafn maddömu Vilhelmínu Lever, en talið er þetta hafi verið í fyrsta sinn sem kona kaus í opinberum kosningum.
Árið 1882 fengu ógiftar konur og ekkjur 25 ára og eldri sem „stóðu fyrir búi, eða á einhvern hátt eiga með sig sjálfar“ formlega kosningarétt í sýslunefndir, hreppsnefndir, bæjarstjórnir og safnaðarfundum með lögum.[2] Vilhelmína gat hins vegar kosið í bæjarstjórnar-kosningunum 20 árum fyrr vegna þýðingar á danska orðinu mænd yfir í menn í áðurgreindum kosningarlögum. Í lagalegum skilningi þýddi orðið maður bæði kona og karl.[3]
Vilhelmína Lever (1. mars 1802 - 19. júní 1879) rak árið 1862 verslun og veitingasölu á Akureyri og hafði gert það með hléum síðan 1835. Veitingasalan var kölluð Vertshús-Mína og þar var boðið uppá smurt brauð og kaffi. Ekki var hún ókunnug slíkum rekstri, en faðir hennar hafði verið kaupmaður á Reyðarfirði, Eskifirði og á Akureyri. Vilhelmína hafði giftst Þórði Daníelssyni frá Skipalóni en þau skildu árið 1824. Hún eignaðist barn með stýrimanni frá Kaupmannahöfn Mads Christiansen árið 1833 og hún nefndi barnið Hans Vilhelm Lever. Vilhelmína var því fráskilin kona sem rak verslun og átti í þokkabót barn í lausaleik.[4]
Um Vilhelmínu er getið í ættartölubókum Jóns Espólín en þar segir:
Þórður átti dóttur Levers höndlara á Akureyri [...] Vilhelmínu. Hún tók fram hjá og skildi við hann. Þórður giftist aftur utanlands en Vilhelmína hafði höndlun á Akureyri drifinn og svarkur mesti, en þjónustuviljug við ýmsa karlmenn svo brögð voru að.[5]
Samkvæmt Jóni Espólín virðist Vilhemína hafa verið undirförult skass. Samferðamenn Vilhelmínu draga svo upp allt aðra mynd við andlát hennar árið 1879, en eftirfarandi texti birtist í Norðanfara:
19. fyrra mánaðar andaðist hér í bænum madama Vilhelmine borin Lever, á áttunda ári yfir sjötugt; hún hafði lengi verið blind og veik og legið árum saman í rúminu. Kona þessi var einkar vel gáfuð og í mörgu tilliti fágæt afbragðskona, og allt til þess að hún varð blind og lagðist í rúmið, framkvæmdar- og starfsöm, veglynd og fús til hjálpar og velgjörðamóðir margra fátækra og munaðarlausra, að svo miklu leyti, sem efni hennar framast leyfðu.[6]
Orð Jóns Espólín segja meira um hvernig samfélag þess tíma leit á konur sem fóru sínar eigin leiðir. Hafa ber í huga að Vilhelmina lifði í samfélagi þar sem konur voru í raun útilokaðar frá félagslegri þátttöku, en hún lét það ekki hindra sig. Hún rak fyrirtæki og hafði þann kjark og dug til að fara á kjörstað og kjósa fyrst kvenna. Hvað sem sagt verður um persónuleika maddam Vilhelmínu Lever, þá er ekki því að leyna að hún markaði spor í kvennréttindabaráttu á Íslandi með þátttöku sinni í fyrstu bæjarstjórnarkosningum á Akureyri 1863.
__________________
- Lovsamling for Island XVIII, bls. 390-391 (Anordning angaaende Handelsstedet Akureyris 29. Avgust Opprettelse til en Kjöbstad og Sammes ökonomiske Bestyrelse. Skodsborg, den 29. Avgust 1862).
- Stjórnartíðindi fyrir Ísland 1882 A. bls. 70 (Kaupmannahöfn: J.H.Schultz ) (Nr. 10. Lög um kosningarrjett kvenna. 12. maí 1882).
- Auður Styrkársdóttir, „Forspjall“, Kúgun kvenna. Eftir John Stuart Mill, þýðandi Sigurður Jónsson (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 1997), bls. 41- 42; Gísli Jónsson, Konur og kosningar. Þættir úr sögu íslenskrar kvennréttindabaráttu (Reykjavík: Bókaútgáfa menningarsjóðs 1977), bls. 7-8.
- Vefur. „Kvennasögugangan“. Akureyrarstofa. http://www.visitakureyri.is/static/files/vefmyndir/akureyri/pdf/Kvennaso..., skoðað 15. apríl 2015; Vefur. „Frumkvöðlar“. Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2005, http://www.skjaladagur.is/2005/603_03.html, skoðað 15. apríl 2015; Vefur. „Jafnrétti og kvennaframboð“. Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2005, http://www.skjaladagur.is/2005/603_02.html, skoðað 15. apríl 2015.
- Ættatölubækur Jóns Espólíns, pag. 1829-1830.
- Norðanfari 31.-32. tölublað, dagsett 04.07.1879, bls. 64.
Helga Hlín Bjarnadóttir ritaði kynningartexta.
Heimildir
- ÞÍ. Skjalasafn sýslumannsins í Eyjafjarðasýslu. O/7-3 (kjörskrár Akureyrar 1862).
- Auður Styrkársdóttir, „Forspjall“, Kúgun kvenna. Eftir John Stuart Mill, þýðandi Sigurður Jónsson (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 1997), bls. 9-65.
- Gísli Jónsson, Konur og kosningar. Þættir úr sögu íslenskrar kvennréttindabaráttu. Reykjavík: Bókaútgáfa menningarsjóðs 1977.
- Lovsamling for Island XVIII 1860-1863. Samlet og udgivet af Oddgeir Stephensen. Kaupmannnahöfn: Andr. Fred. Höst & Sön 1884.
- Norðanfari 31.-32. tölublað, dagsett 04.07.1879.
- Stjórnartíðindi fyrir Ísland 1882 A. Kaupmannahöfn: J.H.Schultz án árs.
- Ættatölubækur Jóns Espólíns. óútg.
- Vefur. „Kvennasögugangan“. Akureyrarstofa. http://www.visitakureyri.is/static/files/vefmyndir/akureyri/pdf/Kvennaso..., skoðað 15. apríl 2015.
- Vefur. „Frumkvöðlar“. Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2005, http://www.skjaladagur.is/2005/603_03.html, skoðað 15. apríl 2015.
- Vefur. „Jafnrétti og kvennaframboð“. Norræni skjaladagurinn 12. nóvember 2005, http://www.skjaladagur.is/2005/603_02.html, skoðað 15. apríl 2015.