20 ára afmæli fullveldisins árið 1938
ÞÍ. Frímerkjasafn Pósts- og síma. Tillögur að frímerkjum 1938.
Árið 1938 voru 20 ár liðin frá því Ísland varð fullvalda ríki. Blöðin prentuðu ítarlegar greinar þar sem forystumenn þjóðarinnar veltu fyrir sér þýðingu fullveldisins og framtíð þess. Evrópa var á barmi heimsstyrjaldar sem átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á valdahlutföll ríkja og þó Íslendingar vissu ekki hvað var í vændum, var ástæða til að óttast aukin átök milli ríkja í álfunni.
Á árunum eftir 1918 vissu ráðamenn varla hvað gera ætti við þennan fullveldisdag 1. desember. Sýslumenn sendu skeyti til stjórnarráðsins og spurðu hvort dagurinn væri formlegur hátíðisdagur. Árið 1938 voru Íslendingar þó orðnir einhuga um að 1. desember ár hvert væri vissulega hátíðisdagur, enda stórafmæli framundan, 20 ára afmæli fullveldisins. Meðal þeirra sem minnast vildu dagsins var Póst- og símamálastjórnin sem hugðist gefa út sérstök frímerki af þessu tilefni, enda eru frímerki afar vel til þess fallinn að minnast merkisviðburða.
Í byrjun nóvember 1937 sendi Guðmundur Hlíðdal, póst- og símamálastjóri, út bréf til landsmanna þar sem þeim var boðið að „gjöra mynd eða uppástungu“ að mynd á slíkt minningarfrímerki og yrði einhver tillaga póststjórninni þóknanleg yrðu greidd 500 króna verðlaun fyrir þá mynd sem notuð yrði. Óhætt er að segja að teiknarar og hönnuðir landsins hafi tekið vel í hugmyndina og sendu þeir inn allmargar hugmyndir að frímerkjum. Kom þá til kasta sérstakrar nefndar að líta yfir tillögurnar. Í nefndinni sátu þeir Matthías Þórðarson þjóðminjavörður, Gunnlaugur Halldórsson húsameistari og Guðmundur Hlíðdal póst- og símamálastjóri. Í stuttu máli var niðurstaða nefndarinnar sú að engin tillaga gæti talist lýsandi fyrir þetta tímabil eða þann atburð, sem afmælið miðaðist við, og var því ákveðið að hafna þeim öllum.
Þrátt fyrir það að engin þeirra tillagna sem fram komu væri notuð voru tillögurnar varðveittar og eru nú í skjalasafni Pósts- og síma í Þjóðskjalasafni Íslands. Í því safni eru meðal annars eintök af öllum útgefnum frímerkjum, auk þess eru í flestum tilfellum í safninu gögn er varða tilurð merkjanna. Skjalasafn Pósts- og síma er eitt stærsta einstaka skjalasafnið sem varðveitt er í Þjóðskjalasafninu, enda var starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar gríðarlega umfangsmikil á árum áður.
Alls bárust um 20 tillögur í samkeppnina um frímerki til að minnast 20 ára afmælis fullveldisins. Því miður er óvíst hversu margir teiknarar eða hönnuðir komu að gerð þeirra. Ennfremur er ekki vitað hverjir áttu hvaða hugmynd, enda bar þátttakendum í samkeppninni að skila tillögum sínum undir dulnefni. Tillögurnar vísuðu flestar til framfara til lands og sjávar. Teikningar af nýjum byggingum, bátum og orkuverum en jafnframt vísanir í glæsta fortíð þjóðarinnar og ýmsar táknmyndir hennar, svo sem fjallkonuna. Þá bárust tillögur sem vísuðu til sambands Íslands og Danmörkur, t.d. afar merkileg tillaga sem fól í sér mynd af brostnum hlekk í keðju. Að sjálfsögðu ber að skoða tillögurnar í ljósi þeirra strauma sem ríktu í myndlist á árunum fyrir fyrri heimsstyrjöld en sumar tillögurnar eru nokkuð „germanskar“ eða norrænar í útliti. Myndirnar sjálfar segja því sína sögu og er hér birt sýnishorn af þeim tillögum sem bárust í samkeppnina.
Þess má að lokum geta að niðurstaða Pósts- og símamálastjórnarinnar varð að lokum sú að gert var minningarfrímerki með mynd af líkani af Háskóla Íslands, en húsið var þá í byggingu eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar.
Unnar Rafn Ingvarsson ritaði kynningartexta.
Heimildir
- ÞÍ. Frímerkjasafn Pósts- og síma. Tillögur að frímerkjum 1938. Tillögur ekki notaðar.
- Jón Aðalsteinn Jónsson: Íslensk frímerki í 100 ár 1873-1973, Rvk. 1977.