Brú yfir Ölfusá
ÞÍ. Tryggvi Gunnarsson (1835-1917) bankastjóri 2017/44. F/26, örk 3.
Samgöngur á Íslandi voru lengi vel erfiðar. Engir vegir voru færir hestvögnum og brýr yfir ár og fljót fáar. Einkum þóttu jökulár mikill farartálmi og var lengi talið að ógerlegt væri að brúa stórárnar á Suðurlandi, sérstaklega Þjórsá og Ölfusá. Það var ekki fyrr en undir lok 19. aldar að verulegar framfarir urðu í samgöngumálum landsins. Stærstu framkvæmdir í samgöngumálum á þeim tíma voru bygging Ölfusárbrúar árið 1891 og Þjórsárbrúar árið 1895.
Aðdragandi að byggingu brúar yfir Ölfusá var nokkur. Stofnun sýslunefnda árið 1872, sem voru stjórnsýslueiningar sveitarstjórnarstigsins, voru lykilþáttur í að efla samgöngur á landinu og svo var einnig á Suðurlandi. Fyrstu hugmyndir um brúun stóránna á Suðurlandi komu fram á fundi í Sýslunefnd Rangárvallasýslu árið 1872 og fylgdu Árnesingar í kjölfarið nokkru síðar. Fulltrúar sveitarfélaganna í sýslunefndunum fylgdu málinu eftir af einurð enda voru samgöngubætur mikið hagsmunamál Sunnlendinga, m.a. til að koma landbúnaðarafurðum á markað í höfuðborginni og til útflutnings í gegnum Reykjavíkurhöfn.
Bygging brúar yfir Ölfusá var stærsta samgönguverkefni sem ráðist hafði verið í á Íslandi til þess tíma. Framkvæmdirnar voru dýrar og þvældist málið þess vegna í áraraðir á Alþingi og í sýslunefndum. Að lokum tók Tryggvi Gunnarsson (1835-1917), alþingismaður, málið upp á sína arma. Hann gerði tilboð í byggingu brúar og hóf undirbúning árið 1889. Byrjað var að reisa Ölfusárbrú sumarið 1891 og var hún vígð við hátíðlega athöfn 8. september sama ár. Ölfusárbrú var rúmlega 100 metra hengibrú byggð úr stáli. Fyrsta brúin yfir Ölfusá stóð til ársins 1945 en þá var tekin í notkun ný brú, sem einnig var hengibrú, og er hún enn í notkun.
Meðfylgjandi teikningar eru úr einkaskjalasafni Tryggva Gunnarssonar sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni. Skjalasafnið er afar merkilegt enda Tryggvi umsvifamikill, jafnt sem stjórnmála- eða framkvæmdamaður. Í skjalasafni Tryggva er að finna mikið af heimildum um smíði Ölfusárbrúar, þ.m.t. fjölda teikninga af brúnni.
Árið 1895 var brú yfir Þjórsá vígð og þar með voru stórir farartálmar á Suðurlandi úr sögunni. Með brúun Ölfusár og Þjórsár voru nú forsendur til að leggja vagnfæra vegi frá Reykjavík og austur í sveitir og höfðu þær samgöngubætur mikla þýðingu fyrir íbúa Suðurlandsundirlendis. Það var þó ekki fyrr en 1974 sem lokið var að brúa hringveginn í kringum landið með brúm yfir jökulsárnar á Skeiðarársandi.
Njörður Sigurðsson ritaði kynningartexta.
Heimildir
- ÞÍ. Tryggvi Gunnarsson (1835-1917) bankastjóri 2017/44. F/26, örk 3.