Þjóðskjalasafn Íslands auglýsir til umsagnar drög að reglum um eyðingu námsmatsgagna afhendingarskyldra aðila. Tengil á drög að reglunum ásamt greinargerð er að finna hér fyrir neðan. Þjóðskjalasafn er framkvæmdaaðili opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar skv. 3. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og skal m.a. setja reglur um skjalavörslu og skjalastjórn afhendingarskyldra aðila, sbr. 8. gr. sömu laga.
Námsmatsgögn er skjalaflokkur sem einkum myndast í skólum á öllum stigum. Námsmatsgögn geta þó myndast hjá öðrum afhendingarskyldum aðilum en skólum, t.d. aðilum sem hafa með leyfisveitingar ýmiskonar að gera. Námsmatsgögn verða t.d. til með því að leggja próf fyrir nemendur til að kanna hæfni þeirra við veitingu einkunnar eða veitingu ýmissa leyfa. Námsmatsgögn er skjalaflokkur sem hefur takmarkað upplýsingagildi þegar kærufrestir eru liðnir. Með setningu reglna um eyðingu námsmatsgagna þurfa afhendingarskyldir aðilar ekki að sækja sérstaklega um eyðingu námsmatsgagna sem myndast í starfi til þjóðskjalavarðar skv. 24. gr. laga um opinber skjalasöfn.
Frestur til að skila inn umsögn við regludrögin er til og með 4. desember 2020. Umsagnir og fyrirspurnir skal senda á netfangið skjalavarsla@skjalasafn.is.
Drög að reglum um eyðingu námsmatsgagna afhendingarskyldra aðila.