Athyglisvert Íslandskort frá upphafi 19. aldar

Júlí 2017

Athyglisvert Íslandskort frá upphafi 19. aldar

ÞÍ. Einkaskjalasafn. E.273.16. Árni Thorsteinson. (Jarðabók yfir Ísland 1806, með Íslandskorti. Samin af Árna Sigurðssyni (Sívertsen)).

Kort ÿfir allar landsbÿgdir Islands eptir þeirri deilingu, sem Matr. Comm. af 1800 hefir giört ÿfir þess héröd, hreppi, þíng- og kirkjusóknir.

Konungsúrskurður um skipun nefndar (martrikel commission) til þess að gera nýja jarðabók fyrir Ísland var gefinn út 18. júní árið 1800, svo og erindisbréf nefndarinnar. Ætlunin var að skattgjald á Íslandi yrði með líkum hætti og í Danmörku. Í nefndinni sátu: Ludvig Erichsen, fulltrúi í rentukammeri (amtmaður í Vesturamti 1802–1804), Stefán Stephensen, dómari í Landsyfirrétti, Árni Sigurðsson (Sívertsen) kansellísekreteri og Gunnlaugur Briem sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu. Starfsreglur fékk nefndin 2. ágúst sama ár. Reglunum var breytt nokkuð 18. mars 1802. Eitthvað munu landsmenn hafa brugðist stirðlega við, því að rentukammerið ákvað sektir fyrir mótþróa gegn jarðamatinu 24. mars 1802. Vorið 1805 var þremur nefndarmönnum (Ludvig Erichsen var látinn) boðið að koma til Kaupmannahafnar með haustskipum til þess að aðstoða við úrvinnslu gagnanna, svo að ákveða mætti jarðamatið þá um veturinn. Nefndin var lögð niður með konungsúrskurði 4. júlí 1806, en rentukammerið sagði nokkurn tíma líða, áður en það sæi sér fært að leggja jarðamatið fyrir konung til staðfestingar. Raunar varð aldrei neitt af því en gögn nefndarinnar eru varðveitt í skjalasafni rentukammers í Þjóðskjalasafni Íslands. Á því eru þó undantekningar: Í Þjóðskjalasafni eru tvær bækur í einkaskjalasafni Árna Thorsteinson landfógeta, í öskju sem ber safnmarkið E. 273.16. Ekki er vitað, hvernig þessar bækur hafa borist í hendur Árna. Hugsanlega hafa þær verið hluti af skjölum jarðamatsnefndar, sem starfaði á árunum 1855–1859, en verklok birtust í bókinni Ný jarðabók fyrir Ísland, samin eptir tilskipun 27. maímánaðar 1848 og allramildilegast staðfest með tilskipun 1. aprílmánaðar 1861 og kom út árið 1861. Skjöl frá þeirri nefnd eru einnig í einkaskjalasafni Árna Thorsteinson, en hann mun ekki hafa verið nefndarmaður.

Önnur áðurnefndra bóka ber þennan langa titil:

Sú nía Jardabók yfir Island af MDLLLVI. innehaldandi sérhvörrar iardar dírleika, qvíelda-tölu, hlunnende og skada, samt upphæd a pening þeim, sem hvörein iörd fodrad gétur i öllu medalári vid heiskap og útigang. Framvegis er hér avísud sú inndeiling sem g< i >örd er ýfir giörvöll héröð, hreppi, þíng- og kirkusókner í landinu, hvervetna bygt a þvi verdlagi og sérdeilis forslögum, sem samin eru, af þeirri árid 1800 allranádugast tilskipudu iardaverdleggingarnefnd a íslandi; Samantekinn af einum þessarar nefndar fÿrrverandi medlimi Cancellie-Secritera Arna Sivertsen.

Fremst í þeirri bók er kortið, sem hér birtist og sýnir jarðamatshluta Íslands. Engar upplýsingar fylgja um gerð kortsins, sem hlýtur að hafa verið unnið í Kaupmannahöfn. Fyrirmyndin er mjög sennilega kort Jóns Eiríkssonar og Ólafs Ólavíusar, en það var gert vegna Ferðabókar Ólafs, sem kom út árið 1780. Það var í raun lítt breytt frá korti Jóns Eiríkssonar og Gerhards Schøning, er fylgdi Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar í útgáfunni árið 1772. Fyrirmynd að því er komin frá Íslandskorti Thomasar Hans Henriks Knoff en hann vann að mælingum og kortagerð á Íslandi árin 1730–1734.

Miklu færri örnefni eru á þessu korti en því í Ferðabók Ólafs Ólavíusar. Nefndarmenn virðast hafa gert ráð fyrir ýmsum stjórnsýslubreytingum en það hefur ekki verið kannað nánar. Þannig eru sýslur ekki nefndar. Hins vegar er talað um héruð, sem ekki falla endilega að sýslumörkum. Þannig nær t.d. Reykjavíkurhérað yfir Gullbringu-, Kjósar- og Borgarfjarðarsýslur, Snæfellsneshérað yfir Mýra-, Hnappadals- og Snæfellsnessýslur, en þó ekki nema að mörkum Helgafellssveitar og Skógarstrandarhrepps. Skógarströnd virðist lenda í Strandahéraði ásamt Dalasýslu, Geiradals- og Reykhólahreppum og Strandasýslu og þannig má halda áfram. Raunar er ýmisleg torlæst á þessu korti og vantar jafnvel orðhluta.

Björk Ingimundardóttir ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • ÞÍ. Einkaskjalasafn. E.273.16. Árni Thorsteinson. (Jarðabók yfir Ísland 1806, með Íslandskorti. Samin af Árna Sigurðssyni (Sívertsen)).
  • Lovsamling for Island VI. bindi, bls. 452–461, 562–564, 566–569, 735–736; VII. bindi, bls. 80–82. Kaupmannahöfn 1856–1857.
  • Haraldur Sigurðsson: Kortasaga Íslands frá lokum 16. aldar til 1848, bls. 140–146, 156–164. Reykjavík 1978. — Ferðabókakortin eru á myndblöðum 28 og 29.
Íslandskortið sem fylgir jarðabók Árna Sigurðssonar (Sivertsen).