Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra afhenti Þjóðskjalasafni stafræn afrit af um 22.000 skjölum úr ríkisskjalasafni Danmerkur um samskipti Íslands og Danmerkur á fyrri hluta 20. aldar, en þau skjöl hafa nú að hluta til verið gerð aðgengileg á nýjum stafrænum heimildavef Þjóðskjalasafns Íslands.
Þau skjöl sem hér um ræðir eru annars vegar úr skjalasafni danska utanríkisráðuneytisins og eru í raun samsafn upplýsinga er varða samskipti Íslands og Danmerkur á fyrri hluta 20. aldar og hins vegar gögn hinnar svokölluðu Dansk-íslensku nefndar, sem var stofnuð með sambandslagasamningnum 1918 og starfaði fram yfir lýðveldisstofnun. Hlutverk hennar var að yfirfara lög frá þjóðþingum Danmerkur og Íslands og vinna að lausn ágreiningsmála á milli landanna.