Ákæra Páls Hanssonar á hendur hreppsnefndinni í Kleifahreppi 1901

Ágúst 2019

Ákæra Páls Hanssonar á hendur hreppsnefndinni í Kleifahreppi 1901

ÞÍ. Suðuramt. B/101. Db. I. Nr. 240.

Um vorið árið 1900 neyddist Páll Hansson til að segja sig til sveitar í Kleifahreppi hinum forna í Vestur-Skaftafellssýslu þar sem hann var orðinn bjargþrota. Hann var 32 ára gamall, giftur með fjögur börn á framfæri sínu, allt drengi á aldrinum tveggja til tíu ára, konan ófrísk, fimmti sonurinn fæddist um haustið.

Páll var fæddur á Kirkjubæjarklaustri en fluttist á fyrsta ári í Öræfasveit með móður sinni. Eftir að hann var kominn til vits og ára var hann í vinnumennsku víða um Austurland, meðal annars á Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði. Fjögur ár var hann í húsmennsku á Reyðarfirði og eitt ár í Papey. Þá eitt ár í vinnumennsku á Smyrlabjörgum í Suðursveit og kom auralaus þaðan til Kirkjubæjarklausturs vorið 1900. Hann taldist nú ásamt fjölskyldu sinni vera sameiginlegur ómagi Kirkjubæjarhrepps og Hörgslandshrepps þar sem Kleifahreppi hafði verð skipt.

En Páli lenti mjög fljótt saman við sveitarstjórnina — honum fannst hann alls ekki fá nógu góðar móttökur í sínum framfærsluhreppi. Einhver áhöld voru líka um hvort hann ætti ekki frekar heima á sveit í Öræfasveitinni og var niðurstaðan sú að elsti drengurinn var sendur þangað einsamall. Páll Hanson varð meðal annars æfur út í hreppsnefndina yfir því. En hann var reiður yfir fleiru og endaði með því að hann lagði fram formlega kæru til amtmanns vegna meðferðarinnar á sér og fjölskyldu sinni.

Ákæran var frábært uppátæki hjá Páli því með henni varð til heilmikið af skjölum sem varpa ljósi á málið, bæði út frá sjónarhóli Páls og hreppsnefndarinnar sem fékk að sjálfsögðu að svara fyrir sig. Öll skjölin eru nú varðveitt í skjalasafni Suðuramtsins í Þjóðskjalasafni.

Kæran er skrifuð á Mýrum í Álftaveri í janúar 1901. Páll segist hafa óskað eftir því við hreppsnefndina að fjölskyldan fengi að búa saman en því var illa tekið og honum komið fyrir „í þeim lélegasta stað er þeir vissu af í hreppnum.“ Íbúðarhús voru varla íbúðarhæf. Þetta var bærinn Ytri-Tunga í Landbroti. Húsbóndi hans neitaði að lagfæra baðstofuna og neitaði Páll þá að vera þar og segir síðan: „Urðu þeir svo reiðir að varla munu dæmi til vera. Þeir komu þremur börnum mínum fyrir í þá lélegustu staði sem þeir gátu fengið og voru þessir sakleysingjar látnir gjalda mín. [...] Um mig var ekkert hugsað, ég átti að vinna, enda getur það gengið svo lengi sem ég hef heilsu en ég hef hættulegan sjúkdóm og má ekki vinna þegar hann gjörir vart við sig.“ Hann segir allar eigur sínar hafi verið teknar af sér „að fötunum sem ég stóð í fráteknum og einum nærfatnaði.“ Að lokum skrifar hann svo undir bréfið sem Páll Hansson Öræfingur.

Magnús Bjarnason prestur á Prestsbakka og oddviti Hörgslandshrepps svarar ákæru Páls í apríl 1901 með langri greinargerð, einar tíu blaðsíður, og kemur þá ýmislegt annað í ljós. Páli hafði verið boðin húsmennska í Ytri-Tungu með fjölskylduna, „og var þá ei annað á Páli að finna en að hann væri vel ánægður með staðinn“ segir Magnús, „enda eru húsakynni þar engu verri en á fjölda mörgum bæjum hér í sveitinni.“ Páll hafði skilið allar eigur sínar eftir í Suðursveit og hafði ekkert meðferðis þegar hann kom nema fötin sem hann stóð í. Það var því efnt til samskota handa honum og fjölskyldunni, bæði fæði og klæði. Hann neitaði að vera í Ytri-Tungu og þá fyrst var ákveðið að skipta fjölskyldunni niður á ýmsa bæi en svo átti að heita að hann væri sjálfur í Ytri-Tungu sem hann gerði ekki. Hann var á flækingi í sýslunni, meðal annars tvo mánuði á Mýrum í Álftaveri.

