Skjalfræðikennsla

Kennsla í skjalfræði sem aukagrein í sagnfræði hófst haustið 2011 við Háskóla Íslands í samvinnu við Þjóðskjalasafn Íslands, en hugvísindasvið hafði samþykkt kennslu í skjalfræði í lok árs 2010.

Námsleiðin er ætluð nemendum sem hafa hug á því að starfa á skjalasöfnum, hvort heldur sem skjalavörður á skjalasafni, við stofnun eða fyrirtæki. Námið nær til sígildra aðferða við skjalavörslu. Skoðaður er ferill skjals frá tilurð þess á skrifstofu yfir í fræðilega heimild, fjallað um gamlar og nýjar skjalavörsluaðferðir, frágang skjala í geymslu og gerð skjalaskrár, auk skjalalesturs og stjórnsýslusögu. Einnig er fjallað um nýjar áherslur og viðhorf í skjalfræðum, m.a. um notkun og varðveislu rafrænna skjala, og lögð áhersla á heimildargildi skjala og notkun þeirra.

Aukagreinin er fyrst og fremst ætluð sagnfræðinemum, enda er góð undirstaða í þeirri grein forsenda fyrir  námi í skjalfræði og starfi á þeim vettvangi. Forkröfur eru 20 einingar í sagnfræði, það er Sagnfræðileg vinnubrögð og annað tveggja kjarnanámskeiða í Íslandssögu. Ekkert er því til fyrirstöðu að nemendur með aðra aðalgrein en sagnfræði taki skjalfræði sem aukagrein og eru forkröfur þær sömu og hjá sagnfræðinemum.Til greina kemur að önnur námskeið verði metin sem ígildi forkröfunámskeiða í sagnfræði og þarf að sækja um það til námsbrautar í sagnfræði.

Námið er 60 einingar og námsframboð miðar við að hægt sé að ljúka því á tveimur árum.

Skyldunámskeiðin eru samanlagt 40 einingar og samanstanda nú af eftirfarandi námskeiðum:

  1. Skjalasöfn og skjalavarsla (10 ein).
  2. Skjalavarsla á 20. og 21. öld (10 ein).
  3. Skjalalestur 1550-1850 (5 ein).
  4. Stjórnsýsla á fyrri öldum (5 ein).
  5. Vettvangsvinna á Þjóðskjalasafni (5 ein).
  6. Hagnýtt verkefni (5 ein).

Að öðru leyti eru námskeið valfrjáls, hvort sem það eru sérhæfð námskeið í sagnfræði eða námskeið í öðrum greinum sem tengjast skjalavörslu og stjórnsýslu á einhvern hátt. Ár hvert verður birtur listi yfir þau námskeið sem mælt er með og sem kennd eru hverju sinni.