Maí 2024

Frelsi í farvatninu? Magnús Ketilsson skrifar um Íslandsverslun á tímamótum veturinn 1783

ÞÍ. Rentukammer 1928 B27/45, Örk 28. Magnús Ketilsson til Christians Martfelt, 7. febrúar 1783 meðfylgjandi greinargerð um íslensk verslunarmálefni.

Á Þjóðskjalasafni Íslands eru fjölmörg bréf sem embættismenn skrifuðu til Christians Martfelt (1728–1790), hagspekings og ritara danska landbústjórnarfélagsins í Kaupmannahöfn. Martfelt bar í brjósti háleitar vonir um að Ísland gæti komist í hringiðu alþjóðlegrar verslunar. Magnús Ketilsson (1732–1803), sýslumaður í Dalasýslu, skrifaði langa greinargerð um verslunar- og efnahagsmálefni Íslands, „Pro Memoria!“, til Martfelts veturinn 1783. Á þeim tíma var að hefjast undirbúningur að breyttum verslunarháttum á Íslandi. Auka átti frelsi í verslun og vinda ofan af einokunarversluninni. Um meginstefnuna, það að koma á frjálsri verslun, var sátt en útfærsluleiðirnar sem hægt var að fara í átt að takmarkinu gátu verið nokkrar og undanfarið ár hafði verið töluverð umræða um það hvaða leið væri rétt að velja. 

En hvers vegna beindist athyglin einmitt á þessum tíma að íslenskum verslunarefnum? Miklar breytingar voru í uppsiglingu í ríkjaskipan umheimsins með aðskilnaði nýlendna Bretaveldis í Norður-Ameríku frá móðurlandinu. Nýjar aðstæður í heimsmálum voru að mótast. Sömu mánuði og tekist var á í ræðu og riti um íslensku verslunarmálin í Kaupmannahöfn og Íslandi fóru fram í París friðarviðræður eftir Frelsisstríðið í Norður-Ameríku. Samningar voru undirritaðir haustið 1783. Með samningunum var pólitískt hlutverk frjálsrar verslunar viðurkennt en hagspekingar höfðu þá bent á að friðsamlegri utanríkissamskipti gætu skapast samhliða auknu verslunarfrelsi.

Segja má að Martfelt og landbústjórnarfélagið hafi átt upptökin að rökræðum um íslensku verslunarmálin en félagið blés til ritgerðarsamkeppni um viðfangsefnið árið 1782. Spurningin var löng: Hvernig ætti að skipuleggja verslun á Íslandi með tilliti jafnt til pólitískra sem efnahagslegra kringumstæðna umheimsins. Jón Eiríksson (1728–1787), konferensráð og embættismaður í Rentukammeri, gaf út rit um verslunarmálin árið 1783 og ári síðar kom út rit eftir Þorkel Fjeldsted (1740–1796), sem gegndi á þeim tíma amtmannsembætti í Noregi, Om en nye Handels-Indretning udi Island. Báðir vildu þeir Jón og Þorkell aukið frelsi en útfærsluleiðirnar sem þeir stungu upp á voru ólíkar. Þorkell var hallur undir tillögu Martfelts frá 1771 um hröð umskipti en Jón var varfærnari.

Um svipað leyti og rit Þorkels kom út sat Magnús sýslumaður og skrifaði álit sitt á efninu. Í bréfi dagsettu 7. febrúar 1783, sem liggur með skýrslu Magnúsar um verslunarmálin, bendir Magnús á það að mikilvægt sé að fara varlega í yfirstandandi breytingum og taka ekki of mikla áhættu sem leiða myndi af sér of miklar verðhækkanir sem bitnað gætu á almenningi í landinu.

Ábendingar Magnúsar voru samdar í andrúmslofti töluverðra væntinga embættismanna um að stór tímamót væru í vændum á Íslandi. Viðreisnaráform danskra stjórnvalda og krúnu myndu brátt fara að skila árangri og þar með bættum lífskjörum á Íslandi. Í tilefni afmælis Kristjáns VII Danakonungs var gefið út lofkvæði konungi til heiðurs á afmælisdegi hans 29. janúar 1783: Kristjánsmál. Það var ort í nafni íslenskrar þjóðar og þar var í hverju erindinu af öðru sagt frá þeim umbótum sem komið hafði verið áleiðis undanfarið. Mynd af voldugum minnisvarða konungi til heiðurs á Íslandi, sem birtist aftast í ritinu með skýringum, sýnir að hér var um háleitt samfélagsverkefni að ræða. Blása átti til mikillar sóknar á næstunni með uppbyggingu atvinnuvega, eflingu heilbrigðismála, sölu konungsjarða, frjálsri verslun, fiskverkun, betri samgöngum, svo fátt eitt sé nefnt sem væntingar stóðu til. Þá gæti Ísland verið góð verslunarhöfn, vegur á sandheimi [útskýring: hafinu], „lægi og lending“. Á myndinni fylgdist gyðjan Von með verslunarskipi sigla í höfn og brennir fórnir í þakklætisskyni til konungs fyrir að ætla að veita Íslandi frjálsa verslun. Hinn gríðarhái steinstöpull gefur vísbendingu um mikilvægi verslunarfrelsisins.

