Varðveisla skjala í vörslu Þjóðskjalasafns Íslands miðar að því að hægja á eyðingu þeirra og lengja þar með líftíma þeirra með öllum tiltækum meðulum. Þannig er komið í veg fyrir að mikilvægar heimildir glatist.
Þetta er m.a. gert með fyrirbyggjandi forvörslu sem orðið hefur æ þýðingarmeiri og stærri þáttur í starfi forvarða þar sem helstu þættir eru:
- Að koma skjölum fyrir í öruggum geymslum þar sem hægt er að hafa stjórn á umhverfisþáttum eins og hita, raka og birtu.
- Rétt umgengni og meðhöndlun.
- Afritun viðkvæmra og illa farinna skjala, með ljósritun, örfilmun eða með afritun á stafrænan hátt og geymslu skjala í þar til gerðum umbúðum.
- Ástandskönnun og áhersla á upplýsingar og ráðgjöf. Forvörslusjónarmið eru tekin til greina við útlán og sýningar. Viðgerð og styrking getur viðhaldið upprunanlegu útliti skjalanna.
- Að koma á björgunaráætlun þar sem lögð er áhersla á viðbúnað, viðbrögð og enduheimt ef til slysa kemur.
Starfsmenn viðgerðarstofu, forverðir, vinna að því í samvinnu við skjalaverði og aðra starfsmenn Þjóðskjalasafns að varðveita mikilvægar heimildir þjóðarsögunnar, sbr. ákvæði 3. gr. laga nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands.