Fréttir af gosi í Surtsey
ÞÍ. Ríkisútvarpið FA/262. Innlendar fréttir 1.-15. nóvember 1963.
Haustið 1963 hófst gosið í Surtsey, nánar tiltekið 14. nóvember. Gosið stóð í tæp fjögur ár og hefur gefið jarðvísindamönnum og náttúrufræðingum einstakt tækifæri til að kynna sér þróun eldgosa undir vatni og til að fylgjast með landnámi lífs á ósnortnu landi.*
Í Þjóðskjalasafni eru varðveitt gögn frá Ríkisútvarpinu, m.a. handrit að fréttum allt frá stofnun þess árið 1930. Þar er að finna margar frásagnir af Surtseyjargosinu og framvindu þess. Fyrsta fréttin kom í morgunfréttunum þennan dag. Helsta heimildin er vélbáturinn Ísleifur annar frá Vestmannaeyjum sem þá var að veiðum skammt frá gosstaðnum. Haft hefur verið samband við Veðurstofuna og talað við Pál Bergþórsson sem hefur trúlega verið á vakt þennan morgun.
Af skammstöfunum efst til vinstri á myndinni má ráða að þau Thorolf Smith (ThS) og Margrét Jónsdóttir (MJ) fréttamenn hafa unnið morgunfréttina en Jón Magnússon (JM) fréttastjóri hádegisfréttina.
Í handritunum má fylgjast nokkuð með vinnubrögðum fréttamanna útvarpsins og hvernig þeir bæta málfar og efnismeðferð. T.d. hefur upphaflega verið ritað í morgunfréttinni „Nánari fregnir af gosinu, sem er að sjálfsögðu mjög óvenjulegt, höfðu ekki borist fréttastofunni ...“ Síðan hefur verið strikað yfir orðin „sem er að sjálfsögðu mjög óvenjulegt,“ því þessi staðhæfing er aðeins skoðun fréttamannsins en bætir engu við staðreyndir um gosið sjálft.
Hádegisfréttir voru lesnar kl. 12:25 og þá hafa verið komnar nánari upplýsingar. Vitnað er til skipstjórans á Ísleifi öðrum og fréttaritarinn í Vestmannaeyjum hefur verið í sambandi. Hér er líka dæmi um viðleitni til nákvæmni því í annarri línu hefur upphaflega staðið „fjórar sjómílur vestsuðvestur af Geirfuglaskeri“ en því er breytt í „þrjár sjómílur vestnorðvestur af Geirfuglaskeri.“
Hér birtast aðeins tvær myndir af þessari einu frétt en þær sýna vönduð vinnubrögð á fréttastofunni og kröfuharðan yfirlestur, sem t.d. sést í neðstu línunni þar sem lítið „v“ er haft í Vestmannaeyjar, því er kyrfilega breytt í stórt „V“. Rétt skal vera rétt, þótt munur á stórum og litlum stöfum heyrist raunar ekki í upplestri.
-----
*Glöggar heimildir um ríkisútvarpið er að finna í bókinni Útvarp Reykjavík. Saga ríkisútvarpsins 1930-1960, eftir Gunnar Stefánsson, sem kom út í Reykjavík árið 1997.
Jón Torfason ritaði kynningartexta.