Þann 3. febrúar síðastliðinn sendi Þjóðskjalasafn Íslands út rafræna eftirlitskönnun um skjalavörslu og skjalastjórn afhendingarskyldra aðila ríkisins. Er þetta í fjórða skipti sem slík könnun er framkvæmd en síðast var það árið 2016. Niðurstöður voru gefnar út í skýrslum sem aðgengilegar eru á vef Þjóðskjalasafns. Tilgangur eftirlitskannana safnsins er að meta hvernig afhendingarskyldir aðilar ríkisins uppfylla lög og reglur um skjalavörslu og skjalastjórn, umfang pappírsskjala, fjölda rafrænna gagnakerfa og annað sem kemur að skjalamálum ríkisins.
Tengill á könnunina var sendur á forstöðumenn afhendingarskyldra aðila ríkisins og þeir beðnir um að svara eða fela umsjónarmanni skjalasafnsins verkefnið. Svarfrestur var gefinn til 19. febrúar en hann hefur nú verið framlengdur til og með 26. febrúar. Afar mikilvægt er að allir afhendingarskyldir aðilar ríkisins svari könnuninni svo að samanburður við niðurstöður síðustu könnunar verði raunhæfur. Rétt er að hafa í huga að hér er ekki um skoðanakönnun að ræða heldur upplýsingaöflun sem byggir á lögboðnu hlutverki Þjóðskjalasafns, sbr. lög um opinber skjalasöfn.