Það lá í hlutarins eðli fyrir hagspekinginn Martfelt að ráðfæra sig við Magnús Ketilsson þegar útfærsla frjálsrar verslunar á Íslandi var komin á dagskrá. Magnús var vel lesinn á sviði hagfræði og samfélagsmála og hafði um langt árabil verið málsvari afnáms einokunarverslunarinnar. Frelsi myndi auka hagræðingu og möguleikana á að selja afurðir landsins á þeim mörkuðum þar sem mest fengist fyrir þær skrifaði hann í skýrslu sinni til Landsnefndarinnar fyrri veturinn 1771. Magnús mælti ákaft fyrir frjálsri verslun og uppbyggingu atvinnuvega í landinu, einkum landbúnaðar, í Islandske Maanedstidende á árunum 1773–1776.  Í skrifum hans gætti greinilegrar andúðar á verslunarháttum Almenna verslunarfélagsins sem leigði verslunina á þeim tíma. Magnús var enn við sama heygarðshornið áratug síðar þegar hann tjáði hug sinn í skrifum sínum til Martfelts.

Skýrslan sem send var utan vorið 1783 var ítarleg greinargerð á 23 þéttskrifuðum blaðsíðum. Magnús rakti verslunarsögu Íslands í gegnum aldirnar. Í upphafi hefði verslunin verið sjálfstæð, „egen Handel“, sem hafi verið „den beste for Landet“. Því næst tekið við „‘Frihandel’; men blev dog mest besögt af andre“. Frá 1602 var verslunin í höndum danskra verslunarfélaga. Enginn hagnaður varð þá eftir í landinu. Aðeins rofaði til um skeið í valdatíð Friðriks IV þegar konungur stuðlaði að auknu frelsi sem leiddi til þess að vörur lækkuðu í verði. En síðan hefði sótt í sama einokunarfarið. Margir kostir fylgdu verslun á Íslandi enda væru miðin óendanlega mikið ríkidæmi og „uudtömmelige.“

Mestu máli skipti við undirbúning verslunarfrelsis að skipuleggja kaupstaðina og staðsetningu þeirra vel. Þeir mættu ekki verða of margir og frelsið sem þar myndi ríkja yrði að vera nægilegt til þess að erlendir kaupmenn sæju sér hag í því að stofna til verslunar á Íslandi. Frelsið mætti þó aldrei bitna á hag ríkisins eða landsmanna. Þetta væri vandmeðfarið og þyrfti bæði reynslu og innsæi við útfærsluna. Grunnforsenda þess að athafnamenn hefðu ágóða af versluninni væru frjálsar veiðar. Hollendingar og Englendingar hefðu lengi nýtt Íslandsmið en nú væri hægt að láta veiðar og verslun þeirra sem og annarra framandi kaupmanna fara um íslenska kaupstaði og fella niður tolla af fiskinum í byrjun. Mikilvægt væri að veita kaupmönnum sem hug hefðu á því að versla á Íslandi frelsi, því reynslan sýndi að frelsið geti haft ótrúleg áhrif til góðs, „Frihed kand udrette utrolige Ting“, skrifaði Magnús.

Magnús óttaðist að erfitt myndi reynast að hemja vöruverð innanlands þegar frelsi í verslun kæmist á. Þess vegna þyrfti að gæta varúðar, fara hægt í sakirnar og stofna ekki of marga kaupstaði í byrjun. Þá væri mikilvægt að gæta að aðstæðum fátækra og hækka ekki lífsnauðsynjar úr öllu hófi í von um ágóða. Þetta erfiða jafnvægi milli ágóða kaupmanna og þarfa heimamanna var viðfangsefni Magnúsar.

