Greiðir fyrir leit að eigin líki

Júlí 2020

Greiðir fyrir leit að eigin líki

ÞÍ. Sýsl. Vík í Mýrdal. ED2/12 örk 5. Fylgiskjöl skiptaréttar 1920–1929.

Hinn 23. júní 1925 var haldinn skiptafundur að Lyngum í Meðallandi þar sem eftirlátnar eigur í dánarbúum bræðranna Guðlaugs og Guðmundar Ásmundssona voru skrifaðar upp og virtar til peningaverðs. Á fundinn voru mættir erfingjarnir: faðir bræðranna Ásmundur Jónsson og systkinin Guðjón, Steinunn, Dagbjartur, Sveinbjörg og Sigríður. Dagbjartur lagði fram skriflegt umboð fjarverandi systkina, Jónínu og Sigurjóns. Öll voru systkinin fullveðja og höfðu fengið leyfi til einkaskipta.

Guðlaugur hafði látist úr mænuveiki árinu áður, þann 8. júlí 1924, aðeins 22 ára gamall. Þá staddur á Siglufirði þar sem hann hafði verið í vinnu um sumarið en var annars við nám í gagnfræðaskólanum á Akureyri. Talið er að hann hafi ætlað sér að læra til prests.

Guðmundur drukknaði í Skaftá í febrúar 1925 rétt að verða 28 ára gamall. Hann var þá í vinnumennsku hjá Ásmundi föður sínum og er talið líklegt að hann hafi ætlað sér að taka við búskapnum á Lyngum af honum. Atvik voru með þeim hætti að Guðmundur fór fótgangandi heiman frá sér og ætlaði að heimsækja unnustu sína, sem átti heima á Á, vestasta bænum á Síðu ofan við Skaftá en síðan spurðist ekkert til hans í nokkra daga. Var þá hafin leit. Leitarmenn gátu rakið för Guðmundar í snjó að Skaftá þar sem talið er að hann hafi ætlað sér að fara yfir ána á ís sem hafi brostið undan honum og hann fallið í ána. Engar heimildir hafa fundist um hvenær lík Guðmundar fannst. Sennilega hefur ekki liðið langur tími. Líkið var að minnsta kosti fundið í júní þegar skiptafundur var haldinn.

Skiptafundurinn hófst á því að hreppstjóri Eyjólfur Eyjólfsson og virðingarmenn Leiðvallahrepps Hávarður Jónsson og Sveinn Steingrímsson skrifuðu upp og virtu allar eignir dánarbúanna. Þar er hver og einn munur tilheyrandi dánarbúunum tíundaður nákvæmlega: hross, sauðkindur, stígvél, skór, buxur, peysur, skyrtur, nærbuxur og margt fleira eins og uppskriftirnar bera með sér. Á upptöldum eigum búanna má svo sjá að bræðurnir stefndu að ólíkum markmiðum í lífinu. Auk fatnaðar eru í dánarbúi Guðlaugs taldar upp heilmargar bækur sem augljóslega eru skólabækur hans og sýna að hann ætlaði sér að ganga menntaveginn. Í dánarbúi Guðmundar er hins vegar enga bók að finna heldur ær og gemlinga, hryssu, hnakk, beisli og fjárbyssu svo dæmi séu tekin.

Þúsundir dánarbús uppskrifta sambærilegar og þessar tvær eru varðveittar í sýsluskjalasöfnum í Þjóðskjalasafni Íslands og eru mikill heimildabrunnur um samfélagsgerð fyrri alda. Til dæmis við athuganir á verkmenningu og atvinnuháttum og til rannsókna á einstaklingum. Uppskriftirnar koma úr öllum landshlutum eru þær elstu frá fyrri hluta 18. aldar en þær yngstu teygja sig langt fram eftir 20. öld. Sennilega eru þó þessar uppskriftir á dánarbúum Guðlaugs og Guðmundar með þeim yngri þar sem hver og einn munur er tilgreindur, hversu smávægilegur sem hann er, allt niður í nærbrækur.

Viðurkenndar skuldir á dánarbúunum eru að sjálfsögðu einnig skrifaðar niður. Sjá má að báðir bræðurnir hafa skuldað sumum systkinum sínum pening. Útfararkostnaður Guðmundar var 250 krónur sem dánarbúið var krafið um. Dánarbú Guðlaugs var hins vegar ekki krafið um útfararkostnað. Útför hans greiddi vinnuveitandi hans, Helgi Hafliðason, kaupmaður á Siglufirði. Þá var dánarbú Guðmundar krafið um 40 krónur vegna „kostnaðar við leit að líki Guðmundar“. Guðmundur hefur því verið látinn greiða kostnaðinn við leit að eigin líki og munu sennilega fá dæmi um slíkt.

Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ritaði kynningartexta og annaðist uppskrift á dánarbúum.

Heimildir

  • ÞÍ. Sýsl. Vík í Mýrdal. ED2/12 örk 5. Fylgiskjöl skiptaréttar 1920–1929.
  • Ásmundur Jónsson og Vilborg Jónsdóttir frá Lyngum, Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu og afkomendur. Ritnefnd Bjartey Friðriksdóttir, Bjartey Sigurðardóttir, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir, Regína Hallgrímsdóttir og Vigfús Hallgrímsson. Handrit í eigu ritnefndar. (Væntanlegt 2020).
  • Ísafold 13.3.1925, bls. 4.
  • Már Jónsson, „Skiptabækur og dánarbú 1740–1900. Lagalegar forsendur og varðveisla.“ Saga L:1 (2012), bls. 78–103.
  • Morgunblaðið 13.3.1925, bls. 3.
  • Siglfirðingur 30. tbl. 18.7.1924, bls. 120.

Smelltu á tenglana hér fyrir neðan til að sækja uppskrift á dánarbúum Guðlaugs og Guðmundar Ásmundssona.

 

Virðing á dánarbúum Guðmundar og Guðlaugs Ásmundssona.
Virðing á dánarbúum Guðmundar og Guðlaugs Ásmundssona.
Virðing á dánarbúum Guðmundar og Guðlaugs Ásmundssona.
Virðing á dánarbúum Guðmundar og Guðlaugs Ásmundssona.
Virðing á dánarbúum Guðmundar og Guðlaugs Ásmundssona.
Virðing á dánarbúum Guðmundar og Guðlaugs Ásmundssona.
Virðing á dánarbúum Guðmundar og Guðlaugs Ásmundssona.
Virðing á dánarbúum Guðmundar og Guðlaugs Ásmundssona.