Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, opnaði nýjan miðlunarvef Þjóðskjalasafns Íslands við hátíðlega athöfn þann 1. desember sl. Hlutverk vefjarins er að safna á einn stað öllum stafrænum heimildum safnsins og leggja notandanum lið við að notfæra sér þær. Það er meðal annars gert með birtingu þeirra í leitarbærum gagnagrunnum og einnig er hægt að nálgast prestsþjónustubækur og sóknarmanntöl frá öllu landinu í landfræðilegri vefsjá kirkjubóka.
Á undanförnum árum hefur verið gert mikið átak í skönnun og ljósmyndun ýmissra skjala, sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni. Það verkefni hefur annars vegar verið unnið af starfsfólki Þjóðskjalasafns og hins vegar í samstarfi milli safnsins og utanaðkomandi aðila. Síðastliðin tvö ár hefur Þjóðskjalasafn átt í góðu samstarfi við bandarísku samtökin Family Search sem sérhæfa sig í birtingu heimilda um ættfræði og persónusögu og hafa yfir að ráða gríðarstórum gagnagrunni um ættfræði og persónusögu frá fjölmörgum löndum. Starfsfólk á vegum Family Search hefur séð um skönnun og ljósmyndun skjala, en starfsfólk Þjóðskjalasafns undirbúið gögnin til skönnunar, séð um skráningu þeirra og birtingu á vef safnsins eftir því sem verkinu vindur fram. Nú þegar hafa öll sóknarmanntöl og prestþjónustubækur verið skannaðar og stór hluti af þeim manntölum sem geymd eru á Þjóðskjalasafni. Þá er hafin skönnun á margvíslegum öðrum skjölum sem geta varpað ljósi á fjölskyldusögu og ættfræði. Má þar nefna dómabækur, skiptabækur, vesturfaraskrár, fermingarskýrslur og legorðsskýrslur.
Þá hafa áður verið skönnuð ýmis gögn er varða eignarhald á jörðum og lýsingu á fasteignum. Þannig eru túnakort, landamerkjaskrár og nokkur fasteignamöt nú aðgengileg á vefnum.
Það er von Þjóðskjalasafns að þessi birting heimilda á vefnum auðveldi almenningi notkun þessara merkilegu heimilda. Á komandi misserum munu bætast við margvíslegar heimildir og jafnframt verður unnið að áframhaldandi þróun á birtingu þeirra.
Auk birtingar skjala eru ýmis rit Þjóðskjalasafns gerð aðgengileg á vefnum, sem og rannsóknir og aðrir vefir, sem safnið stendur að, eða er aðili að. Á stafræna heimildavefnum mun safnið standa að vefsýningum um ýmis efni. Fyrsta vefsýningin um konungsríkið Ísland 1918-1944 hefur nú verið birt. Hún byggir á gögnum úr íslenskum og dönskum skjalasöfnum og er bæði á íslensku og dönsku.