Fyrsta stórveldið í íslenskum körfuknattleik

Ágúst 2021

Fyrsta stórveldið í íslenskum körfuknattleik

ÞÍ. Íþróttafélag Keflavíkurflugvallar 2022/49

Körfuknattleikur, þó ekki í þeirri mynd sem við þekkjum í dag, var spilaður hér til sýnis og iðkaður í leikfimikennslu á þriðja áratug síðustu aldar. Almennt er talið að iðkun körfuknattleiks á Íslandi hafi tekist á flug með komu bandaríska hersins þegar hann tók við Keflavíkurflugvelli um miðja síðustu öld. Heimild mánaðarins að þessu sinni svokölluð heimildarbók, eins og hún er kölluð á titilsíðu, um stofnun Íþróttafélags Keflavíkurflugvallar sem þekkt er sem ÍKF og mætti segja að sé fyrsta íslenska stórveldið í körfuknattleik hér á landi, enda vann félagið fjögur af fyrstu sex Íslandsmótunum í íþróttinni. 

ÍKF var stofnað þann 30. október 1951 og voru stofnendur um 30 manns eins og titilsíða heimildabókarinnar segir en í tímaritinu Faxa var sagt að þeir hafi verið 39. Félagið gekk í Íþróttabandalag Suðurnesja og tók félagið þá þegar þátt í handboltamótum og „vollí“ móti en þá er væntanlega átt við blak. Þeir sem voru félagar í ÍKF voru allir starfsmenn á Keflavíkurflugvelli. Í fyrstu stjórn félagsins voru kosnir Bogi Þorsteinsson sem formaður, Ingi Gunnarsson varaformaður, Stefán Linnet ritari, Pétur Kárason gjaldkeri og Sigurður Steindórsson, áhaldavörður. Bogi og Ingi eru taldir miklir frumherjar í körfuknattleik á Íslandi en Bogi var fyrsti formaður Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ) og Ingi var fyrsti landsliðsfyrirliði Íslendinga í körfuknattleik. Fyrsti landsleikur Íslendinga var gegn Dönum árið 1959 og er hægt að skoða myndir úr þeim leik hér í heimild mánaðarins.

Heimildabókin inniheldur mikið af myndum og úrklippum af afrekum ÍKF en einnig er rætt um aðstæður og íþróttaúrslit í hinum ýmsu íþróttum en liðið reyndi við handbolta og blak eins og áður hefur komið fram þó megin áherslan hafi ávallt verið á körfubolta. Félagið tók á hverjum vetri þátt í svokölluðu Vallarmóti en þá var spilað við hinar ýmsu deildir bandaríska hersins eins og Weather, Navy, Air Police og svo má lengi telja. Ætla má að hver einasta deild innan varnarliðsins hafi sett saman lið til dægrastyttingar.

Á þriðju blaðsíðu ritsins eru upplýsingar um úrslit leikja í fyrsta Íslandsmótinu í körfuknattleik þar sem lið ÍKF sigraði. Mótið hófst þann 20. apríl 1952. Ásamt ÍKF kepptu Ármann, Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR), Íþróttafélag stúdenta (ÍS) og félagið Gosi sem var gestalið. Lið ÍFK vann alla leiki sína og er tekið fram í heimildarritinu að þjálfarar liðsins hafi verið „… 2 menn úr ameríska sjóhernum þeir Eugene Crowlay og James Wahl.“ Aftast í bókinni er listi yfir hverjir tóku þátt í fyrstu Íslandsmótunum fyrir hönd ÍKF en alls unnust fjórir titlar í fyrstu sex Íslandsmótunum. Fyrir fysta mótið hafði ÍKF gefið Íþróttasambandi Íslands stóran bikar að gjöf til þess að veita sigurliðinu en við verðlaunaafhendinguna var þess getið m.a. um „nauðsyn þess að stofna hér körfuknattleiksráð og halda dómara námskeið í þessari íþróttagrein.“

ÍKF tók þátt í Íslandsmótunum sem haldin voru eftir 1956 en KKÍ var stofnað árið 1962 og flakkaði liðið á milli efstu tveggja deildanna á meðan þátttaka í öðrum íþróttum virðist hafa dalað. Árið 1969 dró svo til tíðinda í sögu þessa félags en það hafði unnið sér keppnisrétt í fyrstu deildinni í körfubolta sem þá var efsta deild. Á bls. 150 í heimildarritinu segir að enn hafi „komið upp raddir að breyta nafni félagsins þar sem sveitarfélagið í Njarðvík hefur sagt að það myndi styrkja félagi(sic) betur fjárhagslega, en það hefur einna helst staðið í vegi fyrir ÍKF þ.e. hve fjárvana það hefur verið – á síðasta stjórnarfundi var svo ákveðið að ganga í raðir UMFN ef viðunandi leyfi fengjust – “. Þarna höfum við því heimild um það þegar körfuknattleiksdeild Ungmennafélags Njarðvíkur var sett á laggirnar. Á sömu blaðisíðu segir síðan: „Ákveðið er að nú verði keppt í fyrstu deild undir nafni UMFN, þar sem öll leyfi hafa fengist til þess.“ Þar með lagðist ÍKF af og UMFN tók við og hélt áfram að bæta við þá sögu þegar ÍKF var sett á laggirnir og þar á meðal með þátttöku í Vallarkeppninni. Félagið á sér ríka og glæsilega sögu í íslenskum körfubolta.

Árni Jóhannsson ritaði kynningartexta

Hægt er að lesa bókina hér.

Einnig er hægt að skoða bréf varðandi landsliðskvaðningu Inga Gunnarssonar og fleira hér.

 

Heimildir

Íslandsmeistarar í körfuknattleik
ÍKF (Íþróttafélag Keflavíkur) 1969-1970
ÍKF (Íþróttafélag Keflavíkur) Vallarkeppni 1969-1970
Fyrstu Íslandsmeistarar í körfuknattleik