Á undanförnum árum hefur verið unnið að gerð gagnagrunns sóknarmannatala á vegum Þjóðskjalasafns Íslands. Að mestu leyti hefur það starf farið fram á starfsstöðvum á landsbyggðinni. Á Ísafirði hafa starfsmenn unnið að verkefninu um langt skeið og nú núverið fékkst styrkur frá Byggðastofnun til að ráða starfsfólk á Bakkafirði og Raufarhöfn til verksins. Sóknarmannatöl eru gríðarlega merkilegar heimildir. Þau voru færð af prestum landsins og gátu um hverjir bjuggu á hvaða stað, oft á hverju ári. Elsta sóknarmannatalið sem varðveist hefur hefst árið 1744 og var tekið í Þykkvabæjarklausturssókn en algengast er að þau hefjist undir lok 18. aldar eða í byrjun þeirrar 19. Skráningu þeirra lauk um og eftir miðja 20. öld. Í Þjóðskjalasafni eru varðveittar ríflega 1500 sóknarmannatalabækur frá öllu landinu.
Verkefnið að slá inn upplýsingar úr þessum bókum hófst árið 2009 og nú hafa ríflega 3,2 milljónir færslna verið skráðar og ríflega 2,3 milljónir birtar á vef safnsins, en bækurnar eru birtar eftir yfirferð. Hér er um gríðarlega umfangsmikið verkefni að ræða og má áætla að einungis sé búið að ljúka innslætti gagna 1/4 hluta landsins. Framgangur verksins hefur ráðist af fjárveitingum sem hafa fengist til þess en nú þegar má nýta það til margvíslegra rannsókna t.d. í ættfræði og lýðfræði.
Nú er verið að vinna að innslætti gagna úr Skagafjarðarprófastsdæmi, Húnavatnsprófastsdæmi og Barðastrandarprófastsdæmi, en meðal þeirra gagna sem hafa verið birt eru sóknarmannatöl úr Suður- og Norður-Múlasýsluprófastsdæmum, Þingeyjarprófastsdæmum, Eyjafjarðarprófastsdæmi, Strandaprófastsdæmi og Ísafjarðarprófastsdæmum.
Hægt er að nýta sér það sem þegar hefur verið birt á vefnum: http://salnaregistur.manntal.is/ Þar er einnig hægt að fylgjast með framgangi verksins.
Hægt er að fræðast um sögu sóknarmannatala með lestri greinar Bjarkar Ingimundardóttur í Orðabelg Þjóðskjalasafns: https://ordabelgur.skjalasafn.is/kb/soknarmannatol/