Lærdóm sinn á sviði hagspekinnar fékk Magnús sérstaklega frá Bretum að eigin sögn. Hann vísaði í skýrslunni í hugmyndir höfundar nokkurs á sviði hagspekinnar sem hann kallaði „en smuk oeconomisk author“. Gerði Magnús samanburð milli Íslands og Englands, sagðist geta ímyndað sér að ekki væri meira ríkidæmi fólgið í enskri moldu en í auðlindum íslenska hafsins. Þrátt fyrir að Magnúsi hafi verið umhugað um umbætur í landbúnaði og hag bændafólks, eins og víða hefur verið rakið og vel kemur fram í ritinu, var það fiskurinn og fiskveiðar sem gætu riðið gæfumuninn í vegferðinni til aukinnar hagsældar.

Hugmyndir Magnúsar gefa til kynna að hann hafi séð og kynnt sér rit breska upplýsingarmannsins Adams Smith (1723–1790). Jón Torfi Arason, sagnfræðingur og skjalavörður, hefur fjallað ítarlega um bókasafn Magnúsar Ketilssonar í því skyni að meta hugmyndastrauma í samtímanum. Heimildir sýna að sýslumaðurinn Magnús í Búðardal á Skarðsströnd átti merkilegt bókasafn. Í dánarbúinu voru skráðir 335 erlendir bókatitlar. Þar voru áberandi mörg rit eftir þýska hagspekinginn Johan von Justi (1717–1771) sem verið hafði ráðgjafi danskra stjórnvalda eftir miðbik átjándu aldar. Í safninu var einnig að finna rit Adam Smiths, Auðlegð þjóðanna, sem þýtt var á dönsku fyrst allra erlendra mála skömmu eftir útgáfu þess árið 1776. Þá hafði Magnús einnig við höndina ritverk eftir Martfelt sjálfan um efnahagsmál í Danaveldi þar sem Ísland kom mjög við sögu, Philocosmi Betænkninger, og annað rit eftir hann um kornverslun.

Magnús ítrekaði að það þyrfti að viðhafa varfærnar útfærsluleiðir vegna sérstakra landshaga á Íslandi. Þegar Martfelt taldi mögulegt að koma á frelsi í Íslandsverslun á örfáum árum sagði Magnús að nokkra áratugi þyrfti til. Leyndarráðsmaðurinn og greifinn Joachim Godske Moltke (1746–1818), sem var vel að sér í íslenskum efnahagsmálum, umsjónarmaður starfa Landsnefndarinnar fyrri og forstjóri Konungsverslunarinnar síðari um skeið, rifjaði það upp árið 1816 að Jón Eiríksson og samherjar hans, en í þeirra hópi var Magnús Ketilsson, hefðu viljað að Ísland „fyndi sína eigin krapta“ en ekki að viðhafa mikil fjárútlát í umbótaskyni. Þetta var sá ágreiningur sem lá í loftinu á þeim tíma er Magnús skrifaði skýrsluna sína um verslunaráætlun fyrir Ísland. Skjótt skipuðust svo veður í lofti er Skaftáreldar hófust fjórum mánuðum eftir að Magnús festi orð sín á blað og hið ógurlega eldgos var hafið þegar Martfelt las skýrsluna. Enga uppgjöf var að finna þó náttúruöflin sýndu klærnar sem aldrei fyrr og landsnefndin síðari sem hafði það verkefni helst að koma á frjálsri verslun tók til starfa í upphafi ársins 1785. 

Margrét Gunnarsdóttir ritaði kynningartexta.

