Afmæliskveðja Kjarvals til Jónasar frá Hriflu
Í ágúst árið 1966 afhenti Jónas Jónsson frá Hriflu Þjóðskjalasafni hluta af skjölum sínum. Um var að ræða heillaskeyti sem hann hafði fengið sent á afmælum sínum og undirskriftarlista honum til stuðnings vegna hins svokallaða Stóra bombu-máls árið 1930. Að kröfu Jónasar voru skjölin lokuð til 1. maí 1985 en þá hefði hann orðið 100 ára gamall. Skjölunum var því pakkað inn og pökkunum lokað með innsigli Þjóðskjalasafns. Þegar pakkinn var opnaður var innsiglið varðveitt með skjölum Jónasar ásamt merkimiða sem var utan á pakkanum þau tæplega 30 ár sem hann var lokaður.
Í skjalasafninu er að finna heillaskeyti og kveðjur sem sendar voru Jónasi á afmælum hans, einkum stórafmælum. Þannig er mikið af skeytum frá 50, 60, 70 og 80 ára afmælum hans. Ein afmæliskveðja vekur sérstaka athygli, en hún er frá Jóhannesi Sveinssyni Kjarval sem hann sendi Jónasi á fimmtugsafmæli hans 1. maí 1935. Kveðjan er rituð á bréfsefni frá Hótel Borg þar sem Kjarval bjó og inniheldur vísu og „loforð um mynd“ sem virðist vera einhvers konar inneign fyrir málverki. Ekki er alltaf auðvelt að lesa í texta Kjarvals en eftir því sem næst verður komist er textinn svohljóðandi:
Herra Jónas Jónsson Reykjavík
Yndislegi æsku vér
uppi í himins bláma
langrar óska lukku jeg þér
lífs úr mínum ráma
Akrafjöllin, Esja og þú
utan við jökla standi
nóg er í heimi klakaklím
í kappa dáníárslandi
Eins og svífi vindur um voð
víns úr jarðar tráma
lýsir þú sem ljóssins goð
úr landnámunnar gráma
Jóhannes S. Kjarval
1. maí 1935
Með kærri kveðju á afmælisdag Jónasar Jónssonar frá Hriflu
Undirskriftarlistar vegna Stóru bombu-málsins
Í skjalasafni Jónasar er einnig að finna fjölda undirskrifta honum til stuðnings í kjölfar hins svokallaða Stóru bombu-máls sem upp kom í byrjun árs 1930 þegar Jónas gegndi embætti dómsmálaráðherra. Það heiti gaf Jónas máli sem einnig hefur verið nefnt geðveikismálið. Upphaf málsins má rekja til þess að Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppi, heimsótti Jónas í veikindum hans 19. febrúar 1930. Fljótlega fóru að ganga sögur um fund þeirra og var það Jónas sjálfur sem birti fræga grein um hann þann 26. febrúar í Tímanum og nefndi hana „Stóra bomban“. Í greininni, sem er opið bréf til Helga, segir Jónas frá því að Helgi hafi dæmt hann geðveikan. Af þessu urðu mikil blaðaskrif og pólitískar deilur sem stóðu árum saman.
Undirskriftarlistarnir eru annars vegar frá íbúum á höfuðborgarsvæðinu í sérstakri bók og hins vegar laus blöð sem bárust víða að af landsbyggðinni. Á kápu bókarinnar, sem er úr rúskinni, er ritað „Jónas Jónsson dómsmálaráðherra“ með gylltum stöfum. Á fyrstu blaðsíðu stendur skrifað með skrautskrift:
„Vér sem ritum nöfn vor á þetta skjal og öll viðurkennum hina miklu umbótastarfsemi yðar, herra dómsmálaráðherra, finnum sérstakt tilefni til þess nú á þessum tímum að votta yður og nánustu vandamönnum yðar fulla samúð vora. Þetta sérstaka tilefni teljum vér árás þá, sem þér og vandamenn yðar hafa nýlega sætt.
Vér óskum yður ásamt vandamönnum yðar alls velfarnaðar og væntum að fá að njóta yðar ónvenjulegu krafta til heilla fósturjörðinni allt að hinsta degi, svo sem hingað til. Fullvissum vér yður jafnframt um, að traust vort og virðing á yður stendur óhögguð.
Reykjavík 28. febr. 1930.“
Athygli vekur að undirskriftarlistinn er dagsettur aðeins tveimur dögum eftir að grein Jónasar birtist í Tímanum. Fyrstir til að setja nafn sitt á listann voru samráðherrar Jónasar í ríkisstjórn, þeir Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra og Einar Árnason fjármálaráðherra. Líklegt er að bókin hafi legið frammi í Reykjavík og allir stuðningsmenn Jónasar á höfuðborgarsvæðinu hafi getað sett þar nöfn sín. Undirskriftarlistum var svo safnað á landsbyggðinni og virðist þeim hafa verið safnað fram á vor 1930. Þúsundir Íslendinga settu nöfn sín á listann til stuðnings Jónasi.
Njörður Sigurðsson ritaði kynningartexta.
Heimildir
- ÞÍ. Jónas Jónsson frá Hriflu (1885-1968).