Hann var sendur í vegavinnu austur að Nesjum við Hornafjörð og hefur tollað þar í um tvo mánuði. Hann átti svo að borga skuld sína við hreppinn af þeim launum, sem hann gerði ekki. Þá var farið í að leggja hald á eigur hans. Spurður um hvað hann gerði við launin fyrir vegavinnuna segist hann hafa „keypt eina á af Guðmundi í Tungu fyrir 10 krónur en hinu hefði hann kastað í Tungufoss.“ Óvíst er hvort það sé satt hjá honum, en málið verður þó að skoðast í ljósi þess að um þetta leyti átti hvort sem var að fara að leggja hald á eigur hans.

Eitt sinn kom Páll til séra Magnúsar að sníkja mat þar sem hann var orðinn alveg bjargarlaus. Magnús segir svo frá: „... fékk hann þá hjá mér enn korn, kaffi og sykur og kind veturgamla. Varð ég að senda tvo menn inn um alla heiði til að smala fé mínu en á meðan sat hann upp á lofti borðaði steik og drakk kaffi með kökum, því það var tilhaldsdagur. En hann hafði ekki fyrir því að þakka okkur hjónum, hvorki þetta né annað.“ Niðurstaðan var að ákæra Páls væri „ósvífin ósannindi frá upphafi til enda.“

Umsögn sýslumanns til amtsins vegna kærunnar var að: „Páll þessi er mjög óstöðugur í ráði og geðfrekur og mun erfitt að gjöra honum til hæfis“, og leggur til að kærunni sé ekki sinnt frekar. Fljótlega eftir þetta fór Páll til Mjóafjarðar með konu og tvo yngstu synina en kom aftur á Kirkjubæjarklaustur vorið 1902. Þannig var ástandið í samskiptum Páls og hreppsnefndarinnar þegar Páll Júlíus, einn af sonum Páls Hanssonar, var settur niður í Skaftárdal hjá Oddi Stígssyni og Margréti Eyjólfsdóttur. Um afdrif hans þar má lesa í heimild mánaðarins í ágúst 2018.

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift á ákæruskjali Páls Hanssonar.

Heimildir

  • ÞÍ. Suðuramt. B/101. Db. I. Nr. 240.
  • ÞÍ. Dvergasteinn við Seyðisfjörð. BA/4–1. Prestþjónustubók 1885–1928.
  • ÞÍ. Fjörður í Mjóafirði. BA/5–1. Prestþjónustubók 1882–1903.
  • ÞÍ. Hof í Álftafirði. BA/8–1. Prestþjónustubók 1898–1929.
  • ÞÍ. Hólmar í Reyðarfirði / Eskifjörður. BA/4–1. Prestþjónustubók 1858–1897.
  • ÞÍ. Hólmar í Reyðarfirði / Eskifjörður. BA/6–1. Prestþjónustubók 1897–1927.
  • ÞÍ. Kálfafellsstaður í Suðursveit. BA/3–1. Prestþjónustubók 1847–1911.
  • ÞÍ. Kirkjubæjarklaustur á Síðu. BA/4–1. Prestþjónustubók 1869–1883.
  • ÞÍ. Kirkjubæjarklaustur á Síðu. BA/5–1. Prestþjónustubók 1892–1932.
  • ÞÍ. Sandfell í Öræfum. BC/3–1. Sóknarmannatal 1875–1883.
  • ÞÍ. Vallanes á Völlum / Egilsstaðir. BA/5–1. Prestþjónustubók 1862–1931.

Vefsíður

Smelltu hér að neðan til að sækja uppskrift á ákæruskjali Páls Hanssonar.

Kæra Páls Hanssonar.
Kæra Páls Hanssonar.
Kæra Páls Hanssonar.