Heimildir

  • ÞÍ. Rtk. B27/45, örk 28. Magnús Ketilsson til Christians Martfelt, 7. febrúar 1783.
  • Hertel, H. Det Kgl. Danske Landhuusholdningsselskabs Historie I, 1769–1868. København: Det Kgl. danske landhusholdningsselskab, 1920, bls. 28–29, 76–81. 
  • Hrefna Róbertstdóttir. Wool and Society: Manufacturing Policy, Economic Thought and Local Production in 18th Century Iceland. Göteborg: Göteborg universitet, 2008, bls. 81–90.
  • Jón Eiríksson. Forsøg til Forberedelse til at besvare Det Kongelige Danske Landhuusholdnings-Selskabs Spørsmaal om den beste Handels-Indretning for Island fremsat i dets Premie-Liste for 1782, pag. 55. Kiøbenhavn: Nicolaus Møller, 1783. 
  • [Jón Johnsonius].Christiáns-mál, edr. Lof-qvædi um Hinn Hávolldugazta og Allra-milldazta Konung og einvallz-herra Christián hinn siöunda Konúng Danmarkar og Norvegs, Vinda og Gauta, Hertoga í Slesvík, Holsetu, Störmæri, Þettmerkski og Alldinborg. Qvedit i Nafni hinnar Islenzku Þiódar, á Norrænu, edr enn nú tídkada Islanzka túngu med Látíknskri Utleggingu, og a fædingar-degi konungsins, þeim XXIX. Januarii, Ar eptir Christsburd MDCCLXXXIII, i allra-diúpuztu Undirgefni framborit af nockrum Islenzkum Lærdóms-stundurum i Kaupmannahöfn, og Ordu-limum hins Islenzka Lærdómslista Felags, er samanlögdu til útgefíngar Qvædinu. Kaupmannahöfn, 1783. 
  • Jón Torfi Arason. „Hagræn hugsun á átjándu öld: Hugmyndafræði Magnúsar Ketilssonar sýslumanns.“ B.A. ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands, 2018.
  • Landsnefndin fyrri 1770–1771. III. Ritstj. Hrefna Róbertsdóttir og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir. Reykjavík: Þjóðskjalasafn Íslands í samstarfi við Ríkisskalasafn Danmerkur og Sögufélag, 2018, bls. 321–322, 324. 
  • [Magnús Ketilsson]. „Et par Ord om den indenlandske handel og dens Forfald.“ Í Islandske Maaneds-Tidender, 1. árg. 8. tbl. (1773–1774).
  • [Magnús Ketilsson]. „September.“ Í Islandske Maaneds tidender, 3. árg. 12. tbl. (1775–1776).
  • Martfelt, Christian. Beviis at Dannemark og Norges fyrretive-aar-gamle korn-handels-plan ... ikke naaer sin hensigt. Kjøbenhavn: Gyldendal, 1774.
  • Martfelt, Christian. Philocosmi Betænkninger over adskillige vigtige Politiske Materier, i Anledning af Philodani Undersøgelser, meddelte en god Ven paa Landet. København: August Friderich Stein, 1771.
  • Sigfús Haukur Andrésson. Verzlunarsaga Íslands 1774–1807, Upphaf fríhöndlunar og almenna bænaskráin, I–II. Reykjavík: Verzlunarráð Íslands, Fjölsýn, 1988.  
  • Sveinn Pálsson. Æfisaga Jóns Eyríkssonar, Konferenzráðs, Depútéraðs í enu kgl. Rentukammeri, Bókavarðar á því stóra kgl. Bókasafni, o. s. fr. o. s. fr. Samantekin af Handlæknir Sveini Pálssyni; eptir tilhlutan Amtmanns Bjarna Thorsteinssonar, og af þeim síðarnefnda yfirséð og löguð með andlitsmynd og rithandar sýnishorni; útgefin á kostnað ens íslenzka Bókmentafélags. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafjelag, 1828, 45 nm.   
  • Reinert, Eric S. „Johann Heinrich Gottlob von Justi – The Life and Times of an Economist Adventurer,“ í The Beginnings of Political Economy. Johann Heinrich Gottlob von Justi, ritstj. Jürgen Georg Backhaus, 33–74. New York: Springer, 2009.
  • Þorkell Fjeldsted. Om en nye Handels-Indretning udi Island. Kiøbenhavn: Nicolaus Møller, Kongelig Hofbogtrykker, 1784.ÞÍ. Meðallandsþing. BA/2. Prestsþjónustubók 1816–1859, bls. 49, 163, 291.
„ UTSKYRING MALVERKSINS. Heidurs-vardi CHRISTIANS kær kenniz midt, sem eigum vær, at hefia Láds um hædirnar, til Hans velgiörda minníngar. Undir Brióstmynd Ödlíngs tiázt: Æra af Födrlanzins ást, Valord Hans. at vard rót Vísdóms hvílir gudlig Snót. Hægra-megin handan Siá Hiardir lítum þrennar á; yrkiu Lanz er boda bót, biargar allra vega fót. Innan Vardans múramá miúkar fórnir Þackar siá, sem hún fyrir frömum Lanz Fylki brennir og eydslu granz, Vinstra megin flygr Flaust fullan byr og snyr í naust; táknar þa
ÞÍ. Rtk. B2745, örk 28. Magnús Ketilsson til Christians Martfelt, 7. febrúar 1783 - 1
ÞÍ. Rtk. B2745, örk 28. Magnús Ketilsson til Christians Martfelt, 7. febrúar 1783 - 2
ÞÍ. Rtk. B2745, örk 28. Magnús Ketilsson til Christians Martfelt, 7. febrúar 1783 - 3
ÞÍ. Rtk. B2745, örk 28. Magnús Ketilsson til Christians Martfelt, 7. febrúar 1783 - 4
ÞÍ. Rtk. B2745, örk 28. Magnús Ketilsson til Christians Martfelt, 7. febrúar 1783 - 5